Hoppa yfir valmynd
5. október 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 15/2004

Þriðjudaginn, 5. október 2004

   

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

      

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 19. mars 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 18. mars 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 22. desember 2003 um að krefja kæranda um endurgreiðslu fæðingarstyrks.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Ljóst er að undirritaður skv. 1. gr. laga nr. 95/2000 22. maí öðlaðist rétt til fæðingarorlofs með fæðingu sonar míns 21. janúar 2001. Undirritaður hafði þá verið á innlendum vinnumarkaði samfellt í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Undirritaður greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi fyrir árið 2001 eins og kveðið er á um í lögum um tekju og eignarskatt nú nr. 90/2003 áður nr. 75/1981.

Undirritaður sér ekki fljótu bragði að lögin um tekju og eignarskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda víki fyrir lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Í bréfi yðar er greint frá því að undirritaður hafi haft atvinnutekjur að upphæð B kr. fyrir febrúar 2001. Undirrituðum er ekki kunnugt um frestunarákvæði ofangreindrar tekjufærslu hvorki í lögum um tekju og eignarskatt né í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Undirritaður hefur því staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þeirra tekna sem tekjufærð eru í febrúar 2001. Undirritaður sér ekki að áðurnefnt skuli leiða til ónýtingar réttarins til töku fæðingar- og foreldraorlofs.

Þá vill undirritaður að lokum taka það fram að þó svo að undirritaður reikni sér endurgjald skv. 7. gr. A laga nr. 90/2003 og einnig skv. reglugerð sem sett er með heimild í lögum gr. 119 frá 75/1981 með síðari breytingum frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, þá sé ég ekki að slíkt þurfi að vera í andstöðu við tilgang laga nr. 95/2000.

Ef það hefur ekki komið nægjanlega skýrt fram í áðurnefndu bréfi vill undirritaður árétta það með þessu bréfi að þær tekjur sem óskað er skýringa við urðu til við sölu á vinnuvél og voru staðgreiðsluskyldar á árinu 2001 og teljast ekki almennar launatekjur í skilningi laga nr. 90/2003 um tekju- og eignarskatt og laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Undirritaður færir þær tekjur til tekna á skattframtali eins og áður hefur verið reifað. Í ljósi þessara upplýsinga sem nú eru fram komnar mótmælir undirritaður þeirri stjórnvaldsákvörðun sem mér er kynnt með bréfi yðar dagsett 22. desember 2003.“

 

Með bréfi, dags. 16. apríl 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 30. apríl 2004. Í greinargerðinni segir m.a.:

Eins og áður hefur verið rakið fór fram endurskoðun á afgreiðslu umsóknar kæranda og kom þá í ljós að hann hafði haft atvinnutekjur sem sjálfstætt starfandi á sama tímabili og hann fékk greiddan fæðingarstyrk námsmanna í febrúar 2001 vegna barns sem fætt er 21. janúar 2001. Upplýsingar frá RSK bera með sér að kærandi var skráður með eigin atvinnurekstur árið 2001 og reiknaði sér laun sem slíkur allt árið. Reiknuð laun hans í febrúarmánuði voru kr. B. Þær skýringar sem kærandi gaf í bréfi sínu, dags. 2. janúar 2004, um að tekjur þessar hafi orðið til við sölu á vinnuvél koma ekki heim og saman við skattframtal hans 2002 vegna tekjuársins 2001 né aðrar upplýsingar frá RSK sem varða árið 2001.

Af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins hefur verið litið svo á að það sé skilyrði fæðingarstyrks að sá sem styrkinn fær greiddan leggi niður launuð störf það tímabil sem styrkurinn er greiddur fyrir, enda gera ffl. ekki ráð fyrir að fæðingarstyrkur sé greiddur foreldrum á vinnumarkaði. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið hér að framan er ekki unnt að líta svo á sem kærandi hafi lagt niður störf í febrúar 2001 er hann fékk greiddan fæðingarstyrk. Af þessum sökum telur lífeyristryggingasvið að kæranda hafi verið greiddur fæðingarstyrkur sem honum ekki bar og því eigi Tryggingastofnun rétt á endurgreiðslu hins ofgreidda fæðingarstyrks.

