Dregið úr rekstrarkostnaði á Landspítala
Stjórnendur Landspítalans kynntu starfsmönnum og fjölmiðlum fyrirhugaðar aðgerðir sem draga eiga úr rekstrarkostnaði spítalans.
Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri LSH, kynnti aðgerðirnar á fjórum fjölmennum starfsmannafundum á Landspítala í morgun og á fundi með blaða- og fréttamönnum að starfsmannafundunum loknum. Til aðgerðanna er gripið vegna erfiðrar rekstrarstöðu Landspítala á þessu ári og hefur framkvæmdastjórn spítalans ákveðið aðgerðir til þess að minnka rekstrarkostnað það sem eftir lifir árs. Lögð er áhersla á að tryggja öryggi sjúklinga og þjónustu við þá auk þess sem reynt verður að komast hjá uppsögnum starfsmanna.
Á heimasíðu Landspítalans , www.landspitali.is kemur fram að aðgerðirnar felast ma. í eftirfarandi: sólarhringsdeildum verður breytt í dagdeildir eða 5-daga deildir, tveimur skurðstofum verður lokað, dregið verður úr kostnaði við innkaup, bifreiðakostnaður verður lækkaður, tímabundnar ráðningar verða ekki endurnýjaðar, ekki verður ráðið í störf sem losna vegna starfsloka, dregið verður úr kostnaði við endurmenntun, og breytt verður reglum um breytilega yfirvinnu. Aðgerðir þessar eiga að skila sér í 400 milljóna króna lægri rekstrarkostnaði.