Fjarskiptaöryggi vegfarenda á Norðausturlandi aukið
Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytið, með milligöngu fjarskiptasjóðs, styrkti í haust lagningu á veiturafmagni og ljósleiðara að Hófaskarði á Norðausturlandi.
Farnetssamband á Norðausturvegi og Raufarhafnarvegi, sem tengja saman Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn hefur verið ábótavant, ekki síst í Hófaskarði þar sem algengt er að bílar festist að vetrarlagi.
Fyrrnefnd lagning á veiturafmagni í Hófaskarði, sem RARIK og Tengir framkvæmdu, var forsenda þess að Öryggisfjarskipti reisti fjarskiptaaðstöðu og Sýn sett upp 4G-sendi þar sem samnýttur er af öllum farnetsfyrirtækjunum. Sendirinn var tekinn í notkun nýverið og við það batnaði 4G-samband á samtals 14 km vegkafla, þar af voru um 5 km með tæpu eða engu sambandi. Með þessu jókst fjarskiptaöryggi vegfarenda til muna á þessum mikilvægu samgönguæðum á Norðausturlandi.
Verkefnið, sem er liður í stefnu stjórnvalda um samfellt farnet á öllum stofnvegum, er eitt dæmi um gott samstarf opinberra og einkarekinna innviðafyrirtækja utan markaðssvæða, sem skilað hefur Íslandi í fremstu röð meðal þjóða í fjarskiptum.
Myndirnar sýna útbreiðslu 4G farnets á umræddum vegum fyrir og eftir að nýr sendir var tekinn í notkun. Grænt þýðir sæmilegt eða gott samband en rautt þýðir tæpt eða ekkert samband. Upplýsingarnar eru með þeim fyrirvara að um varfærna útbreiðsluspá er að ræða, þ.e. að sambandið kann að vera betra en spáin gerir ráð fyrir, en formlegar mælingar eru á döfinni.
Heimild: Fjarskiptastofa