Undanþágur frá hvíldartímaákvæðum fyrir atvinnubílstjóra
Forsaga málsins er sú að Kristján L. Möller samgönguráðherra ákvað að taka málið upp í kjölfar óska frá Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og Starfsgreinasambandi Íslands. Óskaði ráðuneytið eftir því 2008 við ESA, eftirlitsstofnun EFTA, að Íslandi yrðu veittar undanþágur frá aksturs- og hvíldartímareglum. Fylgdi samgönguráðherra málinu eftir með heimsókn til Brussel.
Rök fyrir óskum um undanþágur voru meðal annars þau að atvinnubílstjórar í vöru- og fólksflutningum á Íslandi geti yfirleitt náð ákvörðunarstað á einum degi, ólíkt því sem gerist á meginlandi Evrópu. Veðurskilyrði og aðrar aðstæður á Íslandi, einkum að vetri til, séu þó þannig að ökumenn aki hægar en ella. Að reyna að komast á hvíldar- eða áfangastað innan þeirra tímamarka sem reglugerðin kveður á um undir þessum kringumstæðum geti skapað streitu hjá bílstjórum sem aftur geti haft áhrif á umferðaröryggi. Því sé mikilvægt að sveigjanleiki sé í aksturstíma þannig að tryggt sé að bílstjórar nái áfangastað.
Ekki slakað á umferðaröryggi
Lögð var á það áhersla af hálfu samgönguráðherra að undanþágurnar myndu ekki auka áhættu í umferðinni, ekki væri slakað á kröfum um almennt umferðaröryggi eða öryggi bílstjóra og meðal annars bent á að heildaraksturstími á tveimur vikum færi ekki yfir tilskilið 90 tíma hámark.
Við umfjöllun sína óskaði ESA eftir mati íslenskra sérfræðinga sem kvaddir voru til. Fólst verkefni þeirra í því að meta undanþágubeiðnina með hliðsjón af aukinni hættu á umferðarslysum og hvort umferðaröryggi yrði stefnt í hættu ef fallist yrði á beiðnina.
Niðurstaða sérfræðinganna var sú að rök íslenskra stjórnvalda fyrir umsókn um undanþágurnar væru gild en ESA taldi ekki lagaskilyrði fyrir undaþágubeiðninni. EFTA ríkin þrjú undu ekki þeirri niðurstöðu og því tók fastanefnd EFTA málið fyrir. Hún hefur nú fallist á undanþágurnar sem geta því tekið gildi. Ekki er talið líklegt að málið muni koma til kasta sameiginlegrar nefndar ESB og EFTA en ekki er þó hægt að útiloka það.
Undanþágubeiðni íslenskra stjórnvalda sem heimiluð er varðar fjögur atriði.
- Í fyrsta lagi beiðni um að framlengja aksturstíma um eina klukkustund á leiðum lengri en 400 km og um tvær stundir tvisvar í viku en daglegur aksturstími er að hámarki 9 klukkustundir.
- Í öðru lagi að heimila 5 tíma aksturslotur á leiðinni milli Reykjavíkur og Freysness í Öræfum en leyfilegur aksturstími án hvíldar er 4½ klukkustund.
- Í þriðja lagi að heimila akstur milli Norðurlands og Keflavíkurflugvallar sem yrði allt að 6 klukkustundir án hvíldar enda hafi ökumaður áður hvílst í að minnsta kosti 11 stundir.
- Í fjórða lagi að heimila bílstjórum í hópferð 12 daga akstur með ferðamenn en ekki stytta í 6 daga eins og ný reglugerð áskilur.
Í lokin má bæta því við að nýsamþykkt umferðaröryggisáætlun gerir ráð fyrir að fjölgað verði áningarstöðum á þjóðvegakerfinu sem eykur möguleika bílstjóra á að taka hvíldartíma víðar en verið hefur til þessa.