Viðurkenning fyrir heilbrigðisþjónustuna
Það er fyrirtækið HCP (Health Consumer Powerhouse) sem gefur íslensku heilbrigðisþjónustunni þessa einkunn eftir að hafa safnað inn árangri og gæðaviðmiðun þjónustunnar, en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland er með í árlegu mati fyrirtækisins.
Ísland hafnar í þriðja sæti í samanburði 33 ríkja í Evrópu, næst á eftir Hollandi og Danmörku. Fjallað er um þennan glæsilega árangur á vefsíðu Landlæknisembættisins þar sem segir m.a. “Forsvarsmenn fyrirtækisins leituðu til Landlæknisembættisins og buðu Íslandi þátttöku og er þetta í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í þessum samanburði, en þess má geta að Ísland tekur einnig þátt í norrænni samvinnu um gæðavísa svo og sambærilegri vinnu hjá OECD.
Auk gagna í eigin gagnagrunnum hefur Landlæknisembættið aflað gagna víða, m.a. á Landspítalanum og í Krabbameinsskrá. Gæðaviðmiðunum er skipt í sex meginsvið sem hafa mestu þýðingu fyrir notendur heilbrigðisþjónustu. Þessi svið varða réttindi sjúklinga og aðgengi þeirra að upplýsingum, rafræna heilbrigðisþjónustu, bið eftir meðferð, árangur meðferðar, umfang og aðgengi að heilbrigðisþjónustu og loks aðgang að lyfjum. Fram kemur að Ísland kemur mjög vel út í mörgum atriðum; svo sem þáttum sem snúa að réttindum sjúklinga og upplýsingum til þeirra, bið eftir krabbameinsmeðferð, ungbarnadauða, dánartíðni innan 30 daga eftir hjartaáfall og lifun 5 ár eftir krabbamein. Þá stendur íslenska heilbrigðisþjónustan sig einnig mjög vel hvað varðar bólusetningar barna, bið eftir segulómun og fleira.”
Sjá nánar fréttatilkynningu um málið: EHCI 2009 Frétt (pdf skjal 56KB - opnast í nýjum glugga)