Hoppa yfir valmynd
20. september 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2004

Þriðjudaginn, 20. september 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 6. febrúar 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 3. febrúar 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 4. desember 2003 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Undirrituð, A, legg hér með fram kæru til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála vegna synjunar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Málin standa þannig að ég var að vinna sem B fyrir íslenskan aðila þegar ég bjó á Íslandi og svo þegar ég flutti til D-lands hélt ég þeim störfum áfram í gegnum internetið. Ég gef upp tekjurnar á Íslandi þar sem ég fæ launin greidd þaðan en ekki í D-landi. Nú er svo komið að mér var hafnað af þessum ástæðum, mér er sagt eð ég hefði átt að gefa þessar tekjur upp í D-landi.

Orðrétt segir í synjunarbréfi til undirritaðrar:„Af gögnum sem þú hefur lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK sést að þú uppfyllir ekki skilyrðið um að hafa verið á innlendum vinnumarkaði. Þar sem þú ert búsett og með lögheimili í D-landi hefðir þú átt að telja tekjur þínar fram þar og þ.a.l. sækja um greiðslur vegna fæðingarinnar í D-landi.“

Undirrituð hefur lagt fram gögn frá d-lenska ríkinu til T.R. þar sem fram kemur að enginn réttur sé til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði þar í landi.

Barn undirritaðrar E er fætt á Íslandi.“

 

Með bréfi, dags. 11. febrúar 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 25. febrúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn dags. 24. nóvember 2003 sem barst sama dag sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns 30. mars 2003. Í umsókninni upplýsti kærandi að hún hefði unnið í gegnum tölvur á Íslandi og í D-landi fyrir F á Íslandi þannig að hún eigi ekki rétt á því í D-landi og að hún ætti ógreidda skatta en væri búin að gera samning við skattinn. Með umsókninni fylgdi blað með dagsetningum á árinu 2002 og upphæðum sem skrifað var á að væru allt laun frá Íslandi, greiðsluáætlun vegna skuldar á opinberum gjöldum og staðfesting á því að á grundvelli þeirra upplýsinga frá kæranda um að hún væri búsett í D-landi og ekki í starfi þar væri ekki réttur á greiðslum í fæðingarorlofi í D-landi.

27. nóvember 2003 bárust til viðbótar tilkynning um fæðingarorlof dagsett sama dag undirrituð af kæranda sem sjálfstætt starfandi einstaklingi þar sem tilgreint var fæðingarorlof frá 1. desember 2003 og gerð sú athugasemd að óskað væri eftir afturágreiðslum til 6 mánaða, ársuppgjör vegna tekna hennar í D-landi á árinu 2002 þar sem ekki var um neinar uppgefnar tekjur að ræða og afrita af launaseðlum vegna vinnu hennar hér á landi fyrir flutning hennar til D-lands.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags 4. desember 2003 var kæranda synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að af gögnum sem hún hafi lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK sjáist að hún uppfylli ekki það skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) að hafa verið á innlendum vinnumarkaði. Bent var á að þar sem hún sé búsett og með lögheimili í D-landi hefði hún átt að telja tekjur sínar fram þar og þar af leiðandi sækja um greiðslur vegna fæðingarinnar í D-landi.

Samkvæmt upplýsingum í þjóðskrá Hagstofu Íslands flutti kærandi til D-lands þann 4. september 2002. Hún var að vinna hér á landi fram til flutningsins og komu laun hennar fram í staðgreiðsluskrá RSK, samtals G kr. Hún kveðst einnig hafa verið að vinna í gegnum tölvur á Íslandi og í D-landi fyrir F á Íslandi þannig að hún eigi ekki rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í D-landi.

Einu upplýsingarnar sem liggja fyrir um aðra vinnu kæranda en þá sem kemur fram í staðgreiðsluskrá RSK á árinu 2002 (sem lauk við flutning hennar til D-lands) eru blað sem hún hefur framvísað með dagsetningum á árinu 2002 og upphæðum (samtals H kr. og þar af er merkt við eina upphæðina að fjárhæð I kr. að um sé að ræða afmælisgjöf) og að á skattframtali hennar árið 2003 eru tilgreind laun J kr. hærri en þau laun sem koma fram í staðgreiðsluskrá RSK.

Kærandi virðist þannig hafa starfað sem sjálfstætt starfandi einstaklingur auk þess að vera launþegi meðan hún var búsett hér á landi og eitthvað áfram eftir að hún var flutt til D-lands. Eftir að hún flutti til D-lands mun þessi vinna hennar hafa farið fram þar í landi þannig að hún var þá á d-lenskum vinnumarkaði (og hefði átt að telja laun sín fram til skatts þar sbr. ákvæði reglugerðar ESB nr. 1408/71 um að einstaklingur sé tryggður í því landi þar sem hann starfar og að ef starf fer að einhverju leyti eða öllu fram í því landi þar sem hann er búsettur þá sé hann tryggður í búsetulandinu). Ekki er þó hægt að fullyrða um það að hún hefði átt rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í D-landi ef hún hefði gefið upp þessar tekjur sínar þar sem ekki verður séð að hún hafi verið að vinna á árinu 2003 áður en barn hennar fæddist 30. mars 2003.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 4. mars 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda. Úrskurðarnefndin óskaði eftir afritum af skattframtölum vegna áranna 2003 og 2004 svo og í hvaða mánuðum starfsemin fór fram, með bréfi dags. 16. júní 2004. Kærandi sendi afrit af skattframtölum svo og sundurliðun tekna.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Í 1. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem séu starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Samkvæmt lögunum er það ekki gert að skilyrði fyrir greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði að foreldri hafi átt lögheimili á Íslandi á viðmiðunartímabilinu.

Ágreiningur í máli þessu varðar því það álitaefni hvort kærandi uppfylli skilyrði um að hafa verið í samfelldu starfi í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs í skilningi 1. mgr. 13. gr. ffl.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miða við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.

Með samfelldu starfi er átt við að foreldri þurfi að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. ffl. skulu útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar.

Barn kæranda er fætt 30. mars 2003. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 30 september 2002 til fæðingardags barns. Skv. upplýsingum frá þjóðskrá Hagstofu Íslands flutti kærandi lögheimili sitt til D-lands þann 4. september 2002. Launatekjur kæranda árið 2002 samkvæmt staðgreiðsluskrá eru G kr. þar af K kr. í september 2002 og L kr. í desember sama ár. Samkvæmt skattframtali ársins 2003 eru framtaldar tekjur hennar árið 2002, M kr. eða J kr. hærri en launatekjur samkvæmt staðgreiðsluskrá. Kærandi hefur upplýst að hún hafi unnið sem B fyrir íslenskan aðila þegar hún bjó á Íslandi og haldið þeim störfum áfram í gegnum internetið eftir að hún flutti til D-lands. Launatekjur kæranda árið 2003 samkvæmt staðgreiðsluskrá voru engar en samkvæmt skattframtali 2004, eru framtaldar tekjur hennar árið 2003, N kr.

Upplýsingar sem aflað var úr staðgreiðsluskrá í tilefni af umsókn kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði staðfesta ekki sex mánaða samfellt starf hennar á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs þann 30. mars 2003. Fyrir liggur að kærandi hafði samkvæmt skattframtölum tekjur sem ekki koma fram á staðgreiðsluskrá. Engar áætlanir eða upplýsingar lágu hins vegar fyrir hjá skattyfirvöldum um sjálfstæða atvinnustarfsemi kæranda eða um skil á tryggingagjaldi vegna þeirra tekna. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði þess að eiga rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði sbr. 1. mgr. og 3. mgr. 13. gr. ffl. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu í fæðingarorlofi, er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta