Nær 3 milljörðum króna veitt til innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum
Um 908 milljónum króna verður úthlutað úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða á þessu ári samkvæmt úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum sem samþykkt hefur verið af Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Gert er ráð fyrir um 2,7 milljarða króna framlagi til næstu þriggja ára.
Úthlutanir ársins munu gera kleift að halda áfram því mikilvæga verkefni að byggja upp efnislega innviði á ferðamannastöðum, s.s. göngustíga, útsýnispalla, bílastæði og salerni. Aukin áhersla er á langtímaáætlanir í uppbyggingu staða, en einnig á aukna miðlun og merkingar, ekki síst á stöðum þar sem samspil er á milli náttúru og menningarsögulegra minja.
Göngupallar við Dettifoss.
56 ný verkefni
Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum er stefnumarkandi áætlun sem Alþingi samþykkti árið 2018. Verkefnaáætlanir eru gerðar til þriggja ára og eru uppfærðar á hverju ári. Ný verkefnaáætlun sem ráðherra hefur nú kynnt nær til áranna 2023-2025.
Alls eru nú 127 verkefni á áætlun næstu þriggja ára á rúmlega 82 ferðamannastöðum, þar af eru 56 ný verkefni sem bætast við að þessu sinni. Þar má nefna gerð hringleiðar um Stöng og Gjána í Þórsárdal, undirbúning að endurnýjun brúar yfir Öxará á Þingvöllum og uppbyggingu stígakerfis í Þingvallahrauni, uppbyggingu göngustígs og vatnssalerna í Vatnsfirði, gerð útsýnispalla, áningarbekkja og þurrsalerna í norðurhluta Vatnajökulsþjóðgarðs, áframhald uppbyggingar innviða fyrir ferðamenn í Ólafsdal í Gilsfirði, hönnun og framkvæmdir við ferðamannastaðinn Hvítserk, göngustíga við Jökulsárlón og stækkun bílastæðis við Keldur á Rangárvöllum. Áfram verður haldið með uppbyggingu á Gullfossi með það að markmiði að koma til móts við ólíka hópa ferðamanna. Þá er stefnt að því að ljúka uppbyggingu á Geysissvæðinu á gildistíma áætlunarinnar í samræmi við stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið.
Dreifing verkefna sem hljóta styrk úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða 2023-2025.
Mikill árangur náðst í að bæta innviði
„Það er mikilvægt að hlúa áfram vel að náttúru og minjastöðum okkar, ekki síst nú þegar ferðamönnum fjölgar aftur hratt í náttúru landsins,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Landsáætlun um uppbyggingu innviða er verkfæri sem veitir umsjónaraðilum svæða fyrirsjáanleika og fjármagn til lengri tíma, en á sama tíma veitir hún stjórnvöldum góða yfirsýn. Sömuleiðis veitir hún svigrúm til að bregðast hratt og örugglega við óvæntu álagi vegna ferðamanna, eins og við höfum gert. Nú þegar við gefum verkefnaáætlunina út í sjötta sinn höldum við áfram vandaðri innviðauppbyggingu, svo taka megi við auknum gestafjölda samtímis því sem viðkvæm náttúra svæðanna nýtur verndar.“
Yfirbygging yfir minjar á Stöng í Þjórsárdal. Tölvuteikning.
Mikill árangur hefur náðst í að bæta innviði um land allt og auka getu svæða til að taka á móti ferðamönnum, en á síðasta ári voru veittar 909 milljónir til slíkra verkefna. Frá árinu 2018 hefur yfir 4,7 milljörðum verið veitt úr landsáætlun til efnislegra innviða á yfir 170 stöðum um allt land og hafa umsjónaraðilar margra svæðanna unnið þrekvirki við að gera staðina betur í stakk búna til þess að taka á móti auknum gestafjölda.
Frá árinu 2018 hefur sú þróun orðið að nú er áhersla lögð á fjármögnun færri og stærri verkefna og eru styrkveitingarnar nú í auknum mæli tengdar staðbundnum áætlunum og langtímauppbyggingu á stöðunum. Sem dæmi um þetta má nefna nýja hringleið um Geysissvæðið, göngustíga við Gullfoss, göngupalla við Dettifoss, göngustíga við Dynjanda, náttúrustíga, verndaraðgerðir og grunnþjónustu í Þjórsárdal, og bílastæði og stíga við Jökulsárlón.
Frágangur á bílastæði við Háey.