Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland samþykkt
Í dag samþykkti Alþingi mótatkvæðalaust tillögu utanríkisráðherra til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, en Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra tók í gærkvöldi þátt í seinni umræðu um tillöguna.
Í máli sínu minntist ráðherra hryðjuverkanna í Brussel í síðasta mánuði og lagði áherslu á mikilvægi þess að góð samstaða ríkti um meginstoðir öryggis- og varnarmála. „Þetta eru mjög merkileg tímamót. Alþingi hefur, í fyrsta skipti í lýðveldissögunni, samþykkt þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Sú þverpólitíska sátt sem náðst hefur hér á Alþingi um þennan mikilvæga málaflokk er sérstakt ánægjuefni", segir Lilja.
Þjóðaröryggisstefnan nær jafnt til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis og gerir meðal annars ráð fyrir að sett verði á fót sérstakt þjóðaröryggisráð sem hafi yfirsýn með framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og stuðli að virkri umræðu um öryggis- og varnarmál.
Stefnan felur í sér að horft verði sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum og að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna verði áfram lykilstoðir í vörnum landsins. Norræn samvinna um öryggis- og varnarmál verði ennfremur efld og þróuð og áfram lögð áhersla á virkt alþjóðasamstarf á grundvelli alþjóðalaga og virðingu fyrir mannréttindum. Tryggt verði að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta áskorunum í öryggis- og varnarmálum. Stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum sé hluti af þjóðaröryggisstefnu og tekið verði tekið mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum.
Þjóðaröryggisstefnan áréttar að stuðlað verði að auknu netöryggi og að stefna stjórnvalda taki mið af öðrum ógnum, eins og hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við fjármála- og efnahagsöryggi. Þá verði Ísland og íslensk landhelgi friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga.