Kynning á jarðvarmanýtingu í þágu landbúnaðar
Sendiráð Íslands í Nýju Delí og íslenska orkufyrirtækið GEG Power stóðu fyrir kynningu á nýtingu jarðvarma fyrir samvinnufélög í landbúnaði og sjávarútvegi og sveitarfélög í höfuðstöðvum samvinnuhreyfingar Indlands (National Cooperative Union of India, NCUI) í Nýju-Delí 20. febrúar. Dr. Vijay Chauhan, starfsmaður fyrirtækisins og kennari við Háskólann í Reykjavík, kynnti verkefni GEG Power í Himachal Pradesh sem miðar að því að nýta jarðvarma til að kæla geymslur fyrir ávaxtaframleiðslu og þar með styrkja lífsafkomu þeirra sem starfa að þessari framleiðslu og sölu. Verkefnið nýtur styrks frá Heimsmarkmiðasjóði utanríkisráðuneytisins. NCUI er hreyfing samvinnufélaga, sem eru mjög áhrifamikil og starfa í flestum fylkjum Indlands og ná til tuga milljóna Indverja. Hreyfingin er beintengd nýstofnuðu ráðuneyti samvinnufélaga og er innanríkisráðherrann jafnframt ráðherra þessara mála.