Hoppa yfir valmynd
20. júní 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 316/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. júní 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 316/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19040068

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. apríl 2019, kærði […], kt. […], ríkisborgari Albaníu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. mars 2019, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á Íslandi vegna fjölskyldusameiningar þann 9. janúar 2015 með gildistíma til 5. janúar 2016. Kærandi fékk leyfi endurnýjað í eitt skipti, með gildistíma til 9. nóvember 2018. Kærandi sótti um ótímabundið dvalarleyfi þann 11. nóvember 2017 sem Útlendingastofnun synjaði með ákvörðun, dags. 19. mars 2018. Þann 17. október 2018 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi að nýju. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. mars 2019, var umsókn kæranda synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 28. mars sl. Kærandi kærði ákvörðunina þann 5. apríl 2019 til kærunefndar útlendingamála og þann 3. maí 2019 barst greinargerð kæranda. Þann 20. maí sl. bárust frekari gögn frá kæranda.

III.           Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar voru skilyrði fyrir útgáfu ótímabundins dvalarleyfis rakin, sbr. 58. gr. laga um útlendinga. Meðal skilyrða væri að útlendingur ætti ekki ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann væri grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi, sbr. e-lið 1. mgr. 58. gr. Fram kom að samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá 16. janúar 2019 ætti kærandi ólokið mál í refsivörslukerfinu. Þar sem kærandi uppfyllti ekki fyrrnefnt skilyrði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga var umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi synjað.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi kannist ekki við að vera grunaður um refsiverða háttsemi. Líklega sé átt við rannsókn lögreglunnar í máli nr. […] en það mál varði ætluð brot einstaklinga af sama þjóðerni og kærandi og tengist hann málinu aðeins með þeim hætti að hann þekki umrædda einstaklinga. Kærandi byggir á því að hann sé ekki grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi í skilningi e-liðar 58. gr. laga um útlendinga. Þar af leiðandi sé ekki grundvöllur fyrir synjun Útlendingastofnunar enda beri stofnuninni að rannsaka málið, sbr. m.a. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en ákvörðun sé tekin. Að auki verði að gæta meðalhófs í málinu enda sé kærandi fyrirvinna fjölskyldu sinnar sem m.a. samanstandi af dreng fæddum árið […]. Á grundvelli framangreinds beri að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Eins og að framan greinir hefur kærandi dvalið hér á landi samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins leyfis síðan 9. janúar 2015.

Frekari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis eru m.a. tilgreind í stafliðum a-e í 1. mgr. 58 gr. laga um útlendinga. Samkvæmt e-lið er það skilyrði að útlendingur eigi ekki ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.

Í greinargerð er því haldið fram fyrir hönd kæranda að hann sé ekki grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi í skilningi e-liðar 58. gr. laga um útlendinga. Brot einstaklinga af sama þjóðerni og kærandi séu til rannsóknar hjá lögreglu en kærandi tengist málum þeirra aðeins með þeim hætti að hann þekki til umræddra einstaklinga. Því til stuðnings lagði kærandi fram afrit af lögregluskýrslu vegna skýrslutöku yfir honum hjá lögreglu.

Að mati kærunefndar er ljóst af lögregluskýrslunni að kærandi hafði, á þeim tíma sem skýrslutakan fór fram, réttarstöðu sakbornings en í skýrslunum kemur m.a. fram að kæranda hafi verið tilnefndur verjandi auk þess sem ítrekað er vísað til hans sem sakbornings. Þá liggur fyrir bréf frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 8. maí 2019, þar sem fram kemur að kærandi eigi ólokið mál í refsivörslukerfinu. Að mati kærunefndar styðja gögn málsins því ekki þá fullyrðingu kæranda að hann sé ekki grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi heldur þekki eingöngu til einstaklinga sem svo sé ástatt um. Þvert á móti er ljóst af gögnum málsins að kærandi uppfyllir ekki skilyrði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Vegna athugasemda í greinagerð er sérstaklega teið fram að ákvæði 58. gr. laga um útlendinga gera ekki ráð fyrir því að heimilt sé að víkja frá skilyrði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laganna. Er samkvæmt framangreindu ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis og verður hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Til þess að kærandi eigi rétt á áframhaldandi dvöl á landinu þarf hann að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli. Að öðrum kosti ber kæranda að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

 


Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                 Anna Valbjörg Ólafsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta