Mál nr. 126/2023-Úrskurður
KÆRUNEFND HÚSAMÁLA
ÚRSKURÐUR
uppkveðinn 11. apríl 2024
í máli nr. 126/2023
A
gegn
B
Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Víðir Smári Petersen dósent og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur.
Aðilar málsins eru:
Sóknaraðili: A.
Varnaraðili: B.
Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að greiða leigu vegna október og nóvember 2023.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Eftirtalin gögn bárust kærunefnd:
Kæra sóknaraðila, dags. 9. nóvember 2023.
Greinargerð varnaraðila, dags. 3. desember 2023.
Athugasemdir sóknaraðila, dags. 6. desember 2023.
Athugasemdir varnaraðila, dags. 20. desember 2023.
I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning frá 1. júlí 2023 um leigu varnaraðila á húsnæði sóknaraðila að C á D. Ágreiningur er um viðskilnað varnaraðila við lok leigutíma og kröfu sóknaraðila um leigugreiðslur vegna október og nóvember 2023.
II. Sjónarmið sóknaraðila
Sóknaraðili kveðst hafa sagt leigusamningi aðila upp eftir að hafa upplýsingar um framleigu varnaraðila á herbergjum til fjölda einstaklinga. Varnaraðili hafi þó fengið leyfi fyrir því að tveir vinir hennar byggju þarna með henni. Síðar hafi varnaraðili fengið leyfi til að auglýsa herbergin en skýrt hafi verið tekið fram að sóknaraðili skyldi fá upplýsingar um hverjir kæmu til með að leigja herbergin. Sóknaraðili hafi engar slíkar upplýsingar fengið og því talið að enginn hefði tekið herbergin á leigu.
Sóknaraðili hafi keyrt frá Akureyri til að taka við húsnæðinu við lok leigutíma en varnaraðili hafi þá ekki verið viðstödd. Húsið hafi verið ólæst, óhreint og ekki hafi verið búið að tæma það. Nágrannar geti staðfest óhreinindin en sóknaraðila hafi láðst að taka myndir. Ekki hafi verið unnt að leigja húsnæðið út að nýju á réttum tíma vegna ástands þess, enda hafi þurft að þrífa það og taka þar til. Því sé farið fram á að varnaraðili greiði einnig leigu vegna nóvember og þá fyrir allan mánuðinn eða hluta hans.
III. Sjónarmið varnaraðila
Varnaraðili kveður það rangt að húsnæðinu hafi verið skilað óhreinu. Hún hafi þrifið það og tekið myndir. Þá hafi hún leyft tveimur vinum sínum að búa með henni, sem hún hafi verið búin að fá leyfi sóknaraðila fyrir. Það sé rangt sem hafi komið fram í leigusamningi að átta herbergi séu í húsnæðinu. Fjögur svefnherbergi séu á efri hæðinni og hin séu á neðri hæðinni, en annar einstaklingur hafi leigt þau af sóknaraðila.
IV. Athugasemdir sóknaraðila
Í athugasemdum sóknaraðila segir að varnaraðili hafi ekki minnst á það í greinargerð sinni að hún hafi ekki greitt leigu síðasta mánuðinn. Þá hafi húsnæðið verið langt frá því að vera hreint. Myndir varnaraðila gefi ekki rétta mynd af ástandinu og lýsir sóknaraðili því ítarlega hvar þrifum hafi verið ábótavant. Þá hafi sóknaraðili safnað dósum og flöskum í þrjá poka, ásamt öðru rusli. Þá liggi ekki fyrir hvenær myndir varnaraðila hafi verið teknar.
V. Athugasemdir varnaraðila
Í athugasemdum varnaraðila segir að hún hafi tekið myndirnar 26. október 2023 og þrifið allt mjög vel.
VI. Niðurstaða
Leigutíma lauk 31. október 2023 samkvæmt samkomulagi aðila. Sóknaraðili kveður varnaraðila ekki hafa greitt leigu vegna októbermánaðar og styður hún þá fullyrðingu sína með framlagningu á rafrænum samskiptum aðila þar um. Virðist sem þetta sé ágreiningslaust aðila á milli enda engin mótmæli gegn þessu í málatilbúnaði varnaraðila. Er því fallist á að varnaraðila beri að greiða sóknaraðila leigu að fjárhæð 295.000 kr. vegna október 2023.
Sóknaraðili gerir einnig kröfu um að varnaraðila verði gert að greiða leigu vegna nóvember 2023 þar sem viðskilnaður hennar á íbúðinni hafi verið óviðunandi og því hafi ekki verið mögulegt að leigja húsnæðið þegar út aftur. Aðilar gerðu ekki sameiginlega úttekt við lok leigutíma. Varnaraðili kveðst hafa þrifið íbúðina og leggur fram myndir því til staðfestingar. Sóknaraðili kveðst ekki hafa tekið myndir en að nágranni geti staðfest að íbúðin hafi verið óþrifin. Gegn mótmælum varnaraðila hefur sóknaraðili ekki fært sönnur á að ástand eignarinnar við lok leigutíma hafi verið þannig að eignin hafi verið óleiguhæf. Er þessari kröfu sóknaraðila því hafnað.
Í 7. mgr. 85. gr. húsaleigulaga er kveðið á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 9. mgr. 85. gr. laganna eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.
ÚRSKURÐARORÐ
Varnaraðila ber að greiða sóknaraðila leigu að fjárhæð 295.000 kr.
Reykjavík, 11. apríl 2024
Auður Björg Jónsdóttir
Víðir Smári Petersen Eyþór Rafn Þórhallsson