Lyfjanotkun beint í ódýrustu lyfin
Um mánaðarmótin tekur gildi breyting á reglugerð um opinberar niðurgreiðslur lyfja og tekur breytingin til blóðþrýstingslyfja.
Reglugerðarbreytingin hefur í för með sér að lyfjanotkun sjúklinga sem þjást af of háum blóðþrýstingi verður nú beint í ódýrari lyf og um leið verður hætt að greiða niður dýrari lyfin, nema með lyfjaskírteinum sem sækja má um á grundvelli læknisfræðilegs mats og ákvörðunar lyfjadeildar Sjúkratrygginga Íslands. Þessi breyting nær til þriggja flokka blóðþrýstingslyfja, sem verka á renínangíótensín-kerfið, svokallaðra ACE-hemla, Angíótensín II blokka og renín-hemla, en dýrustu lyfin í þessum flokkum verða einungis niðurgreidd útá lyfjaskírteini sem læknir sækir um til Sjúkratrygginga Íslands. Þessi breyting er gerð til að sporna við of háum kostnaði vegna blóðþrýstingsmeðferðar en þess má geta að dýrari lyf í þessum lyfjaflokkum hafa verið notuð í meiri mæli hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.
Eftirfarandi pakkningar verða með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga skv. B-merkingu:
Í fréttabréfi lyfjadeildar Sjúkratrygginga Íslands nr. 8 er sagt að notuðu íslenskir sjúklingar blóðþrýstingslyf á sama hátt og sænskir þýddi það 200 til 300 milljóna króna opinberan sparnað í niðurgreiðslum blóðþrýstingslyfja. Niðurgreiðslur í þessum lyfjaflokki námu tæpum milljarði króna á liðnu ári og er þetta útgjaldafrekasti lyfjaflokkur sjúkratrygginganna.
Með reglugerð heilbrigðisráðherra sem tekur gildi 1. október nk. er farin sú leið að draga úr niðurgreiðslum ríkisins á lyfjum með því að beina lyfjanotkuninni í ódýrari lyf sem teljast sambærileg við meðhöndlun tiltekinna sjúkdóma. Fyrsta skrefið var stigið með reglugerðarbreytingum sem tók gildi 1. mars sl. en sú breyting skilar um 800 milljónum króna lægri niðurgreiðslum hins opinbera á árinu og tók til maga- og blóðfitulækkandi lyfja.
Tekið skal fram að ef meðferð með ódýrustu lyfjunum reynist ófullnægjandi eða ef fram koma aukaverkanir vegna notkunar lyfjanna getur læknir sótt um lyfjaskírteini (greiðsluþátttöku) fyrir dýrari lyfjunum til Sjúkratrygginga Íslands.
Til þess að sjúklingar sem nú þegar eru á dýrari lyfjunum fái nægan tíma til að kynna sér breytingarnar og ráðfæra sig við lækna sína verða lyfjaávísanir á umrædd blóðþrýstingslyf sem gefnar voru út fyrir 1. október með óbreyttri greiðsluþátttöku til 1. janúar 2010.
Mikilvægt er að notendur blóðþrýstingslyfja kynni sér breytingarnar hjá Sjúkratryggingum Íslands á www.tr.is
Sjá nánar: Fréttabréf lyfjadeildar Sjúkratrygginga Íslands nr. 8 (pdf 400 KB)
2009, nr. 236, 13. febrúar. Reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga við kaup á lyfjum
sbr. breyting (1) nr. 679/2009
sbr. breyting (2) nr. 760/2009