Þá skal þess jafnframt getið að við áðurnefnda endurskoðun lífeyristryggingasviðs, sem fram fór á umsókn kæranda, kom einnig í ljós að við afgreiðslu umsóknar kæranda vegna barns fætt 21. janúar 2001 lá fyrir staðfesting D-háskóla, dags. 8. janúar 2001, þess efnis að kærandi hefði verið skráður stúdent við D-háskóla háskólaárið 2000-2001 og hefði stundað fullt nám á haustmisseri 2000. Hins vegar var ekki nýtt sú heimild, sem þá var í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, að krefjast að sýnt væri fram á námsárangur. Samkvæmt gögnum sem lágu fyrir við endurskoðun málsins um námsárangur kæranda á haustönn 2000 hafði hann ekki skilað fullu námi, sbr. ákvæði 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, auk þess sem kærandi stundaði ekki fullt nám á vorönn 2001. Kærandi var hins vegar samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK við störf sem sjálfstætt starfandi samfellt í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs og skilaði tryggingagjaldi sem slíkur og hefði því í raun átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 13. gr. ffl. í stað fæðingarstyrks námsmanna skv. 19. gr. ffl., ef hann hefði tekið fæðingarorlof, sem samkvæmt 1. mgr. 7. gr. ffl. er leyfi frá launuðum störfum.

Samkvæmt 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 getur stjórnvald að eigin frumkvæði afturkallað ógildanlega ákvörðun sína sem tilkynnt hefur verið aðila máls. Á umsóknareyðublaði sem kærandi undirritaði er hann sótti um fæðingarstyrk vegna barns sem fætt er 21. janúar 2001 segir. „Komi í ljós síðar að greiðslur hafi orðið hærri en vera bar vegna þess að útreikningur greiðslna byggðist á röngum upplýsingum á Fæðingarorlofssjóður/Tryggingastofnun ríkisins endurkröfurétt á hendur foreldri eftir almennum reglum“. Þá staðfesti kærandi jafnframt með undirritun sinni á umsóknareyðublaðið að Tryggingastofnun ríkisins yrði látin vita um ófyrirsjáanlegar breytingar á aðstæðum hans sem áhrif hefðu á afgreiðslu umsóknarinnar og/eða greiðslur samkvæmt henni.“

 

Að lokum segir í greinargerðinni:

„Endurkröfu sína byggir Tryggingastofnun á almennum reglum kröfuréttarins. Tryggingastofnun hefur farið fram á endurgreiðslu hins ofgreidda fæðingarstyrks kr. E og við innheimtu endurkröfunnar boðið að hinn ofgreiddi fæðingarstyrkur komi til frádráttar þeim fæðingarstyrk sem kærandi á rétt á vegna barns hans sem fætt er 5. nóvember sl. Þau ummæli kæranda í bréfi hans frá 2. janúar 2004, að til vara sé Tryggingastofnun heimilað að draga þá upphæð sem um sé deilt frá væntanlegum greiðslum hans í fæðingarorlofi, verða vart skilin á annan veg en að hann fallist á að hinn ofgreiddi fæðingarstyrkur komi til frádráttar nýjum rétti hans til fæðingarstyrks verði viðurkennt að Tryggingastofnun eigi endurkröfurétt á hann. Tryggingastofnun telur sér heimilt að halda í biðstöðu greiðslu fæðingarstyrks, sem kærandi á rétt á vegna barns sem fætt er 5. nóvember 2003, þar til fyrir liggur endanleg ákvörðun um endurgreiðslu hins ofgreidda fæðingarstyrks.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 11. maí 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnun ríkisins um að krefja kæranda um endurgreiðslu fæðingarstyrks. Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Kærandi fékk greiddan fæðingarstyrk sem námsmaður fyrir febrúar 2001 vegna barns sem fætt er þann 21. janúar 2001. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála með námi sínu og störfum fyrir fæðingu barnsins áunnið sér þann rétt. Kærandi var árin 2000 og 2001 skráður hjá skattyfirvöldum sem sjálfstætt starfandi einstaklingur og samkvæmt staðgreiðsluskrá var reiknað endurgjald B kr. vegna þeirrar starfsemi hans í febrúar 2001. Fyrir liggur því að kærandi tilkynnti ekki um tímabundna niðurfellingu af staðgreiðsluskrá vegna fæðingarorlofs til skattyfirvalda en af hans hálfu er á því byggt að það staðfesti ekki veru hans á vinnumarkaði. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins hafi í tilviki kæranda verið gerð krafa um tilkynningu til skattyfirvalda. Með hliðsjón af því og andmælum kæranda er hinni kærðu ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þegar af þeim ástæðum hafnað.

    

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að endurkrefja A um endurgreiðslu fæðingarstyrks er hafnað.

  

   

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta