Hoppa yfir valmynd
26. júní 2008 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 11/2007

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 11/2007:

 

A

gegn

Garðabæ

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 26. júní 2008 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru dagsettri 6. nóvember 2007 óskaði kærandi A eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Garðabær hefði með ráðningu í stöðu deildarstjóra miðstigs við grunnskólann X í Garðabæ brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Garðabæ með bréfi dagsettu 9. nóvember 2007 og var óskað eftir því að umsögn Garðabæjar um kæruna bærist fyrir 23. nóvember 2007. Með tölvubréfi dagsettu 19. nóvember 2007 óskaði Garðabær eftir viðbótarfresti til 29. nóvember 2007 til þess að skila inn umsögn og var sá frestur veittur. Umsögn Garðabæjar barst með bréfi dagsettu 28. nóvember 2007 og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri með bréfi dagsettu 6. desember 2007. Ekki bárust athugasemdir við umsögnina frá kæranda.

Með bréfi dagsettu 25. apríl 2008 óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir öllum þeim gögnum sem varpað gætu ljósi á inntak og eðli starfs deildarstjóra miðstigs við grunnskólann X í Garðabæ. Jafnframt var óskað eftir gögnum og upplýsingum um hvernig umsækjendur um umrætt starf voru metnir, þar á meðal í viðtölum vegna starfsins. Gögn og upplýsingar bárust frá Garðabæ með tölvubréfi dagsettu 9. maí 2008 eftir að veittur hafði verið viku viðbótarfrestur til þess að skila inn gögnunum. Voru gögnin send kæranda til kynningar með bréfi dagsettu 13. maí 2008. Með tölvubréfi dagsettu 15. maí 2008 óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir minnispunktum úr viðtölum við umsækjendur um starf deildarstjóra miðstigs við grunnskólann X í Garðabæ sem og nánari skilgreiningu á því hvaða upplýsinga var óskað eftir frá umsækjendum og hvaða kostum í fari þeirra skólinn sóttist eftir og lagði til grundvallar við ráðninguna. Í tölvubréfi Garðabæjar dagsettu 19. maí 2008 var tekið fram að öll gögn er málið varða hefðu þegar verið lögð fram að hálfu Garðabæjar.

Svo sem rakið er í inngangi kafla V hér á eftir náði fyrri kærunefnd jafnréttismála ekki að ljúka áliti í máli þessu áður en skipun hennar rann út hinn 1. maí síðastliðinn, en þá tók ný kærunefnd við málinu. Það er álit nefndarinnar að sjónarmið málsaðila hafi komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Er því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

Tafir hafa orðið á afgreiðslu þessa máls vegna anna og lagaskila en hinn 17. mars síðastliðinn tóku gildi ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.

 

II.

Málavaxtalýsing

Málavextir eru þeir að Garðabær auglýsti í maí 2007 laust til umsóknar starf deildarstjóra miðstigs við grunnskólann X. Í auglýsingunni var tekið fram að deildarstjóri þyrfti að vera grunnskólakennari, hafa hæfni til að veita faglega forystu og að framhaldsmenntun á sviði kennslufræði eða stjórnunar væri æskileg. Einnig var tekið fram að allir starfsmenn við grunnskólann X þyrftu að hafa til að bera hæfni í samskiptum sem og frumkvæði og áhuga á að takast á við fjölbreytt og skapandi verkefni. Þá var tekið fram að umsóknum um starf deildarstjóra skyldi fylgja yfirlit yfir nám og störf, gögn er varða frumkvæði á sviði skólamála, greinargerð um hugmyndir umsækjenda um framkvæmd skólastarfs auk annarra gagna er málið varða.

Fjórir umsækjendur sóttu um starfið og voru þeir allir boðaðir í viðtöl hjá skólastjóra og aðstoðarskólastjóra grunnskólans X. Eftir viðtölin og nánara mat á umsóknum ákváðu skólastjórnendur grunnskólans X að ráða karlmanninn S í starfið.

Kærandi telur að Garðabær hafi með ráðningu í starf deildarstjóra miðstigs við grunnskólann X brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem kærandi hafi mun meiri reynslu af stjórnun og kennslu í grunnskólum en sá karlmaður sem ráðinn var í starfið. Ákvörðun um ráðningu hafi því raun byggst á kynferði þess sem ráðinn var.

Garðabær mótmælir því að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ráðningu í starfið enda hafi sá umsækjandi verið ráðinn sem talinn var hæfastur. Ákvörðunin hafi ekki byggst á kynferði.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Í kærunni segir að með auglýsingu í blöðum vorið 2007 hafi verið auglýst laus til umsóknar staða deildarstjóra miðstigs við grunnskólann X í Garðabæ. Í grunnskólanum X fari fram kennsla í 1. til 7. bekk grunnskóla. Um hafi verið að ræða fullt starf. Tekið hafi verið fram í auglýsingunni að leitað væri eftir grunnskólakennara. Þá hafi verið tekið fram að framhaldsmenntun á sviði kennslufræða eða stjórnunar væri æskileg og hæfni til þess að veita faglega forystu. Umsóknarfrestur hafi verið til 27. maí 2007. Umsóknum um deildarstjórastöðuna hafi átt að fylgja yfirlit um nám og störf, gögn er vörðuðu frumkvæði á sviði skólamála, greinargerð um hugmyndir umsækjenda um framkvæmd skólastarfs auk annarra gagna er málið vörðuðu.

Kærandi hafi sótt um starfið 22. maí 2007. Í umsókn hennar hafi komið fram að hún væri með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík, myndlistakennarapróf frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands með réttindi á grunn- og framhaldsskólastigi og auk þess sótt fjölmörg endurmenntunarnámskeið. Hún hafi starfað við Fossvogsskóla árin 1981–1986, verið deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneytinu árin 1990–1992 og framkvæmdastjóri Listahátíðar æskunnar sem fram fór víðsvegar um Reykjavík árið 1991. Hún hafi síðan kennt við Hjallaskóla árin 1992–1993. Í lok umsóknarinnar hafi hún gert grein fyrir hugmyndum sínum um framkvæmd skólastarfsins.

Kærandi hafi starfað sem kennari við grunnskólann X frá árinu 1993. Hún hafi oftast verið formaður þeirra nefnda sem hún hafi starfað við í skólanum og verið frumkvöðull um umbætur í starfinu, síðast þegar tekið hafi verið upp nýtt starfskerfi í agastjórnun.

Í stöðuna hafi verið ráðinn S, umsjónarkennari við grunnskólann X. Hinn 14. júní 2007 hafi kæranda borist bréf þar sem henni hafi verið þakkaður áhugi á stöðunni. Þá hafi, að beiðni kæranda, fylgt röksemdir fyrir því af hverju annar umsækjandi hafi verið ráðinn. Í bréfi skólastjóra grunnskólans X hafi komið fram að ákvörðun um ráðningu S hafi byggst á þeim hæfniskröfum sem settar hafi verið fram í auglýsingu um starfið. S hafi skilað ítarlegri og skipulagðri greinargerð með áhugaverðum hugmyndum um framkvæmd skólastarfsins. Hann hafi áður gegnt stöðu deildarstjóra við skólann í eitt ár með góðum árangri og hafi því reynslu af starfi deildarstjóra. Um þá stöðu hafi kærandi ekki sótt þar sem einungis hafi verið um að ræða forfallastöðu í leyfi þáverandi deildarstjóra.

Kærandi leggi áherslu á að staða deildarstjóra miðstigs sé stjórnunarstaða. Samkvæmt grein 14.4 í kjarasamningi Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitarfélaga sé deildarstjóri millistjórnandi sem fari með mannaforráð, stýri hluta af skólastarfi, deild eða skólastigi eftir nánari ákvörðun skólastjóra. Einnig segi í greininni að deildarstjórar sem fari með stigsstjórn og hafi mannaforráð raðist í launaflokka samkvæmt launatöflu aðstoðarskólastjóra. Deildarstjóri sé því næstráðandi við aðstoðarskólastjóra og í raun yfir kennurum á viðkomandi stigi. Laun deildarstjóra séu þannig talsvert hærri en almenn kennaralaun.

Kærandi bendir á að hún hafi kennslureynslu allt frá árinu 1981. Þá hafi hún starfað við grunnskólann X frá árinu 1993. Hún hafi starfað sem deildarsérfræðingur í lista- og safnadeild menntamálaráðuneytisins í tvö ár þar sem hún hafi meðal annars séð um nefnd varðandi barnamenningu, verið frumkvöðull að stofnun Barnamenningarsjóðs og stjórnað þar fjölbreyttum verkefnum á sviði safna og lista. Þá hafi hún stjórnunarreynslu sem framkvæmdastjóri Listahátíðar æskunnar meðfram fullu starfi árið 1991, sem aðalstjórnandi undirbúnings á norrænu þingi sem haldið var á Akureyri eina viku og stjórnandi ráðstefnu um barnamenningarmál.

Kærandi heldur því fram að S hafi ekki jafnviðamikla reynslu og hún af stjórnun. Þá hafi hann klárlega ekki jafnviðamikla reynslu af kennslu í grunnskólum og alls ekki innan grunnskólans X. Kyn hans hafi því í raun ráðið því að hann var ráðinn í stjórnunarstöðu við skólann. Þannig hafi honum verið hyglt sem karlmanni og honum færð sem slíkum stjórnunarstaða á silfurfati. Þær röksemdir sem fram séu færðar í bréfi skólastjóra um hæfniskröfur séu léttvægar enda sé það mun lengri reynsla kæranda sem skilji hana og S að. S sé fæddur árið 1976 og hafi því klárlega ekki jafnmikla reynslu og kærandi. Kærandi hafi hins vegar miklu lengri reynslu sem kennari við grunnskólann X og hafi auk þess meiri reynslu sem stjórnandi. Þannig séu engin rök fyrir því að S var ráðinn sem deildarstjóri við skólann önnur en þau að hann sé karlmaður og staðan sé stjórnunarstaða.

Kærandi vísar til jafnréttislaga, nr. 96/2000, og dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands þar um. Einkum vísar kærandi til 1. mgr. 24. gr. nefndra laga þar sem segi að óheimilt sé að mismuna umsækjendum um starf eftir kynferði.

 

IV.

Sjónarmið Garðabæjar

Garðabær gerir þá kröfu að staðfest verði að bærinn hafi ekki brotið gegn jafnréttislögum með ráðningu í starf deildarstjóra miðstigs við grunnskólann X.

Eins og fram komi í kæru hafi grunnskólinn X í maí 2007 auglýst lausa til umsóknar stöðu deildarstjóra miðstigs. Umsækjendur um stöðuna hafi verið fjórir, þar af þrír starfandi grunnskólakennarar við skólann. Í auglýsingu um starfið hafi, eins og hefðbundið sé, verið farið fram á upplýsingar um menntun og fyrri störf umsækjenda. Þá hafi sérstaklega verið óskað eftir að umsóknum fylgdu gögn er vörðuðu frumkvæði á sviði skólamála ásamt greinargerð um hugmyndir umsækjenda varðandi framkvæmd skólastarfs.

Umsækjendur um starfið hafi auk kæranda verið, S og H, bæði umsjónarkennarar við skólann og T, þá starfandi sem fagstjóri í íslensku við annan grunnskóla. Allir umsækjendur hafi verið boðaðir í viðtöl hjá skólastjóra og aðstoðarskólastjóra. Í viðtölum hafi umsækjendur lýst nánar framtíðarsýn sinni um skipulag og framkvæmd skólastarfs. Í framhaldi af viðtölum og nánari mati á umsóknum hafi skólastjóri tilkynnt umsækjendum og öllum starfsmönnum grunnskólans X þá ákvörðun að ráða S í starf deildarstjóra við grunnskólann X.

Í rökstuðningi fyrir ráðningu S, sem skólastjóri sendi kæranda í bréfi dagsettu 14. júní 2007 hafi komið fram að ákvörðun um að ráða S í starfið hafi byggst á því að hann hafi verið talinn hæfasti umsækjandinn til þess að gegna starfinu. Þá hafi S lagt fram ítarlega og vel fram setta greinargerð með áhugaverðum hugmyndum um framkvæmd skólastarfs.

Því verði ekki mótmælt að kærandi hafi lengri starfsaldur við grunnskóla en sá sem fékk starfið, enda starfað við sérgreinakennslu í list- og verkgreinum (myndmennt) meira og minna frá árinu 1981. S, sem ráðinn var í starfið, hafi verið almennur kennari og starfað sem umsjónarkennari við grunnskólann X síðan árið 1999 og verði því líka talinn hafa haldgóða reynslu sem starfandi kennari í sjö ár og þar af eitt ár sem settur deildarstjóri. Það að S hafi gegnt starfi deildarstjóra með góðum árangri í afleysingum skólaárið 2005–2006 hafi haft úrslitaþýðingu að mati ráðningaraðila, skólastjóra grunnskólans X, um að meta hann hæfasta umsækjandann til þess að gegna starfinu. Í því starfi hafi S öðlast dýrmæta reynslu sem stjórnandi í grunnskóla jafnframt því sem hann hafi öðlast þekkingu á stjórnkerfi skólans, skólasamfélagi Garðabæjar og regluverki skólamála. Kærandi hafi ekki gegnt stjórnunarstarfi innan grunnskólans og hafi því ekki til að bera sambærilega reynslu og S til að gegna deildarstjórastöðu við skólann.

Í álitum kærunefndar jafnréttismála hafi komið fram að við ráðningu í störf hjá hinu opinbera sé gengið út frá því að sú stofnun sem ber ábyrgð á ráðningu í starf hverju sinni ákveði hvaða sjónarmiðum ráðningin eigi að byggja á. Í því máli sem hér sé til meðferðar hafi verið lagt til grundvallar af ráðningaraðila, skólastjóra grunnskólans X, að reynsla umsækjandans S af því að gegna starfinu áður geri hann ótvírætt hæfari til starfsins en kærandi, sem ekki hafi gegnt starfi stjórnanda innan grunnskólans. Ákvörðun um ráðningu S byggi þannig á hlutlægum sjónarmiðum sem studd séu staðreyndum en ekki á kyni hans.

Í kæru sé sagt frá því að kærandi hafi oftast verið formaður þeirra nefnda sem hún hafi starfað í við skólann. Því sé ekki mótmælt að kærandi hafi tekið þátt eins og aðrir kennarar í leiðandi starfi innan skólans og verið málsvari kennara í myndmennt við fjölmörg tækifæri. Hvað varði sérstaklega innleiðingu á nýju starfskerfi við agastjórnun þá hafi kærandi tekið þátt í verkefnastjórn er annaðist það verkefni, en rétt sé að taka fram að kærandi hafi ekki leitt það starf og ekki gegnt stöðu formanns við þá vinnu.

Því sé alfarið mótmælt að kyn hafi ráðið ákvörðun um ráðningu S í starf deildarstjóra við grunnskólann X, en eins og fram hafi komið hafi ákvörðunin byggt á því að hann var talinn hæfasti umsækjandinn til þess að gegna starfinu.

 

V.

Niðurstaða

Hinn 17. mars síðastliðinn tóku gildi ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III gilti umboð kærunefndar jafnréttismála samkvæmt áður gildandi lögum, nr. 96/2000, fram til þess tíma er ráðherra skipaði nýja kærunefnd jafnréttismála. Ný kærunefnd jafnréttismála var skipuð með bréfi félags- og tryggingamálaráðherra dagsettu hinn 16. apríl síðastliðinn og tók skipunin gildi 1. maí. Þar sem fyrri kærunefnd hafði ekki lokið áliti sínu í máli þessu tók nýskipuð nefnd málið til meðferðar.

Ekki er í lögum nr. 10/2008 kveðið á um lagaskil vegna mála sem til meðferðar voru fyrir gildistöku nýju laganna. Af hálfu kærunefndar jafnréttismála er litið svo á, að því er varðar mál sem til meðferðar voru við lagaskilin, að nefndin skuli miða álit sitt við lög sem í gildi voru þegar atvik þau urðu sem eru tilefni kæru til nefndarinnar. Álit þetta er því byggt á lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar Garðabær réði S í stöðu deildarstjóra miðstigs við grunnskólann X í Garðabæ snemma sumars 2007. Kærandi telur að hún hafi yfir meiri reynslu af stjórnun að búa auk þess sem kærandi hafi mun lengri starfsreynslu bæði við grunnskólann X þar sem hún hafi starfað þar lengur og almennt enda 24 árum eldri en sá sem starfið hlaut.

Umrætt starf var meðal annarra auglýst laust til umsóknar í maí 2007. Í auglýsingunni var greint frá þeim hæfniskröfum sem gerðar voru til umsækjenda, en þær voru að þeir væru grunnskólakennarar, framhaldsmenntun á sviði kennslufræði eða stjórnunar væri æskileg og að umsækjendur hefðu til að bera hæfni til að veita faglega forystu. Þá var þess óskað að umsóknum fylgdu yfirlit yfir nám og störf, gögn er vörðuðu frumkvæði á sviði skólamála og greinargerð um hugmyndir umsækjenda um framkvæmd skólastarfs auk annarra gagna er málið varðaði.

Fjórir sóttu um starfið og voru þeir allir kallaðir í viðtal hjá skólastjóra og aðstoðarskólastjóra. Þar munu umsækjendur sérstaklega hafa gert nánari grein fyrir framtíðarsýn sinni um skipulag og framkvæmd skólastarfsins í samræmi við fyrrgreindan áskilnað í auglýsingu. Í kjölfar þessa var ákveðið að ráða S, sem er karlmaður, í starfið og hafði það að sögn úrslitaþýðingu að hann bjó að eins árs starfsreynslu sem deildarstjóri við grunnskólann X í afleysingum og lagði fram greinargóða greinargerð með áhugaverðum hugmyndum um framkvæmd skólastarfs.

Í umsókn kæranda kemur fram að hún hafi lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1973, myndlistakennaraprófi frá Myndlista- og handíðaskólanum 1981 auk þess að hafa sótt fjölmörg endurmenntunarnámskeið innanlands og utan, án þess að nánari grein sé gerð fyrir þeim. Hún hafi starfað við kennslu við Fossvogsskóla 1981–1986, kennt á námskeiðum fyrir börn og unglinga í Myndlista- og handíðaskólanum, sinnt starfi deildarsérfræðings í menntamálaráðuneytinu 1990–1992 og þar unnið meðal annars að barnamenningarmálum og stjórnað þar fjölbreyttum verkefnum. Hún hafi verið framkvæmdastjóri Listahátíðar æskunnar 1991 og kennt við Hjallaskóla 1992–1993 og svo grunnskólann X frá þeim tíma. Þá gerði kærandi grein fyrir störfum sínum í félagsmálum, meðal annars í þágu stéttarfélags og foreldrafélags, nefndarsetu í dómnefndum og fleira. Þá rakti kærandi helstu atriði sem hún myndi leggja áherslu á í starfi sem deildarstjóri.

Fram kemur í náms- og starfsferilskrá þess sem starfið hlaut að hann hafi lokið stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1996 og B.Ed. prófi frá grunnskólakennaraskor frá Kennaraháskóla Íslands 1999. Að auki hafi hann sótt endurmenntunarnámskeið á vegum grunnskólans X og hafi einnig sótt þjálfaranámskeið hjá Knattspyrnusambandi Íslands og þar með öðlast þjálfararéttindi til að sinna barna- og unglingaþjálfun í knattspyrnu. Hann hafi starfað frá útskrift 1999 í grunnskólanum X sem umsjónarkennari að undanskildu starfsárinu 2005–2006 er hann hafi sinnt starfi deildarstjóra eldra stigs. Samhliða því starfi hafi hann á árunum 2000–2006 sinnt knattspyrnuþjálfun yngri flokka hjá Breiðabliki en þjálfun hafi hann einnig sinnt áður á landsbyggðinni, á Seyðisfirði og Ólafsvík. Umsókninni fylgdi samantekt á þeim þáttum í starfi sem hann myndi leggja áherslu á og afstaða hans til verkefna deildarstjóra.

