Hoppa yfir valmynd
7. mars 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 56/2007

Föstudaginn, 7. mars 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 17. desember 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 15. október 2007 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég eignaðist dóttur á þessu ári með dna rannsókn og var hún þá orðin 2ja ára og ég sótti um fæðingarorlof með henni en því var synjað.

Markmið laganna um fæðingarorlof er svo foreldrar geti kynnst nýja barninu. Og er sagt að maður verði að nýta það fyrir 18 mánaða aldurs barns en þar sem ég hafði ekki tækifæri til þess þá gat ég það ekki.

Ég þarf þennan tíma til að kynnast dóttur minni og fyrir hana að kynnast mér.

Og þar sem fósturforeldrum býðst orlof til 8 ára til að kynnst nýju barni þá hlýt ég að hafa sama rétt. “

 

Með bréfi, dagsettu 15. janúar 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 29. janúar 2008. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er afgreiðsla Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 20. september 2007, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði, vegna barns sem fæddist 12. mars 2005.

Auk umsóknar kæranda barst tilkynning um fæðingarorlof, dags. 14. september 2007, launaseðlar fyrir júní – ágúst 2007 frá B staðfesting á faðernisviðurkenningu og samningi um meðlag, dags. 19. september 2007 og ódagsett bréf frá kæranda. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar Þjóðskrá.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 15. október 2007, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið synjað þar sem meira en 18 mánuðir væru liðnir frá fæðingu barns hans.

Í 2. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) nr. 95/2000, sbr. 2. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar falli niður er barn nái 18 mánaða aldri.

Barn kæranda fæddist 12. mars 2005 og féll því, samkvæmt framangreindu lagaákvæði, réttur kæranda til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sjálfkrafa niður er barn hans náði 18 mánaða aldri þann 12. september 2006.

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof er ekki að finna neina undanþágu frá ákvæði 2. mgr. 8. gr. um að heimilt sé að greiða fæðingarorlof vegna fæðingar barns eftir að barn nær 18 mánaða aldri nema í þeim tilvikum þegar barn hefur verið ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur, sbr. 4. mgr. 8. gr laga nr. 95/2000 sbr. 2. gr. laga nr. 90/2004. Ekki verður séð að sú undanþága eigi við í tilviki kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um greiðslur í fæðingarorlofi sbr. synjunarbréf til hans, dags. 15. október 2007.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 4. febrúar 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn dagsettri 20. september 2007 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði vegna barns sem fæddist þann 12. mars 2005. Með umsókninni fylgdi staðfesting D embættisins á faðernisviðurkenningu og samningi um meðlag sem dagsett er 19. september 2007.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er fæðingarorlof samkvæmt lögunum leyfi frá launuðum störfum sem stofnast við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. ffl. stofnast réttur foreldris til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Í lokamálslið 2. mgr. 8. gr. segir að réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar falli niður er barnið nær 18 mánaða aldri.

Þegar kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði var réttur hans til fæðingarorlofs fallinn niður samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 8. gr. ffl. Ekki er í ffl. ákvæði sem heimilar framlengingu réttar til fæðingarorlofs vegna aðstæðna kæranda.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta