Fjölmennur borgarafundur um samgöngumál
Vel á annað hundrað manns sótti borgarafund Kristjáns L. Möller samgönguráðherra á Neskaupstað í gær. Ráðherrann fjallaði um samgöngumál á Austurlandi og sérstaklega Norðfjarðargöng og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri greindi frá undirbúningi verksins.
Samgönguráðherra greindi í upphafi máls síns frá helstu framkvæmdum ársins á Norðausturlandi en þær stærstu eru endurbygging Vopnafjarðarleiðar og Hólaheiðar á Melrakkasléttu. Sagði hann tilboð í síðari áfanga Vopnafjarðarleiðar verða opnuð í næstu viku og jafnframt verður auglýst útboð í Raufarhafnarleið, nýja tengingu milli vegarins um Hólaheiði og Raufarhafnar. Þá er unnið að endurnýjun vegar um Hólmaháls sem mun ljúka síðla árs.
Fram kom í máli samgönguráðherra og vegamálastjóra að unnið hefur verið að undirbúningi Norðfjarðarganga síðustu misserin. Sögðu þeir leiðarval liggja fyrir, von væri á áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu í lok næsta mánaðar og unnið væri að verkhönnun vega, brúa og ganga og hafinn væri undirbúningur að hönnun vegskála og raflagna.
Samgönguráðherra sagði efnahagsvandann tefja upphaf verksins sem hann sagði óljóst en undirbúningur miðaðist við að verkið yrði tilbúið til útboðs um leið og aðstæður í fjármálum bötnuðu. Hann sagði lítinn undirbúning hafa farið fram þegar hann kom í ráðuneytið vorið 2007 en eftir það hefði verkefnið farið af stað og kvað hann Vegagerðina og Fjarðabyggð hafa átt gott samstarf um alla þætti undirbúnings.
Allnokkrir fundarmenn tóku til máls að loknum erindunum og lýstu sumir langþráðri bið eftir göngunum og hvöttu til þess að verkið fengi forgang.
Fjölmenni var á borgarafundi samgönguráðherra um samgöngumál á Neskaupstað og margir fundarmanna tóku til máls að loknum erindum ráðherra og vegamálastjóra. |