Ráðherrafundur EFTA veitir Palestínu sérstakt framlag úr tæknisjóði
Tillaga Íslands um að veita Palestínu sérstakt framlag úr tæknisjóði EFTA í tilefni erfiðleika Palestínumanna á að fullnýta fríverslunarsamning EFTA vegna hernáms Ísraelsmanna var formlega staðfest á ráðherrafundi EFTA í dag. Össur Skarphéðinsson, formaður ráðherraráðs EFTA, stýrði fundinum. Framlagið nemur 40% alls þess fjár sem EFTA hefur til ráðstöfunar í þessu skyni, eða 200 þúsund svissneskum frönkum.
“Þetta er í sjálfu sér ekki mikil upphæð en ákvörðunin er táknræn og það var gleðiefni að tilkynna þetta sendiherra Palestínu í Genf síðdegis í dag, “ sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra að fundum loknum.
Fjármununum er ætlað að auka möguleika Palestínu til þess að nýta sér betur fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og Palestínu og styrkja þannig við efnahag og viðskipti í landinu.
Á fundinum undirrituðu ráðherrarnir jafnframt samstarfsyfirlýsingu við Pakistan um undirbúning að því að hefja fríverslunarviðræður. Ráðherrarnir ræddu einnig stöðuna í fríverslunarviðræðum EFTA við Indland; tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan; Indónesíu; Bosníu og Herzegóvínu; Víetnam og Mið-Ameríkuríkin Gvatemala, Hondúras, Kostaríka og Panama. Þá lýstu ráðherrarnir ánægju sinni með að EFTA og Malasía hefðu í síðustu viku ákveðið að hefja fríverslunarviðræður sín á milli og lýstu áhuga á að taka aftur upp þráðinn í viðræðum við Taíland. Jafnframt ræddu ráðherrarnir innri málefni EFTA-ríkjanna, þar á meðal makríldeiluna sem Íslendingar og Norðmenn eru aðilar að.