Starfslýsing deildarstjóra í grunnskólanum X er birt í skólanámskrá grunnskólans X 2006–2007. Þar eru ítarlega talin í 36 atriðum þau úrlausnarefni sem falla undir verksvið deildarstjóra. Sýnist ljóst að um ábyrgðarstarf er að ræða þar sem reynir á margþættan hátt á þann sem starfinu sinnir, bæði í úrlausnum verkefna er lúta að samskiptum við nemendur, kennara, aðra stjórnendur og foreldra, en ekki síður í úrvinnslu og utanumhaldi á ýmsum verkefnum sem mikil ábyrgð fylgir.

Við skipan eða ráðningu í opinber störf hefur almennt verið gengið út frá því að það stjórnvald sem veitir starfið skuli ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðunin eigi að byggja að teknu tilliti til ákvæða laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Leiði þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar ekki til sömu niðurstöðu verður enn fremur að líta svo á að það sé almennt komið undir mati viðkomandi stjórnvalds á hvaða sjónarmið sérstök áhersla skuli lögð og ráði úrslitum. Kærunefnd hefur litið svo á með vísan til dómaframkvæmdar að játa verði atvinnurekanda nokkurt svigrúm við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjenda. Í þessu felst þó ekki að stjórnvöld hafi frjálsar hendur um það hver skuli skipaður, settur eða ráðinn í opinbert starf hverju sinni. Í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar verður niðurstaðan að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeim persónulegu eiginleikum sem talið er að skipti máli við rækslu starfans.

Í því máli sem hér er til úrlausnar liggur fyrir að menntun kæranda og þess sem starfið hlaut er mjög sambærileg þegar horft er til þess starfs sem í hlut á. Sýnist þó að menntun þess sem starfið hlaut miði með markvissari hætti að starfsframa í grunnskóla. Eðli máls samkvæmt býr kærandi að lengri starfsreynslu enda búinn að vera til muna lengur á vinnumarkaði en sá sem starfið hlaut. Starfsreynsla þess sem starfið hlaut virðist þó nýtast betur og hafa beinni skírskotun til starfsins sem um ræðir, þ.e. deildarstjóra við grunnskólann X. Hann hefur sinnt starfi umsjónarkennara bekkja, og því haft mun meiri og fjölbreyttari afskipti af nemendum sínum í skólanum en vænta má að sérgreinakennari hafi.

Að auki liggur fyrir að sá sem starfið hlaut hafði um eins árs skeið sinnt starfi deildarstjóra við grunnskólann X. Virðist það hafa verið málefnalegt af hálfu skólastjórnenda grunnskólans X að meta honum þann starfstíma til tekna við ákvörðun um ráðningu í starfið. Bæði í ljósi þeirrar mikilvægu reynslu sem hann ávann sér á starfstímanum, en ekki síður jákvæðrar reynslu skólastjórnenda af samstarfi við hann.

Með vísan til þess svigrúms, sem stjórnvald jafnan hefur við ráðningu í starf að lagaskilyrðum uppfylltum, verður að líta svo á að kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á að ómálefnalegt hafi verið í máli þessu að byggja, auk menntunar og starfsreynslu, á persónulegum þáttum þess sem starfið hlaut og birtist meðal annars í greinargerð hans um frumkvæði á sviði skólamála sem sérstaklega var óskað eftir í auglýsingu um starfið. Því verður ekki talið að leiddar hafi verið líkur að því að umdeild ákvörðun um ráðningu karls í starf deildarstjóra miðstigs við grunnskólann X í Garðabæ hafi tengst kynferði umsækjenda. Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að ekki hafi verið brotið gegn lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í máli þessu.

 

Björn L. Bergsson

Ingibjörg Rafnar

Jóhannes Karl Sveinsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta