Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 3/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 3/2016

Miðvikudaginn 17. ágúst 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 4. janúar 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. október 2015 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en henni metinn tímabundinn örorkustyrkur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, móttekinni 13. mars 2015. Með örorkumati, dags. 6. október 2015, var umsókn kæranda synjað en henni metinn tímabundinn örorkustyrkur frá 1. janúar 2015 til 30. september 2017. Með bréfi, dags. 23. mars 2016, var kæranda tilkynnt um endurmat örorkustyrks og að Tryggingastofnun hefði afgreitt greiðslur vegna tímabilsins frá 1. apríl 2013 til 31. desember 2014.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 4. janúar 2016. Með bréfi, dags. 27. janúar 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 19. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu, en ráða má af kæru að hún óski eftir því að synjun Tryggingastofnunar ríkisins verði felld úr gildi og umsókn hennar um örorkulífeyri samþykkt. Þá krefst hún greiðslna tvö ár aftur í tímann.

Í kæru kemur fram að kært sé örorkumat Tryggingastofnunar frá 6. október 2015. Niðurstaða matsins sé sú að kærandi sé 50% öryrki og það mat sé byggt á umsókn og svörum hennar við spurningalista frá janúar 2015, læknisvottorði og bréfi B læknis frá 14. apríl 2015 og 8. maí 2015, ásamt skoðunarskýrslu C frá 8. september 2015.

Kæranda þyki skoðunarskýrsla óháðs læknis frá 8. september 2015, sem í þessu tilfelli hafi verið C, ekki gefa raunhæfa mynd af heilsufari hennar og hann hefði átt að skila mati þar sem hún væri metin að lágmarki 75% öryrki samkvæmt örorkumatsstaðli Tryggingastofnunar.

Kæranda þyki ekki hafa verið vel staðið að óháðu mati C og hún vilji fara í gegnum síðari hluta staðalsins varðandi þá þætti sem hún og eiginmaður hennar telji viðeigandi varðandi ástand kæranda:

„Geðrænt ástand A kemur í veg fyrir að hún geti sinnt fyrri áhugamálum, hún á við mikil svefnvandamál að stríða sem hafa mikil áhrif á daglegt líf og störf, veikindin orsökuðu að hún hætti að vinna fyrir X árum síðan, oft sér maður hræðslu eða flemtur án augljósrar ástæðu, hún forðast hversdagsleg verkefni þar sem þau munu valda of mikilli þreytu eða álagi, hún ræður mjög illa við breytingar á daglegum venjum, þegar of mörg verkefni liggja fyrir leiðir það til uppgjafar vegna orkuleysis og kvíða, hún hefur áhyggjur af því að sjúkleiki versni við að fara aftur til vinnu vegna álags, upp kemur óviðeigandi hegðun og hugaræsing án sérstakrar ástæðu við hversdagslega atburði, geðræn vandamál hennar valda henni miklum erfiðleikum með tjáskipti við aðra og atburðir angra hana í dag sem annars höfðu ekki þau áhrif á hana fyrir veikindin.“

Sé þessi listi metinn út frá stigagjöf, þá telji kærandi þetta vera vel yfir þeim tíu stigum sem metin séu sem grundvöllur fyrir 75% örorku.

Kærandi telji óásættanlegt að óháð mat C þann 8. september 2015 þar sem hún hafi verið kölluð til fimmtán mínútna viðtals alla leið frá D, átta mánuðum eftir að hún hafi skilað inn umsókn, eigi ekki að geta litað örorkumat þetta á þennan hátt. Hún hafi verið send í viðtal til læknis sem hún hafi aldrei hitt áður, með depurð, mikinn kvíða og óundirbúin, sem eigi að geta metið hvað hún geti eða geti ekki á fimmtán mínútum. Það ætti að vera fullkomlega ljóst og eðlilegra að B, læknir kæranda og yfirlæknir Heilsugæslunnar í E, geti gefið raunsærra mat eftir allan þann tíma sem hann hafi átt með kæranda. Í þessu óháða mati séu spurningar sem hún telji að ekki komi fram rétt svör við og hefðu breytt niðurstöðu matsins verulega.

Kærandi telji samkvæmt öllum gögnum að hún eigi rétt á örorkubótum frá janúar 2013. Í óháðu mati C komi fram að hann telji stöðu kæranda hafa verið svipaða nú og hafi verið undanfarin tvö til þrjú ár. Samkvæmt sjúkradagpeningavottorði frá árinu 2013 komi fram að kærandi hafi verið óvinnufær með öllu frá 15. janúar 2013 þótt hún hafi í raun verið það mörgum árum áður.

Það séu mikil vonbrigði ef ekki sé hægt eftir öll þessi ár að fá fjárhagslegan stuðning til þess að hjálpa kæranda að ná í þá aðstoð sem hún þurfi svo mikið á að halda og létta á annars fjárþurfa heimili.

Einnig hafi verið sótt um örorkubætur tvö ár aftur í tímann eins og heimilt sé, en aðeins hafi verið veitt örorka frá umsóknardegi í janúar 2015 í stað janúar 2013. Kærandi telji samkvæmt öllum gögnum málsins að hún eigi rétt á örorkubótum frá janúar 2013.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kæran lúti að örorkumati Tryggingastofnunar sem hafi farið fram þann 6. október 2015. Einnig sé kærður gildistími örorkumatsins, en kærandi hafi verið metin með örorkustyrk frá 1. janúar 2015 til 30. september 2017. Við skoðun á gögnum málsins hafi Tryggingarstofnun ákveðið að fallast á kröfu kæranda að þessu leyti og meta hana með örorkustyrk tvö ár aftur í tímann frá því að Tryggingastofnun hafi borist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg hafi verið til að unnt hafi verið að taka ákvörðun um bótarétt kæranda. Nýtt örorkumat gildi því frá 1. apríl 2013 til 30. september 2017. Þar sem stofnunin hafi fallist á þennan hluta kröfu kæranda fari stofnunin fram á að þeim hluta kærunnar sé vísað frá.

Þá kemur fram í greinargerðinni að örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilegra viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingarstofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar greiðist þeim sem skorti a.m.k. helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri með umsókn sem hafi verið móttekin af Tryggingastofnun þann 13. mars 2015. Örorkumat hafi farið fram þann 6. október 2015. Niðurstaða örorkumats hafi verið sú að kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar, en hún hafi hins vegar verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laganna. Matið hafi gilt frá 1. janúar 2015 til 30. september 2017 en gildistíma örorkumatsins hafi nú verið breytt.

Við mat á örorku styðjist tryggingarlæknir við þau gögn sem liggi fyrir. Við örorkumat lífeyristrygginga þann 6. október 2015 hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 14. apríl 2015, bréf B læknis, dags. 8. maí 2015, svör við spurningalista, dags. 29. janúar 2015, skoðunarskýrsla, dags. 8. september 2015, ásamt umsókn sem móttekin hafi verið 13. mars 2015.

Við örorkumat sé stuðst við staðal Tryggingarstofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi hafi strítt við geðrænan vanda. Af læknisvottorði megi ráða að endurhæfing sé ekki líkleg til að skila aukinni vinnufærni að sinni og raunar muni kærandi hafa verið flutt til D.

Við skoðun með tilliti til staðals hafi komið fram að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður, geðsveiflur valdi henni óþægindum einhvern hluta dagsins, svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf, andlegt álag hafi átt þátt í að hún hafi lagt niður starf, hún forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi, hún kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna og geðræn vandamál valdi henni erfiðleikum í tjáskiptum við aðra.

Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið uppfyllt. Kærandi hafi fengið níu stig í andlega hlutanum en ekkert í þeim líkamlega. Færni kæranda til almennra starfa hafi talist skert að hluta og henni hafi verið metinn örorkustyrkur frá 1. janúar 2015 til 30. september 2017 en gildistíma örorkumatsins hafi svo verið breytt við meðferð kærunnar og gildi núna frá 1. apríl 2013.

Ítarlega hafi verið farið yfir þau gögn sem fylgt hafi kæru kæranda. Farið hafi verið sérstaklega yfir hvort niðurstaða skoðunarskýrslu læknis og örorkumats hafi verið í samræmi við gögn málsins, þar með talið erindi kæranda frá 15. október 2015, og telji stofnunin ekki að um ósamræmi sé að ræða. Rétt sé þó að hafa í huga að í skoðunarskýrslu séu svör kæranda og aðrar upplýsingar í málinu metnar af skoðunarlækninum. Í þessu tilfelli megi t.d. benda á  að það sé mat skoðunarlæknis að kærandi geti notað síma og ábyrgst símaskilaboð þótt einnig hafi komið fram að hún svari stundum ekki í síma.

Það sé því niðurstaða stofnunarinnar að sú afgreiðsla á umsókn kæranda að synja henni um örorkulífeyri en veita henni örorkustyrk hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Hin kærða ákvörðun hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. október 2015, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn tímabundinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin a.m.k. 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn a.m.k. 75% öryrki nái hann a.m.k. sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 14. apríl 2015, þar sem fram kemur að sjúkdómsgreining kæranda sé sem hér greinir:

„Mixed anxiety and depressive disorder“.

Í læknisvottorðinu segir svo um fyrra heilsufar og núverandi einkenni kæranda:

„A var frísk fram til X. Hún flutti út til D árið X og hún lærði þar [...] og vann á [...], og flutti fjölskyldan heim X. Eftir að hún eignaðist barn í D mikði þunglyndi og kvíði. Eftir að farið var að hugsa um vinnu ári eftir fæðingu fann hún að hún var ekki tilbúin til þess. Fór til geðlæknis í nokkur skipti, henni líkaði ekki það. Fékk bara lyf sem gerðu hana sljóa og þreytta og eftir var hún í sálfræðimeðferð sem hjálpaði henni ekkert frekar. Lyfjameðferð hefur stundum létt henni ludn en alltaf fer í sama farið.

Þau hjón fluttu heim X með X börn og síðan eignaðist hún X.barnið X og eftir þá fæðingu áfram slæm af vanmáttarkennd, depurð og kvíða. Hefur tilhneigingu til þess að einangra sig. Þolir ekki að vera í fjölmenni. Getur verið í fámennum hópi en ekki fjölmenni og þarf helst að þekkja til fólks. Samt sem áður stundum þannig að hún reynir að forðast samneyti við aðra. Segist fá magaverki, höfuðverki og svefnvandamál þegar hún er sem verst. Finnur sér afsakanir fyrir að komast hjá hlutum en getur þó gert heimilisstörfin að mestu. Ef mikið álag er reynir hún að týna burt og fækka verkefnum eins og hún getur. Orðin einangruð heima og mikið stöðug vanlíðan. Meðferð hjá geðlæknum og lyfjameðferð hefur ekki borið árangur. Í ættarsögu er þunglyndi.“

Um skoðun á kæranda, sem fram fór 12. janúar 2015, segir svo í vottorðinu:

„Hæð X þyngd X BMI 25,41 Bþ 143/92 Líkamlega hraust. Dapurt yfirbragð. Talar ekki mikið sjálf en svarar spurningum og flestum svolítið óljóst, viðurkennir að vera döpur stundum kvíðin hafa einangrað sig, látið smáhluti fara í taugarnar á sér og sé stundum grátgjörn en lýsir því að hún sé misjöfn.“

Í vottorði B kemur einnig fram:

„Hún er döpur og leið og treystir sé sjaldnast til að fara út úr húsi. Í ættarsögu er þunglyndi. Hún hefur verið óvinnufær sl. X og viðtöl við sálfræðinga og geðlækna ásamt lyfjameðferð hefur ekki nægt til að gera henni kleyft að fara út á vinnumarkaðinn. Sé ekkert annað í hennar tilviki en örorkubætur- og áframhaldandi stuðningsmeðferð.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 29. janúar 2015, sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún sé með geðræn vandamál, mikinn kvíða og þunglyndi. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún hafi átt við geðræn vandamál að stríða játandi, án nánari lýsinga.

