Ljósleiðarahringtenging um Snæfellsnes og Vestfirði boðin út
Auglýst hefur verið á vef Ríkiskaupa útboð á ljósleiðaratengingum á Snæfellsnesi og Vestfjörðum en innanríkisráðherra fól fjarskiptasjóði fyrir skemmstu að stuðla að bættu öryggi fjarskipta á þessum landsvæðum. Stefnt er að því að unnt verði að skrifa undir verksamninga í byrjun maí.
Í dag liggur um Snæfellsnes og Vestfirði stakur ljósleiðarastofnstrengur. Rofni strengurinn fara fjarskipti á þessum svæðum um örbylgjuvarasambönd en varasambönd þessi eru bæði óáreiðanleg og hafa takmarkaða flutningsgetu. Ljósleiðarahringtenging gerir slík varasambönd óþörf og við hringtengingu aukast áreiðanleiki og öryggi fjarskipta á þessum landsvæðum til muna.
Auglýst var í lok febrúar eftir markaðsáformum fjarskiptafyrirtækja um að ljúka umræddum ljósleiðarahringtengingum án opinberra styrkja. Engin tilkynning barst um slík áform en fjórir aðilar tilkynntu hins vegar um áhuga á að taka verkefnið að sér gegn opinberum styrk. Fjarskiptasjóður ákvað því að bjóða framkvæmdirnar út.