Nr. 372/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 5. nóvember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 372/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU20090015
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 8. september 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...], og vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. ágúst 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarsmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 19. janúar 2020. Mál kæranda var í fyrstu tekið til meðferðar á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013. Mál kæranda var síðar tekið til efnismeðferðar. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 18. júní 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 19. ágúst 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 8. september 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 5. október 2020. Þá bárust frekari athugasemdir og gögn frá kæranda þann 21. og 22. október 2020. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Í ljósi frásagnar kæranda og skýrslna um heimaríki hans taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna þjóðernis síns, trúarbragða sinna og aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er vísað til greinargerðar hans til Útlendingastofnunar, dags. 29. júní 2020 og viðtals kæranda hjá Útlendingastofnun, dags. 18. júní 2020. Í fyrrnefndri greinargerð kemur fram að kærandi sé fæddur í borginni [...] í [...] fylki í Nígeríu. Kærandi tilheyri Igbo ættbálknum og sé kristinn. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hefðir og venjur hafi skipað stóran sess í samfélaginu. Einn þeirra siða hafi haft bein áhrif á kæranda og falið í sér að tvíburadrengir sem næðu 18 ára aldri væru neyddir til að hafast við í skógi sem beri heitið vondi skógurinn (e. evil forest), í þrjá daga. Ef annar eða báðir tvíburadrengjanna lifðu af dvölina í skóginum yrðu þeir að snúa aftur til þorps síns og gerast yfirprestar. Vegna þessarar hefðar hafi móðir kæranda sagt fólki að kærandi og tvíburabróðir hans hafi fæðst andvana til að hlífa þeim við þessari raun og þeir verið fluttir á munaðarleysingjaheimili þar sem þeir hafi alist upp. Fimm ára að aldri hafi þeir verið fluttir til [...] þar sem þeir hafi klárað grunnskóla. Árið 2005 hafi föðurbróðir þeirra farið með þá til [...]. Í maímánuði 2005 hafi kærandi og bróðir hans verið að sinna viðskiptaerindum fyrir frænda sinn þegar hann hafi símleiðis ráðlagt þeim frá því að koma aftur heim þar sem átök hafi brotist út á svæðinu. Skömmu síðar hafi faðir kæranda greint kæranda og bróður hans frá því að föðurbróðir þeirra og fjölskylda hans hafi verið myrt. Kærandi og bróðir hans hafi þá farið á verndarsvæði í [...], [...], í nokkrar vikur þar til vinur föður þeirra hafi farið með þá að heimili sínu í [...]. Eftir sex mánaða dvöl þar hafi kærandi og bróðir hans flúið Nígeríu.
Þá hafi kærandi greint frá því að á meðan dvöl hans stóð á Ítalíu hafi hann lent í vandræðum gagnvart glæpahópnum Black Axe. Hann hafi tekið þátt í fíkniefnainnflutningi fyrir hópinn og verið handtekinn í kjölfarið. Meðlimir fyrrgreinds glæpagengis hafi þá litið svo á að kærandi hafi stolið fjármunum sem hafi tilheyrt þeim. Þeir hafi ítrekað hótað kæranda og reynt að ná fram hefndum, t.a.m. hafi þeir kveikt í húsi þar sem hann hafi dvalist, ráðist að kæranda með ofbeldi og myrt bróður þess manns sem hafi verið tengiliður kæranda við Black Axe en hann hafi verið staddur í Nígeríu. Kærandi hafi greint frá því að hann óttist fyrst og fremst fyrrgreint glæpagengi. Þá óttist kærandi bæði um líf sitt og að vera beittur ofbeldi. Þá séu kristnir einstaklingar í hættu á að verða teknir af lífi í Nígeríu. Ennfremur kvaðst kærandi vera í hættu ef honum yrði gert að snúa aftur til heimaríkis vegna þess að hann hafi flúið landið. Í slíkum tilvikum leiti menn konungs að viðkomandi og taki hann af lífi. Kærandi hafi greint frá því að nígerísk stjórnvöld geti ekki verndað sig og að lögregluyfirvöld skiptu sér ekki af siðum og venjum samfélagsins auk þess sem innan lögreglunnar séu gengjameðlimir og því ekki hægt að treysta á vernd þeirra gagnvart fyrrgreindu glæpagengi.
Í greinargerð kæranda er vísað til umfjöllunar í greinargerð hans til Útlendingastofnunar, dags. 29. júní 2020, um aðstæður í Nígeríu. Þar er m.a. gerð grein fyrir ástandi mannréttindamála í Nígeríu með vísan til skýrslna alþjóðlegra stofnana og mannréttindasamtaka. Fjallað er um áhrif hryðjuverkahópa og glæpagengja á landið og það ofbeldi sem sé viðvarandi þar. Þá er einnig fjallað um stöðu einstaklinga af Igbo ættbálknum í Nígeríu, aðstæður í Imo ríki þar sem kærandi sé fæddur og uppalinn og stöðu kristinna einstaklinga í Nígeríu.
Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og byggir kröfu sína á því að slíkir annmarkar hafi verið á málsmeðferð kæranda hjá stofnuninni að rétt sé að ógilda ákvörðunina og taka mál hans til nýrrar meðferðar. Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að stofnunin hafi brotið gegn andmæla- og upplýsingarétti kæranda. Kærandi vísar til þess að stofnunin hafi byggt ákvörðun sína um að synja kæranda um alþjóðlega vernd m.a. á þeim grundvelli að framburður hans hafi verið ótrúverðugur vegna misræmis í gögnum málsins. Kærandi vísar til þess að samskipti Útlendingastofnunar við yfirvöld á Ítalíu og Sviss, sem og endurrit viðtals við kæranda sem fór fram þann 20. maí 2015 hjá svissneskum yfirvöldum, hafi verið lögð til grundvallar í ákvörðun stofnunarinnar. Kæranda hafi hins vegar ekki verið kunnugt um fyrrgreind gögn fyrr en ákvörðunin hafi verið birt fyrir kæranda og honum því ekki veittur kostur á að gæta réttinda sinna og hagsmuna í samræmi við lögfestar meginreglur stjórnsýsluréttarins um andmælarétt og upplýsingarétt. Í öðru lagi byggir kærandi á því að krafa hans um alþjóðlega vernd hafi m.a. verið byggð á því að kærandi væri kristinn einstaklingur og ætti m.a. á hættu ofsóknir af hálfu Fulani herdsmen. Í hinni kærðu ákvörðun sé hins vegar ekki fjallað um þá málsástæðu kæranda og vísi kærandi til umfjöllunar í greinargerð sinni um Fulani herdsmen og árásir þeirra gagnvart kristnum einstaklingum sem séu ekki bundnar við tiltekin svæði í Mið-Nígeríu. Telur kærandi að fyrrgreint bendi til þess að stofnunin hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 23. gr. laga um útlendinga.
Vegna krafna kæranda um alþjóðlega vernd vísar kærandi til greinargerðar hans til Útlendingastofnunar, dags. 29. júní 2020. Þar kemur fram að kærandi krefjist þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að hann óttist ofsóknir í heimaríki vegna aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi þar sem hann eigi á hættu að verða þolandi glæpagengisins Black Axe í Nígeríu, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, vegna trúarbragða sem kristinn einstaklingur, sbr. b-lið 3. mgr. 38. gr. laganna, og vegna kynþáttar og þjóðernis þar sem kærandi tilheyri Igbo ættbálknum, sbr. a- og c-lið 3. mgr. 38. gr. laganna. Til stuðnings kröfu sinni vísar kærandi til þeirra atburða sem hann hafi orðið fyrir vegna tengsla hans við fyrrgreint glæpagengi og þeirrar hættu sem að honum steðji vegna þess. Einnig vísar kærandi til landaupplýsinga sem beri með sér að ítök hópsins Fulani herdsmen hafi aukist og átök gagnvart kristnum séu orðin algengari í Nígeríu. Ennfremur sé hópurinn að færa sig sunnar í landinu. Þá sé jafnframt ljóst að kristnum steðji ógn af hryðjuverkahópnum Boko Haram. Þá verði einstaklingar af Igbo ættbálknum fyrir mismunun í Nígeríu sem birtist m.a. með þeim hætti að ættbálkurinn fái ekki sama stuðning frá yfirvöldum. Fyrrgreindir aðilar falli undir a- og c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi heldur því fram að ótti hans sé ástæðuríkur vegna framangreinds og að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærandi jafnframt að málsástæður kæranda sem ein heild feli í sér samansafn athafna í máli hans, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem kærandi eigi á hættu að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærandi telur með vísan til þess sem hefur verið rakið í tengslum við aðalkröfu hans að hann eigi í raunverulegri hættu á alvarlegum skaða verði honum gert að snúa aftur. Seinni málsl. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi ennfremur við í máli kæranda þar sem eldfimt ástand og átök séu viðvarandi í heimaríki hans. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli öll skilyrði til að hljóta viðbótarvernd hér á landi, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi hér landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, með vísan til þess að aðstæður hans í Nígeríu séu erfiðar. Kærandi tilheyri ættbálknum Igbo, sem eigi undir högg að sækja í Nígeríu og þá hafi hann ekkert bakland þar í landi. Einnig beri landaupplýsingar með sér að mikill fjöldi fólks sé vegalaus innan Nígeríu og búi margir við alvarlegan matarskort. Með endursendingu kæranda til Nígeríu muni kærandi búa við sambærilegar aðstæður. Með hliðsjón af þessu telur kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Þá byggir kærandi á því að með endursendingu hans til Nígeríu yrði brotið gegn grundvallarreglu þjóðarréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem væri til þess fallið að sanna á honum deili. Við leit að fingraförum kæranda í gagnagrunni kom í ljós samsvörun við skráðan umsækjanda á Ítalíu og sé kærandi þekktur af framangreindri samsvörun. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sannað hver hann væri með fullnægjandi hætti. Var því leyst úr auðkenni hans á grundvelli mats á trúverðugleika. Útlendingastofnun taldi enga ástæðu til að draga í efa að kærandi sé frá Nígeríu og að hann sé nígerískur ríkisborgari. Kærunefndin telur ekki ástæðu til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Nígeríu.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Nígeríu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- Amnesty International Report 2017/18 – Nigeria (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
- Brutality to twins in south-eastern Nigeria: what is the existing situation? (1993)(https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/8312211/);
- Country Policy and Information Note – Nigeria: Actors of Protection (U.K. Home Office, 28. mars 2019);
- Country Policy and Information Note – Nigeria: Medical and Healthcare issues (U.K. Home Office, janúar 2020);
- Country Policy and Information Note – Nigeria: Boko Haram (U.K. Home Office, janúar 2019);
- Country Background Note – Nigeria (U.K. Home Office, maí 2019);
- EASO COI Meeting Report – Nigeria – Practical Cooperation Meeting 12-13 June 2017 – Rome (European Asylum Support Office, 1. ágúst 2017);• EASO Country Guidance – Nigeria – Guidance note and common analysis (European Asy-lum Support Office, febrúar 2019);
- EASO Country of Origin Information Report – Nigeria – Actors of Protection (European Asy-lum Support Office, nóvember 2018);
- EASO Country of Origin Information Report – Nigeria – Country Focus (European Asylum Support Office, júní 2017);
- EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Security Situation (European Asy-lum Support Office, nóvember 2018);
- EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Targeting of individuals (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
- Freedom in the World 2020 – Nigeria (Freedom House, 4. mars 2020);
- Nigeria 2018 Human Rights Report (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
- Nigeria 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
- Nigeria 2019 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, 10. júní 2020);
- Nigeria: Rising toll of middle-belt violence (Human Rights Watch, 28. júní 2018);
- Nigeria: The Black Axe confraternity, also known as the Neo-Black Movement of Africa, including their rituals, oahts of secrecy, and use of symbols or particular signs; whether they use force to recruit individuals (2009-November 2012) (Immigration and Refugee Board of Canada, 3. desember 2012);
- Response to information request (RIRs) (Immigration and Refugee Board of Canada, 18. ágúst 2011);
- They ensure each twin baby dies: the secret killings in central Nigeria. (The Guardian, 19. ja-núar 2018) (https://www.theguardian.com/working-in-development/2018/jan/19/twin-baby-dies-secret-killings-nigeria-remote-communities);
- Twins in West African Culture and Society of the Iron Age (James Adewumi, 9. apríl 2014) (https://artifactsjournal.missouri.edu/2014/03/twins-in-west-african-culture-and-society-of-the-iron-age/);
- World Directory of Minorities and Indigenous Peoples – Nigeria: Igbo (Minority rights group International, janúar 2018) og
- World Report 2020 – Nigeria (Human Rights Watch, 14. janúar 2020).
Nígería er sambandslýðveldi með u.þ.b. 214 milljónir íbúa. Nígería var nýlenda Bretlands fram að sjálfstæði þess árið 1960 og sama ár gerðist Nígería aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1993. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991. Ríkið fullgilti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004, samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2001 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2009.
Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Alþjóðasambands sakamálalögreglu (e. Interpol) er löggæsla ríkisins aðallega í höndum ríkislögreglu Nígeríu sem talin er samanstanda af rúmlega 350.000 lögregluþjónum. Ríkislögreglan annist löggæslustörf í öllum 36 fylkjum Nígeríu og höfuðborginni Abuja. Hlutverk ríkislögreglunnar sé að vernda einstaklinga og eignir, koma í veg fyrir afbrot, upplýsa og rannsaka glæpi auk þess að sækja afbrotamenn til saka. Samkvæmt skýrslu EASO frá 2017 séu nokkrar sérhæfðar deildir innan ríkislögreglunnar sem annist sértæk brot. Ríkislögreglan hafi verið gagnrýnd fyrir spillingu og mannréttindabrot af ýmsum rannsakendum og samtökum. Dæmi séu um að lögregluþjónar hafi orðið uppvísir að því að kúga fé af almennum borgurum og sleppa sakborningum gegn mútugreiðslum. Þá hafi mannréttindasamtök greint frá því að u.þ.b. 100.000 lögregluþjónar hafi veitt efnamiklum einstaklingum persónulega þjónustu. Þá sé mikill skortur á lögreglumönnum í ríkinu, auk þess sem þjálfun lögreglumanna sé ábótavant og skortur sé á fjármagni frá ríkinu. Í ríkinu séu þó til staðar formlegar kvörtunarleiðir vegna misferlis lögreglu í starfi eða spillingar en þó tíðkist í miklum mæli að leysa slík mál á óformlegan hátt. Þá skorti skilvirkar leiðir til að eiga við, rannsaka og refsa vegna ofbeldis eða spillingar öryggissveita. Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 að mútuþægni sé víðfeðmur vandi í ríkinu og hafi stofnanir sem annist kvörtunarmál í ríkinu greint frá uppsögnum lægra settra lögreglumanna vegna kvartana almennings um fjárkúganir af hálfu lögreglu. Þó hafi fá mál verið rannsökuð eða farið fyrir dómstóla. Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 að töluverð spilling sé innan dómskerfisins, auk þess sem skortur sé á þjálfun dómara. Þó kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2019 að þrátt fyrir veikleika í stjórnkerfinu standi þeim sem óttist einstaklinga sem starfi ekki fyrir ríkið almennt til boða vernd. Komið hafi verið á fót embætti umboðsmanns í Nígeríu árið 2004 (e. The Public Complaints Commission) en um sé að ræða sjálfstæða og óháða stofnun sem taki á móti kvörtunum borgara og tryggi rétt þeirra gagnvart nígerískum stjórnvöldum endurgjaldslaust. Hægt sé að nálgast skrifstofur umboðsmanns í öllum 36 fylkjum Nígeríu og þrátt fyrir að störf umboðsmannsins verði einhverju leyti fyrir áhrifum vegna afskipta stjórnvalda þá sé um að ræða virkt úrræði fyrir borgara Nígeríu. Þá kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá mars 2019 að opinberar eftirlitsnefndir (The National Human Rights Commission (NHRC) og The Public Complaints Commission) hafi eftirlit með störfum dómstóla landsins og nígeríska lögregluráðið (e. The Nigerian Police Council) og framkvæmdarstjórn lögreglunnar (e. Police Service Commission) hafi eftirlit með störfum lögreglunnar.
Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2020 er heilbrigðiskerfinu í Nígeríu skipt í fyrsta, annað og þriðja stig og skiptist jafnframt í opinberan- og einkageira. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins sé starfrækt á vegum sveitarfélaga, annað stigið sé starfrækt á vegum ráðuneyta í hverju og einu fylki og þriðja stigið sé starfrækt á vegum alríkisins. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins feli í sér almenna heilbrigðisþjónustu fyrir borgara Nígeríu og fái jafnframt minnsta fjármagnið af stigunum þremur. Því sé almenn heilbrigðisþjónusta almennt illa skipulögð og innviðir hennar veikburða. Aðgengi sé þá ekki gott sökum skorts á heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki víða um Nígeríu. Þá sé lækniskostnaður almennt hár og aðgengi að lyfjum slæmt. Heilbrigðisþjónusta sé fjórfalt aðgengilegri í þéttbýli heldur en í strjálbýli. Heilbrigðisþjónusta innan einkageirans sé almennt betri og skipulagðari en lækniskostnaður sé að meðaltali hærri en hjá opinbera geiranum. Þá komi fram í tímaritsgrein frá árinu 2010 að talið sé að allt að 60% íbúa Nígeríu hafi ekki haft fullnægjandi aðgang að lyfjum. Þá komi fram að heilbrigðisþjónusta sé töluvert aðgengilegri í suðurhluta landsins en í norðurhluta þess.
Í skýrslu sérstaks skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2019 kemur fram að Evrópusambandið og alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IOM) starfi saman í sérstöku átaksverkefni er lúti að endursendingu fólks til Nígeríu. Fólksflutningastofnunin í samstarfi við ýmsar innlendar stofnanir s.s. innflytjendaþjónustu Nígeríu (e. Nigerian Immigration Service) nefnd ríkisins fyrir flóttamenn, innflytjendur og fólk á innri flótta (e. the National Commission for Refugees, Migrants and Internally Displaced Persons), NAPTIP, almannavarnir ríkisins og ETAHT (e. Edo State Taskforce against Human Trafficking) veiti ýmsa þjónustu vegna móttöku og aðlögunar einstaklinga sem snúi aftur til Nígeríu. Grunnþjónusta sé veitt, m.a. ferðir áfram til heimabæjar eða þorps, símar til frekari samskipta, matur, skammtíma húsnæði, heilbrigðisþjónusta og vernd. Þá sé einstaklingum með sérþarfir jafnframt vísað til heilbrigðisstofnana, sálfræðinga, í ráðgjöf og veitt aðstoð við fjölskyldusameiningu.
Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna um trúfrelsi frá árinu 2019 er talið að um það bil helmingur íbúa landsins séu múslimar og hinn helmingurinn sé kristinn. Þar kemur fram að trúfrelsi sé verndað í stjórnarskrá Nígeríu og einnig sé að finna ákvæði sem banni stjórnvöldum að koma á ríkistrú. Flestir íbúar Norður og Norðaustur-Nígeríu séu múslimar og í Suður-Nígeríu séu kristnir í meirihluta. Bæði kristnir og múslimar hafi greint frá mismunun á grundvelli trúar sinnar á þeim svæðum þar sem þeir séu í minnihluta, m.a. vegna takmarkana á réttindum þeirra til tjáningar og samkomu og einnig við að fá atvinnu hjá ríkinu.
Samkvæmt skýrslu EASO frá 2018 er öryggisástand landsins hvað verst í norðurhlutanum þar sem hryðjuverkahópurinn Boko Haram beri ábyrgð á andláti mörg þúsund íbúa. Helstu átök í suðurhluta Nígeríu megi rekja til ágreinings í tengslum við olíuauðlindir á svæðinu. Samkvæmt skýrslu innanríkisráðuneytis Bretlands frá janúar 2019 hafi ríkisstjórn Nígeríu aukið öryggisaðgerðir og reynt að takast á við vandann sem fylgir árásum Boko Haram í Norðaustur-Nígeríu, m.a. með því að senda herafla til svæðisins og hafi tekist að minnka umsvif hópsins. Þá hafi ríkisstjórnin einnig handtekið og leitt fyrir dóm yfir 1.500 manns sem sakaðir hafi verið um tengsl við Boko Haram. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi fyrir árið 2019 kemur fram að átök hafi verið viðvarandi árið 2019 milli Fulani Herdsmen og kristinna bænda í Norður og Mið- Nígeríu, átökin hafi þó farið minnkandi frá árunum 2017/2018 vegna inngrips stjórnvalda og viðleitni íbúanna til að leysa deilurnar. Tala látinna almennra borgara hafi farið úr yfir 1.500 árið 2018 í u.þ.b. 350 árið 2019. Alþjóða- og félagssamtök hafi gagnrýnt stjórnvöld í Nígeríu fyrir getuleysi til að koma í veg fyrir eða draga úr ofbeldi milli kristinna og múslimskra samfélaga. Samkvæmt skýrslu innanríkisráðuneytis Bretlands frá janúar 2020 eigi árásir hópsins Fulani Herdsmen gagnvart kristnum sér að mestu leyti stað í norðurhluta Nígeríu.
Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna frá mars 2020 búi yfir 250 mismunandi þjóðarbrot í Nígeríu. Þrjú stærstu þjóðarbrotin séu Hausa, Igbo og Yoruba, en saman myndi þau um helming íbúafjölda landsins. Meðlimir úr öllum þjóðarbrotum hafi orðið fyrir mismunun en mismununin hafi einkum birst í ráðningum innan einkageirans og hverfaskiptingu í þéttbýli. Fram kemur að spenna milli ákveðinna þjóðarbrota í Nígeríu eigi sér langa sögu. Stjórnvöld í Nígeríu hafi gert tilraunir til að sporna við slíkri mismunun og hafi slíkar tilraunir yfirleitt samanstaðið af öryggisaðgerðum, þar á meðal lögregluaðgerðum og aðgerðum á vegum hersins. Lög í Nígeríu banni mismunun á grundvelli þjóðarbrots. Engu að síður hafi aðilar flestra þjóðarbrota greint frá því að vera jaðarsettir þegar komi að fulltrúum í stjórnmálum landsins og/eða tekjuúthlutun stjórnvalda. Samkvæmt ofangreindum gögnum séu flestir af Igbo þjóðarbrotinu búsettir í suðaustur hluta landsins. Samkvæmt heimildum sé orðrómur um að meðal tiltekinna ættbálka m.a. í Suðaustur-Nígeríu, þ. á m. Igbo ættbálknum, sé til staðar það rótgróna viðhorf, sem eigi rætur sínar að rekja til gamallar hjátrúar, að börn sem fæðist sem tvíburar séu álitin djöfulleg og að þau búi yfir yfirnáttúrulegum öflum sem séu talin valda örbirgð í samfélaginu. Samkvæmt trúnni séu tvíburar ýmist drepnir eftir fæðingu, sendir út í skóg til að láta lífið (e. evil forest) eða bjargað og gefnir til athvarfs. Þessar athafnir gagnvart tvíburum fari þá almennt fram í leyni. Þrátt fyrir að þessi framkvæmd hafi að mestu verið upprætt sé talið að morð á tvíburum eigi sér enn stað í minni og afskekktari ættbálkasamfélögum í Nígeríu.
Í skýrslu flóttamannastofnunar Kanada kemur fram að mikið sé um leynileg glæpasamtök og bræðralög í Nígeríu. Algengt sé að slík samtök séu á skólalóðum en þau stundi einnig umfangsmikla glæpastarfsemi fyrir utan háskólasvæðin. Samtökin séu þekktust fyrir ógnandi hegðun og ofbeldi gagnvart nemendum, kennurum, lögreglu og öðrum samtökum. Dæmi séu jafnvel um að stjórnmálamenn ráði slík samtök til þess að beita andstæðinga sína ofbeldi. Eitt alræmdasta bræðralagið séu samtökin Black Axe og sé meginmarkmið samtakanna skipulögð glæpastarfsemi. Bera heimildir með sér að starfsemi þeirra nái til Ítalíu og víðar um Evrópu. Fram kemur að samtök og bræðralög sem þessi séu bönnuð samkvæmt stjórnarskránni. Þá hafi þau einnig verið bönnuð með lögum sem samþykkt hafi verið árið 2004 (e. Secret Cult and Cult Related Activities (Prohibition) Bill). Talið sé að ef aðilar neiti að ganga í slík samtök eða reyni að ganga úr þeim þá geti þeir orðið fyrir ofbeldi. Þó séu samtök sem þessi ekki jafn áhrifamikil og þau hafi verið áður fyrr. Heimildir bera þá með sér að lögregla ákæri fyrir glæpi sem framdir séu af hópum og samtökum líkt og fyrir hvern annan glæp. Lögregluyfirvöld hafi í fjölda tilfella handtekið einstaklinga sem séu tengdir slíkum samtökum.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir umsókn sína á því að hann sé hættu í heimaríki vegna aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi þar sem hann eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum glæpasamtakanna Black Axe í Nígeríu. Þá óttist kærandi ofsóknir í Nígeríu m.a. vegna þess að hann sé kristinnar trúar og sé af uppruna Igbo ættbálksins. Þá geti yfirvöld í Nígeríu ekki veitt kæranda fullnægjandi vernd. Kærandi telur þá að málsástæður hans sem ein heild feli í sér samansafn athafna í máli hans.
Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurriti af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 18. júní 2020 greindi kærandi frá því að hann hafi fæðst í [...] en samkvæmt hefð þar séu tvíburar sendir í skóg (e. evil forest) við 18 ára aldur og kannað hvort þeir lifi af þriggja daga dvöl þar. Lifi viðkomandi af dvölina hljóti hann tiltekna virðingu í þorpinu eða hafi möguleika á að gerast yfirprestur. Móðir kæranda hafi greint þorpsbúum frá því að kærandi og bróðir hans hafi fæðst andvana til að komast hjá hefðinni og hafi þeir alist upp á munaðarleysingjahæli til fimm ára aldurs. Kærandi óttist að vera tekinn af lífi verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis vegna fyrrgreindrar hefðar og að slíkt hafi áður gerst. Aðspurður um hvað myndi gerast ef hann myndi snúa aftur kvað hann þó jafnframt að hann vissi ekki hvað myndi gerast þar sem enginn í þorpinu þekki hann og hann hafi ekki alist upp þar. Líkt og áður hefur komið fram bera heimildir sem kærunefnd hefur yfirfarið með sér að á meðal tiltekinna ættbálka í Suðaustur-Nígeríu, þ. á m. Igbo ættbálknum, hafi mátt finna það viðhorf að börn sem hafi fæðst sem tvíburar séu álitin djöfulleg og að þau séu ýmist drepin eftir fæðingu, send út í skóg til að láta lífið (e. evil forest) eða þeim bjargað og gefin til athvarfs. Framangreindar landaupplýsingar beri með sér að um sé að ræða gamla hjátrú, sem gæti að einhverju leyti ennþá hjá vissum ættbálkum á tilteknum svæðum í Nígeríu, en gögn bendi ekki til þess að þeir einstaklingar sem ekki hafi fylgt hefðinni fyrir rúmlega 30 árum séu í hættu snúi þeir til baka. Kærunefnd telur því að kærandi teljist ekki eiga hættu á ofsóknir í heimaríki eða hann sé í hættu þar af þeim sökum í dag.
Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu.
Í viðtölum hjá Útlendingastofnun dagana 17. febrúar og 18. júní 2020 greindi kærandi m.a. frá því að vinur hans hafi komið honum í samband við glæpasamtökin Black Axe í þeim tilgangi að kærandi gæti aflað sér fjármagns til að koma systur sinni til aðstoðar vegna veikinda hennar. Kærandi hafi flutt fíkniefni fyrir samtökin á Ítalíu en hafi náðst við það og hlotið dóm fyrir verknaðinn. Í því sambandi greindi kærandi frá því að hann hafi afplánað þriggja ára fangelsisrefsingu á árunum 2013-2016. Kærandi lýsti átökum sem hann hafi lent í við meðlimi samtakanna Black Axe á Ítalíu og hótunum sem honum hafi borist vegna þess að samtökin álíti kæranda í skuld við sig. Þá fullyrti kærandi að glæpasamtökin væru ábyrg fyrir íkveikju í húsnæði sem kærandi hafi verið búsettur í þar sem ætlunin hafi verið að drepa hann. Þá telji kærandi að ef hann færi aftur til Nígeríu myndu meðlimir Black Axe hafa uppi á honum þar, líkt og þeir hafi gert á Ítalíu en glæpasamtökin hafi viðveru um allt landið.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar var það mat stofnunarinnar að framburður kæranda, í viðtali þann 18. júní 2020, um samskipti og ótta hans við glæpasamtökin Black Axe væri ekki nákvæmur um mörg atriði. Einnig kom fram að misræmis hafi gætt í framburði kæranda í viðtali hjá stofnuninni við tiltekin gögn málsins, þ. á m. við upplýsingar frá ítölskum og svissneskum yfirvöldum um kæranda, m.a. að því er varðar það hvenær hann hafi afplánað fangelsisrefsingu á Ítalíu. Var framburður kæranda um að meðlimir glæpasamtakanna Black Axe hafi hótað honum og reynt að drepa hann með þeim hætti sem áður hefur komið fram metinn ótrúverðugur og ekki lagður til grundvallar. Var þó lagt til grundvallar að ekki væri hægt að útiloka að kærandi hafi átt í einhverjum samskiptum við glæpasamtökin á Ítalíu.
Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram myndband af eldsvoða til stuðnings framburði sínum. Við meðferð málsins hjá kærunefnd var kæranda, þann 12. október 2020, gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn er varða tengsl hans við glæpasamtökin Black Axe og við umræddan bruna. Kærandi lagði fram þann 21. október 2020 ljósmyndir af tveimur örum á líkama sínum sem hann kveður vera afleiðingar hnífstungu af hálfu meðlima Black Axe. Auk þess lagði kærandi fram myndskeið af eldsvoða. Kærunefnd telur framlögð gögn ekki styðja við málsástæður kæranda um að meðlimir glæpasamtakanna Black Axe séu á eftir kæranda eða hafi staðið fyrir umræddum bruna í því skyni að taka kæranda af lífi og hafi því ekki þýðingu í málinu. Í samræmi við athugasemdir kæranda í greinargerð var kæranda þá gefið færi á að koma að athugasemdum sínum og frekari upplýsingum um málsatvik varðandi tiltekin gögn sem vísað var til í ákvörðun Útlendingastofnunar um samskipti stofnunarinnar við yfirvöld á Ítalíu og í Sviss sem og endurrit viðtals við kæranda sem fór fram þann 20. maí 2015 hjá svissneskum yfirvöldum. Í athugasemdum kæranda, dags. 21. október 2020, kvað kærandi m.a. að hann ætti erfitt með að muna dagsetningar og því geti verið að hann hafi afplánað refsingu sína á öðru tímabili en hann hafi greint frá í viðtali hjá Útlendingastofnun. Kærandi vísaði jafnframt til þess að hann hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann glími við minnisleysi.
Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem leggja grunn að þeim staðhæfingum hans að glæpasamtökin Black Axe hafi staðið fyrir umræddum bruna á Ítalíu eða að um hafi verið að ræða morðtilræði gegn honum. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem að mati kærunefndar sýna fram á að hann eigi í hættu á að sæta ofsóknum í heimaríki af hálfu meðlima samtakanna Black Axe. Kærunefnd telur þó ekki ástæðu til að efast um að kærandi hafi verið handtekinn á Ítalíu, sbr. svör ítalskra stjórnvalda dags. 13. júlí 2020, og að hann hafi verið í einhverjum samskiptum við fyrrnefnd glæpasamtök á Ítalíu, en ekki á þann hátt að það kunni að leiða til alþjóðlegrar verndar kæranda hér á landi. Þá telur kærunefnd ljóst að kærandi geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda í heimaríki telji hann sig í hættu á að verða fyrir áreiti af hálfu meðlima samtakanna þar í landi.
Kærandi byggir einnig á því að hann eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum í heimaríki á grundvelli trúarbragða sinna þar sem hann sé kristinnar trúar og tilheyri Igbo ættbálknum. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi sé kristinnar trúar og að hann tilheyri fyrrgreindum ættbálki. Framangreind gögn bera með sér að trúfrelsi ríki í Nígeríu samkvæmt stjórnarskrá landsins og er mismunun á grundvelli trúarbragða bönnuð í landinu. Hlutföll kristinna og múslima séu nánast jöfn í landinu og séu flestir kristnir í suðurhluta landsins en í norður og norðausturhluta þess séu múslimar í meirihluta. Báðir trúarhóparnir hafi greint frá mismunun á grundvelli trúar sinnar á þeim svæðum sem þeir séu í minnihluta. Árásir hópa á borð við Fulani Herdsmen og Boko Haram gæti að mestu leyti í mið og norðurhluta landsins. Framangreindar upplýsingar beri með sér að yfirvöld í Nígeríu hafi aukið öryggisaðgerðir í tilteknum fylkjum sem hafi m.a. leitt til talsverðrar fækkunar dauðsfalla árið 2019 í tengslum við átök um landssvæði milli múslima og kristinna. Líkt og áður hefur komið fram kveðst kærandi koma frá Imo fylki í Nígeríu, sem er staðsett í suðurhluta landsins. Kærunefnd telur gögn um heimaríki kæranda ekki benda til þess að aðgengi kæranda að viðeigandi vernd í Imo fylki eða annars staðar í Suður-Nígeríu sé takmarkaðra vegna þess að hann sé kristinnar trúar, tilheyri Igbo ættbálknum eða af öðrum ástæðu sem 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga tilgreinir. Þá telur kærunefnd framangreindar upplýsingar ennfremur ekki benda til þess að einstaklingar sem séu kristinnar trúar eða af Igbo ættbálknum eigi á hættu mismunun eða áreiti, á því svæði sem kærandi kemur frá, sem nái því alvarleikastigi að fela í sér ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er það mat nefndarinnar að kærandi, líkt og aðrir ríkisborgarar Nígeríu sem telji á réttindum sínum brotið, geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn mála sinna telji hann þörf á því. Er það jafnframt mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd gegn þeim athöfnum sem hann telur að sér stafi hætta af, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.
Þá telur kærunefnd jafnframt að samlegðaráhrif þeirra atriða sem kærandi hafi vísað til sem hugsanlegar ástæður ofsókna séu ekki þess eðlis eða nái því marki að hann teljist eiga á hættu ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort að einstaklingur sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda hverju sinni að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Kærandi byggir á því að félagslegar aðstæður hans yrðu erfiðar í Nígeríu. Kærandi tilheyri Igbo ættbálknum og hafi ekkert bakland þar í landi. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Af framangreindri umfjöllun um heimaríki kæranda verður ekki talið að aðstæður kæranda þar séu slíkar að þær veiti rétt til dvalarleyfis á grundvelli ákvæðisins.
Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærandi sé við ágæta andlega og líkamlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar
Svo sem áður hefur komið fram gerir kærandi athugasemdir í greinargerð sinni til kærunefndar við ákvörðun Útlendingastofnunar um að stofnunin hafi lagt til grundvallar í trúverðugleikamati sínu gögn frá yfirvöldum á Ítalíu og í Sviss, sem kærandi hafi ekki haft aðgang að eða haft kost á að koma að athugasemdum sínum við. Kærunefnd telur ákvörðun Útlendingastofnunar haldna annmarka að þessu leyti. Í samræmi við athugasemdir kæranda í greinargerð var kæranda gefið færi á að koma að athugasemdum sínum og frekari upplýsingum varðandi fyrrgreind gögn. Kærunefnd bárust athugasemdir kæranda þann 21. október 2020. Að mati kærunefnd hefur verið bætt úr annmörkum ákvörðunar Útlendingastofnunar með fullnægjandi hætti og telur kærunefnd að fyrrgreindur annmarki skuli ekki leiða til þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Í hinni kærðu ákvörðun er þá hvergi fjallað um málsástæðu kæranda um fyrrgreinda tvíburahefð í heimaríki hans. Kærunefnd telur að tilefni hefði verið til að fjalla um fyrrgreinda málsástæðu og telur ákvörðun Útlendingastofnunar haldna annmarka að því leyti. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu kærunefndar, telur nefndin að bætt hafi verið úr fyrrgreindum annmarka með fullnægjandi hætti á æðra stjórnsýslustigi.
Kærandi gerir í greinargerð sinni ýmsar aðrar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans. Kærunefnd hefur að framan tekið afstöðu til þeirra að því leyti sem þær kunna að hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi kom hingað til lands 19. janúar 2020 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Í ljósi COVID-19 faraldursins er athygli kæranda einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.
Jóna Aðalheiður Pálmadóttir
Bjarnveig Eiríksdóttir Sandra Hlíf Ocares