Skýrsla C skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 8. september 2015. Samkvæmt skýrslunni telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf. Kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Þá valdi geðræn vandamál kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Líkamsskoðun eðlileg nema væg hreyfiskerðing í hægri öxl, nær þó hendi yfir höfuð. Segir þetta vera eftir gamlan skaða sem barn, engir verkir.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Þunglyndis-, kvíða- og fælnieinkenni.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, engin. Að mati læknis er andleg færniskerðing kæranda sú að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni, fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Þá valdi geðræn vandamál kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Samtals er því andleg færniskerðing kæranda metin til níu stiga samkvæmt skýrslu skoðunarlæknis.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda a.m.k. 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að nokkurs misræmis gæti í gögnum málsins varðandi mat á andlegri færni kæranda.

Í mati skoðunarlæknis kemur fram að kærandi ergi sig ekki yfir því sem ekki hafi angrað hana áður en hún varð veik. Í rökstuðningi fyrir því svari segir skoðunarlæknir að það komi ekki fram í viðtali eða gögnum málsins. Hins vegar segir meðal annars í læknisvottorði E, dags. 9. apríl 2013, um kæranda: „[…] lætur hluti fara í pirrurnar á sér og nokkuð grátgjörn.“ Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála gefur framangreint vottorð til kynna að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hafi angrað hana áður en hún varð veik og ekki er nægilega rökstutt í skýrslu skoðunarlæknis af hverju niðurstaða hans sé að svo sé ekki. Ef fallist yrði á að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hafi angrað hana áður en hún varð veik fengi kærandi eitt stig til viðbótar samkvæmt örorkustaðli. Kærandi fengi því samtals tíu stig vegna andlegrar færniskerðingar og uppfyllti læknisfræðileg skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris

Fleiri vafaatriði koma til álita í þessu máli að því er varðar mat samkvæmt örorkustaðli. Það er mat skoðunarlæknis að kæranda finnist ekki að hún hafi svo mörgu að sinna að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis. Í rökstuðningi fyrir því svari segir skoðunarlæknir að það komi ekki með vissu fram í viðtali og gögnum málsins. Hún hafi einfaldað líf sitt. Hins vegar segir í læknisvottorði B, dags. 14. apríl 2015, að kærandi segist fá magaverki, höfuðverki og svefnvandamál þegar hún sé sem verst. Hún finni sér afsakanir fyrir að komast hjá hlutum en geti þó gert heimilisstörfin að mestu. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki komi nægilega skýrt fram í skýrslu skoðunarlæknis hvers vegna hann komist að þeirri niðurstöðu að kærandi telji sig ekki hafa svo mörgu að sinna að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis.

Einnig segir í mati skoðunarlæknis að kærandi kjósi ekki að vera ein sex tíma á dag eða lengur. Í rökstuðningi fyrir því svari segir að það komi ekki fram í viðtali eða gögnum málsins. Hins vegar segir í læknisvottorði B, dags. 14. apríl 2015, að kærandi hafi tilhneigingu til þess að einangra sig. Hún þoli ekki að vera í fjölmenni og þurfi helst að þekkja til fólks. Stundum sé hún þannig að hún reyni að forðast samneyti við aðra. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki koma nægilega skýrt fram í skýrslu skoðunarlæknis á hverju hann byggi þá niðurstöðu sína að kærandi kjósi ekki að vera ein sex tíma á dag eða lengur. Ekki kemur fram hvort hann hafi spurt kæranda að því beinum orðum. Ekki er heldur hægt að álykta um þetta atriði út frá stuttaralegri lýsingu á dæmigerðum degi.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki verði hjá því komist að nýtt mat fari fram á örorku kæranda. Er æskilegt að í örorkumatinu verði tekin rökstudd afstaða til þess sem framangreint misræmi lýtur að. Hafa ber í huga að miklir hagsmunir eru því tengdir fyrir kæranda hvort hún uppfylli skilyrði örorkulífeyris.

Af framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki verði hjá því komist að fella ákvörðun Tryggingastofnunar úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.  

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta