Hoppa yfir valmynd
26. september 2019 Forsætisráðuneytið

Samráð við almenning við endurskoðun stjórnarskrár

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra - myndSigurjón Ragnar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kynnti fyrir hönd formanna stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi tilhögun samráðs við almenning við endurskoðun stjórnarskrárinnar á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi í sumar ítarlega könnun á viðhorfum almennings til stjórnarskrárinnar. Voru niðurstöðurnar kynntar á blaðamannafundinum. Í framhaldi af skoðanakönnuninni verður haldin tveggja daga rökræðukönnun 9. og 10. nóvember næstkomandi þar sem 300 manns hvaðanæva af landinu verður boðið að taka þátt. Þátttakendur á umræðufundinum verða valdir úr hópi þeirra sem tóku skoðanakönnunina. Á fundinum verður sérstaklega rætt um lýðræði á Íslandi – kosningakerfi, kjördæmi og þjóðaratkvæðagreiðslur. Kannað verður hvort viðhorf þátttakenda breytist við nánari kynningu á málinu og umræður.

Jafnframt kom fram á blaðamannafundinum að Háskóli Íslands hefur hleypt af stað lýðvistunarverkefni, þ.e. umræðuvef í samstarfi við Betra Ísland (vefur á vegum sjálfseignarstofnunarinnar Íbúa) þar sem almenningi gefst kostur á að koma á framfæri eigin hugmyndum um stjórnarskrárbreytingar og afla þeim stuðnings.

Loks verður samráðsgátt stjórnvalda nýtt áfram til að samráðs um frumvarpsdrög sem koma frá formannahópnum.

„Við höfum í dag kynnt margháttað fyrirhugað samráð við almenning við endurskoðun stjórnarskrárinnar líkt og fyrirheit voru gefin um þegar þessi vinna hófst. Þar á meðal er fyrirhuguð rökræðukönnun í nóvember,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. „Ég bind miklar vonir við að þessi vandaði og um sumt nýstárlegi undirbúningur eigi eftir að geta af sér góðar tillögur um breytingar á stjórnarskrá en veiti okkur líka markverða reynslu við að virkja almenning til þátttöku í opinberri stefnumótun í nútímasamfélagi.“

 

Niðurstöður könnunar á viðhorfum almennings til stjórnarskrárinnar


  • Samráð við almenning við endurskoðun stjórnarskrár - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta