Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2012 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur EFTA veitir Palestínu sérstakt framlag úr tæknisjóði

Össur Skarphéðinsson og Ibrahim Khraishi

Tillaga Íslands um að veita Palestínu sérstakt framlag úr tæknisjóði EFTA í tilefni erfiðleika Palestínumanna á að fullnýta fríverslunarsamning EFTA vegna hernáms Ísraelsmanna var formlega staðfest á ráðherrafundi EFTA í dag. Össur Skarphéðinsson, formaður ráðherraráðs EFTA, stýrði fundinum. Framlagið nemur 40% alls þess fjár sem EFTA hefur til ráðstöfunar í þessu skyni, eða 200 þúsund svissneskum frönkum.

“Þetta er í sjálfu sér ekki mikil upphæð en ákvörðunin er táknræn og það var gleðiefni að tilkynna þetta sendiherra Palestínu í Genf síðdegis í dag, “ sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra að fundum loknum. 

Fjármununum er ætlað að auka möguleika Palestínu til þess að nýta sér betur fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og Palestínu og styrkja þannig við efnahag og viðskipti í landinu.

Á fundinum undirrituðu ráðherrarnir jafnframt samstarfsyfirlýsingu við Pakistan um undirbúning að því að hefja fríverslunarviðræður. Ráðherrarnir ræddu einnig stöðuna í fríverslunarviðræðum EFTA við Indland; tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan; Indónesíu; Bosníu og Herzegóvínu; Víetnam og Mið-Ameríkuríkin Gvatemala, Hondúras, Kostaríka og Panama. Þá lýstu ráðherrarnir ánægju sinni með að EFTA og Malasía hefðu í síðustu viku ákveðið að hefja fríverslunarviðræður sín á milli og lýstu áhuga á að taka aftur upp þráðinn í viðræðum við Taíland. Jafnframt ræddu ráðherrarnir innri málefni EFTA-ríkjanna, þar á meðal makríldeiluna sem Íslendingar og Norðmenn eru aðilar að.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta