Hoppa yfir valmynd
2. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 117/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 117/2022

Fimmtudaginn 2. júní 2022

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. febrúar 2022, kærði B réttindagæslumaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 21. desember 2021, um að synja beiðni hennar um áframhaldandi stoðþjónustu frá C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur frá fæðingu barns síns í X 2019 notið stuðnings frá C á grundvelli samnings fyrirtækisins við Hafnarfjarðarbæ. Gerðir voru nokkrir tímabundnir samningar og þegar leið að samningslokum um áramótin 2021/2022 sótti kærandi um áframhald á þeirri þjónustu. Með ákvörðun fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbæjar, dags. 11. nóvember 2021, var beiðni kæranda synjað. Kærandi skaut þeirri ákvörðun til fjölskylduráðs Hafnarfjarðarbæjar sem staðfesti synjun fjölskyldu- og barnamálasviðs með ákvörðun, dags. 21. desember 2021, en samþykkti þó að gerður yrði samningur til 1. mars 2022 á meðan hugað yrði að öðrum stuðningsúrræðum. Sá samningur var síðar framlengdur til 31. maí 2022.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 21. febrúar 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. febrúar 2022, var óskað eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 14. mars 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. mars 2022. Athugasemdir kæranda bárust þann 28. apríl 2022 og voru þær kynntar Hafnarfjarðarbæ með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. maí 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi notið stuðnings frá C frá fæðingu barns hennar. Kærandi beri mikið traust til starfsfólks C og það sé mat hennar að C sé best til þess fallin að styðja kæranda við uppeldis- og umönnunarhlutverk dóttur sinnar. Þann 16. september 2021 hafi kæranda verið tilkynnt að hún og dóttir hennar gætu ekki lengur fengið þjónustu frá C. Félagsþjónustan hafi sett henni afarkosti, þvert á hennar vilja, annaðhvort að þiggja NPA samning eða að starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar sinni þjónustu við hana. Ekki sé að sjá að nein önnur rök liggi því til grundvallar en fjárhagsleg. Lögmaður kæranda hafi í greinargerðum til barnaverndar beðið um aðkomu félagsþjónustunnar um leið og dóttir hennar hafi fæðst. Barnavernd hafi komið að málinu en félagsþjónustan hafi neitað, hafi viljað leyfa barnavernd að vinna vinnuna sína fyrst. Það sé því þeirra sök að C hafi komið inn í málið sem mesti stuðningur við þær mæðgur en ekki félagsþjónustan. Í greinargerðum lögmanns kæranda hafi verið á því byggt að barnavernd og félagsþjónustan hafi unnið málið frá upphafi á þann hátt að markmið þeirra hafi verið að aðskilja móður og barn sem sé andstætt barnaverndarlögum, Mannréttindasáttmála Evrópu, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Af þeim sökum hafi félagsþjónustan komið allt of seint inn með sína þjónustu, enda virtist ekki hafa verið gert ráð fyrir því að kærandi fengi að halda barninu. Nú hafi móðir og barn tengst starfsfólki C mjög vel og það sé alfarið á ábyrgð félagsþjónustunnar sem hafi ekki komið fyrr inn með stuðning. Félagsþjónustan verði því að bera hallann og fjárhagslegan kostnað af því að halda áfram þeim stuðningi sem komið hafi verið á í upphafi. Það brjóti gegn réttindum kæranda og dóttur hennar að félagsþjónustan skipti bara út þjónustunni í ódýrara úrræði þegar henni henti. Einnig ógni það stöðugleika barnsins sem hafi verið með starfsfólk frá C frá fæðingu. Núverandi þjónusta með C við kæranda og dóttur hennar hafi gengið vel, skapað samfellu í þjónustu og tryggt öryggi og stöðugleika fyrir mæðgurnar. Það sé skýr afstaða kæranda að hún meti það sjálf svo að hún treysti sér hvorki til að halda utan um starfsmannamálin sjálf (NPA) né að sveitarfélagið útvegi starfsmenn frá félagsþjónustunni. Sveitarfélagið hafi ítrekað brugðist kæranda. Sú þjónusta frá sveitarfélaginu hafi áður verið reynd en sú þjónusta hafi ekki hentað kæranda og dóttur hennar. Með langtímasamningi við C geti kærandi haft val um hvernig hún stýri aðstoðinni og hver aðstoði hana án þess að ábyrgjast sjálf verkstjórnarhlutverkið. Einnig fái hún þannig þá ráðgjöf og þann stuðning sem hún þurfi í foreldrahlutverkinu og hafi fólk sér til aðstoðar sem þekki þær mæðgur og traust hafi skapast við.

Félagsþjónustan hafi fundað nokkrum sinnum með kæranda um breytingar á þjónustunni sem hafi valdið henni mikilli óvissu, kvíða og vanlíðan. Mikilvægt sé að undirbyggja stöðugleika og traust fyrir kæranda og dóttur hennar. Það sé algjört lykilatriði fyrir farsæld þeirra beggja að því sem vel gangi verði haldið áfram. Í lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir komi fram í markmiðunum að „fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði. Þjónusta samkvæmt lögum þessum skal miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði sem skipta máli.“ Í 3. gr. sé kveðið á um að opinberum aðilum beri að tryggja að sú þjónusta sem veitt sé samkvæmt 1. mgr. sé samfelld og samþætt í þágu einstakra notenda. Einstaklingur sem hafi notið þjónustu samkvæmt lögunum eigi rétt á að njóta hennar áfram nema verulegar breytingar verði á stuðningsþörfum hans. Þá sé kveðið á um í 8. gr. um stoðþjónustu sem skuli miðast við „þarfir fatlaðra foreldra vegna umönnunar og uppeldis barna sinna.“ Í 6. gr. komi fram að sveitarfélögum sé heimilt að gera samning við einkaaðila um að annast þjónustu samkvæmt umræddum lögum. Samkvæmt matsgerð um forsjárhæfni sé lögð mikil áhersla á að kærandi hafi aðgengi að þjónustu sem sé valdeflandi, ýti undir sjálfstæði hennar og sé hvetjandi fyrir hana í foreldrahlutverkinu. Einnig að stuðningurinn byggi á trausti og virðingu. Kærandi telji að sá stuðningur sem hafi hvað best veitt þeim mæðgum öryggi og mætt þörfum þeirra sé þjónusta frá C. Því óski hún eftir að sú þjónusta, sem þar hefur verið byggð upp og gangi vel, haldi áfram. Kærandi fari fram á að ákvörðun fjölskylduráðs Hafnarfjarðarbæjar verði felld úr gildi og að kveðið verði á um að hún fái áframhaldandi þjónustu frá C.

Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að það sé rétt hjá Hafnarfjarðarbæ að jafnræði skuli ríkja meðal notenda en þjónusta við fatlað fólk sé misjöfn og ekki sé hægt að setja allar þjónustuþarfir undir einn hatt þar sem þarfir fatlaðs fólks séu misjafnar. NPA henti einum en öðrum ekki og eins sé með þjónustuna frá C og þjónustuna frá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi hafi verið með þjónustu frá C frá upphafi, sem Barnavernd Hafnarfjarðarbæjar hafi lagt til, hún sé vön henni og vilji halda áfram með hana, enda gangi vel. Í sama bréfi komi fram: „Virðist vera gert ráð fyrir því að starfsmenn C á heimili kæranda verði ávallt þeir sömu?“ Kærandi geri sér grein fyrir því að breytingar geti orðið á starfsfólki hjá C en raunin sé þó sú að mun meiri stöðugleiki sé á starfsmannahópi hjá C en hjá félagsþjónustunni og þess utan séu allar breytingar bornar undir kæranda og unnar í samráði og samstarfi við hana. Fyrirkomulag þjónustunnar henti vel og traust ríki. Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar komi fram að ákvarðanir um þjónustu séu teknar í samráði við notanda. Kærandi spyrji þá hvers vegna ekki sé hlustað á þörf hennar og vilja varðandi þjónustu frá C. Hafnarfjarðarbær setji kæranda afarkosti um þjónustu, annaðhvort velji hún NPA eða starfsfólk frá Hafnarfjarðarbæ. Í pósti frá 19. júní 2020 komi fram að ákvarðanir séu teknar án samráðs við kæranda. Í pósti frá 5. október 2020 komi fram að ekki hafi verið haft samráð við kæranda um breytingar á starfsfólki sem hafi verið að þjónusta hana og dóttur hennar. Kærandi hafi ekki fengið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðunina. Margsinnis hafi verið ítrekað við Hafnarfjarðarbæ að ekki yrðu gerðar breytingar á þjónustu án samráðs og með stuttum fyrirvara. Í póstinum komi einnig fram að kærandi hafi langa áfallasögu og að hún sé einhverf sem geri það að verkum að hún eigi sérstaklega erfitt með að treysta fólki og meðtaka/melta upplýsingar og breytingar á stuttum tíma. Það sé hennar réttur að þetta sé virt og að hún geti treyst fólkinu sem komi inn á heimili hennar og aðstoði hana í móðurhlutverkinu. Í svarbréfi frá Hafnarfjarðarbæ 6. október 2020 komi fram að ekki sé alltaf hægt að sjá fyrir aðstæður og bregðast við tímanlega og því þurfi að leysa málin þegar þau komi upp. Þetta sé skiljanleg ástæða en það þurfi að vera samráð og kærandi upplýst um þessa hluti ef breytingar verði á þjónustu eða veikindi. Þetta eigi við um fleiri vinnustaði, eins og til dæmis C, en starfsmenn C séu í góðum samskiptum og samráði þegar upp komi veikindi.

Í gögnum málsins komi fram að oftar en einu sinni hafi verið gengið fram hjá persónulegum talsmanni kæranda, sem sé alvarlegt þar sem hlutverk persónulegs talsmanns sé að veita stuðning á fundum og aðstoða einstaklinginn við að taka upplýstar ákvarðanir. Í 3. gr. reglugerðar um persónulega talsmenn kemur fram að þjónustuveitendur og aðrir skuli ávallt kalla til persónulegan talsmann með hinum fatlaða einstaklingi þegar verið sé að ræða málefni sem varði hagsmuni, heilsu og velferð hans. Vegna þess hversu brotin samskipti og samráð hafi verið í upphafi á milli kæranda og Hafnarfjarðarbæjar hafi hún misst traust gagnvart þjónustunni frá Hafnarfjarðarbæ. Það sé lykilatriði fyrir velferð kæranda og dóttur hennar að þær upplifi traust og öryggi þar sem þær fái þjónustu. Kærandi fari fram á að ákvörðun fjölskylduráðs Hafnarfjarðar verði felld úr gildi og að hún fái áframhaldandi þjónustu frá C.

III.  Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi frá unga aldri notið þjónustu fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbæjar en hún sé greind með þroskaskerðingu og ýmis konar geðrænan vanda og sé öryrki af þeim sökum. Kærandi hafi eignast dóttur í X 2019 en hvorki hún né aðrir hafi haft vitneskju um að hún ætti von á barni. Mál þeirra mæðgna hafi verið tilkynnt til barnaverndarnefndar þar sem áhyggjur hafi verið af getu kæranda til að annast barnið. Að könnun máls lokinni hafi verið gerðar meðferðaráætlanir þar sem nákvæmlega hafi verið tilgreind þau stuðningsúrræði sem beita skyldi og kapp verið lagt á að leggja stöðugt mat á getu móður til að sinna barni sínu. Náið samráð um vinnslu málsins hafi verið haft við ýmsa aðila sem sinni málefnum fatlaðra, svo sem persónulegan talsmann kæranda, lögmann hennar og starfsfólk stuðnings- og stoðþjónustu fjölskyldu- og barnamálasviðs. Vegna fötlunargreininga kæranda hafi málið verið unnið frá upphafi í samvinnu barnaverndar og stuðnings- og stoðþjónustu. Málið hafi verið í sífelldri endurskoðun og kæranda gefinn góður tími til að laga sig að þörfum barnsins og læra að sinna því. Allar ákvarðanir hafi verið teknar með hagsmuni barnsins að leiðarljósi en að teknu tilliti til takmarkana kæranda. Fyrstu mánuðina hafi mæðgurnar búið hjá vistmóður sem hafi verið til taks allan sólarhringinn en í apríl 2020 hafi þær farið á sitt eigið heimili og stuðningur þá veittur eftir þörfum alla daga og um nætur þegar svo hafi borið undir. Málinu hafi verið lokað í barnavernd í árslok 2020 og eftir þann tíma eingöngu verið unnið hjá stuðnings- og stoðþjónustuteymi samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Strax á fyrstu vikum barnsins hafi verið gerður samningur við C sem veiti faglega þjónustu fyrir fólk með fötlun og fjölskyldur þess. Fyrirtækið hafi á að skipa þroskaþjálfum og öðru fagfólki og ætlunin hafi verið að starfsfólk C myndi veita mæðgunum nauðsynlega þjónustu fyrstu mánuðina og leggja mat á það hvernig kæranda tækist að tileinka sér þær leiðbeiningar sem henni hafi verið veittar og meta þjónustuþörfina eftir því sem fram yndi. Meginmarkmið þjónustunnar hafi verið að veita kæranda fjölbreytta persónulega ráðgjöf við að halda heimili og sinna uppeldi og umönnun barnsins með það fyrir augum að hún yrði sjálfstæðari og óháðari öðrum varðandi heimilishald og umönnun barnsins. Stuðningurinn hafi einkum falist í viðveru starfsmanna C á heimili kæranda á morgnana í um það bil eina klukkustund og á kvöldin í fjórar klukkustundir en stúlkan sé í leikskóla og kærandi vinni hlutastarfs á leikskóla. Einnig sé viðvera starfsmanna um helgar frá kl. 08:00 til 13:00 og frá kl. 16:00 til 22:00. Starfsmenn C hafi enn fremur verið til taks þegar kærandi hafi talið sig þurfa á þeim að halda, svo sem ef stúlkan yrði lasin.

Þann 14. desember 2021 hafi C skilað skýrslu til stuðnings- og stoðþjónustuteymis um þjónustu við kæranda og dóttur hennar. Samkvæmt skýrslunni hafi helstu áherslur í þjónustunni verið þær að leiðbeina kæranda í daglegu lífi, að styðja kæranda við að setja sér og öðrum mörk, að leiðbeina og styrkja kæranda við að sinna verkefnum sínum sjálf, að leiðbeina kæranda við umönnun og uppeldi dóttur sinnar og að viðhalda áður settum markmiðum. Í skýrslunni komi fram að meðal þess sem kærandi hafi verið aðstoðuð við séu innkaup, matseld og útivera með barninu. Einnig komi fram að með auknum aldri dótturinnar hafi kæranda verið veitt fagleg ráðgjöf og verkleg leiðsögn við að sinna tilfinningalegum þörfum stúlkunnar, örva hugrænan og félagslegan þroska hennar, setja henni eðlileg mörk og aga út frá aldri og tryggja öryggi hennar innan sem utan heimilis.

Fyrsti samningurinn sem hafi verið gerður við C hafi verið til þriggja mánaða og hafi gilt fram í ágúst 2020. Síðan hafi nokkrir samningar verið gerðir um þjónustu C til nokkurra mánaða í senn. Þegar liðið hafi verið að samningslokum um áramótin 2021/2022 hafi kærandi sótt um áframhaldandi stuðningsþjónustu á vegum C og hafi umsóknin verið afgreidd á fundi stuðnings- og stoðþjónustuteymis þann 11. nóvember 2021 með svohljóðandi bókun:

„Gerður var samningur við C um þjónustu við A og dóttur hennar fljótlega eftir fæðingu stúlkunnar. Hafði fæðingu hennar borið brátt að og þótti nauðsynlegt að stuðningur yrði veittur af hendi fagfólks á meðan ekki lá ljóst fyrir hver þörf A fyrir stuðning væri til frambúðar. Nú hefur starfsfólk C veitt stuðning inni á heimili þeirra mæðgna i hartnær tvö ár og hefur látið í té hugmyndir um þá þjónustu og þann tímafjölda sem A er nú i þörf fyrir hvern sólarhring. Fyrir liggur að sjálfstæði A hefur vaxið umtalsvert síðan hún eignaðist dóttur sína og er þess að vænta að svo verði áfram eftir því sem hún verður virkari þátttakandi í ákvörðunum um eigið líf. Að mati stuðnings- og stoðþjónustuteymis hefur A ekki lengur þörf fyrir aðstoð fagfólks nema að hluta til og telur teymið eðlilegt að breyting verði gerð á þjónustu við hana, annað hvort þannig að Hafnarfjarðarbær ráði starfsfólk beint til að annast hana, eða að gerður verði NPA samningur við A, og væri þá fagmenntaður aðili sem stýrði þjónustunni, t.d. starfsmaður C. Með vísan til ofanritaðs er beiðni um að gengið verði til samninga við C um áframhaldandi þjónustu við A og dóttur hennar synjað.“

Kærandi hafi skotið þessari ákvörðun til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem hafi samþykkt svohljóðandi bókun á fundi sínum þann 17. desember 2021:

„Fjölskylduráð Hafnarfjarðar staðfestir niðurstöðu stuðnings- og stoðþjónustuteymis fjölskyldu- og barnamálasviðs með þeim rökum sem fram koma í bókun teymisins frá 11. nóvember 2021. Fjölskylduráð leggur þó áherslu á að áfrýjanda og dóttur hennar verði áfram veitt sú þjónusta og sá stuðningur sem þær eiga óumdeilanlega rétt á og sem best hentar hag þeirra og þörfum, og felur starfsmönnum sínum að vinna að lausn málsins í samráði við áfrýjanda og með hag mæðgnanna að leiðarljósi. Samþykkir fjölskylduráð að gerður verði samningur við núverandi þjónustuaðila til 1. mars 2022 á meðan hugað verði að öðrum stuðningsúrræðum.“

Í kæru sé því haldið fram að engin rök liggi til grundvallar ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar önnur en fjárhagsleg. Því sé til að svara að aðkomu C hafi borið nokkuð brátt að eftir að kærandi hafi fætt dóttur sína og hafi verið nokkurs konar neyðarúrræði þar til ljóst yrði hvernig kæranda tækist að tileinka sér aðstoðina og hver framvinda mála yrði. Af þeim sökum hafi verið gerður samningur við C til skamms tíma sem síðan hafi verið endurnýjaður nokkrum sinnum, alltaf til nokkurra mánaða í senn. Aðstæður mæðgnanna hafi þannig verið í sífelldu endurmati og oftsinnis hafi verið rætt við kæranda um að NPA þjónusta tæki við, en það þyki að jafnaði eftirsóknarvert þjónustuform. Fyrir liggi að sjálfstæði kæranda hafi vaxið umtalsvert frá því að hún hafi eignast barnið og þess sé að vænta að svo muni áfram verða, enda hafi það verið markmið þjónustunnar við hana. Stuðnings- og stoðþjónustuteymi fjölskyldu- og barnamálasviðs hafi á að skipa sérfræðingum, svo sem þroskaþjálfum og félagsráðgjöfum, sem meti þjónustuþörf umsækjenda um þjónustu. Ekki sé um það deilt í máli kæranda að hún þurfi á mikilli þjónustu að halda og að Hafnarfjarðarbæ sé skylt að veita henni þá þjónustu. Að mati teymisins verði þó ekki séð að hún þarfnist lengur sérhæfðra starfskrafta við öll stuðningsverkefni sín, svo sem innkaup, matseld og barnagæslu, og því sé ekki lengur þörf á þjónustu háskólamenntaðra fagaðila nema að hluta til. Að áliti teymisins séu breyttar áherslur í þjónustunni liður í því að þjálfa kæranda og aðlaga hana að sjálfstæðu lífi. Ekki verði heldur horft fram hjá því að kostnaður við þjónustu við kæranda með NPA samningi myndi nema um þriðjungi miðað við núverandi fyrirkomulag.

Ákvörðun um þjónustu sé byggð á einstaklingsbundnu mati og tekin í samráði við notanda. Sveitarfélaginu beri þó að hafa í huga að jafnræði ríki meðal notenda og að einum verði ekki veitt þjónusta sem öðrum standi ekki til boða. Fjöldi fatlaðra einstaklinga haldi heimili í sveitarfélaginu og fái til þess stuðning, annaðhvort í formi NPA samnings eða með þjónustu starfsmanna sveitarfélagsins inni á heimili þeirra. Að mati stuðnings- og stoðþjónustuteymis komi tvær leiðir til greina við veitingu þjónustu til kæranda og hafi kæranda og talsmanni hennar verið gerð rækilega grein fyrir þeim kostum. Annars vegar að Hafnarfjarðarbær ráði starfsfólk beint til að annast þjónustuna og hins vegar að gerður verði notendasamningur eða eiginlegur NPA samningur við kæranda. Með því móti gæti kærandi valið sér starfsfólk og stjórnað þjónustunni sjálf með aðstoð umsýsluaðila og aðstoðarverkstjórnanda ef svo bæri undir. Með því móti ætti að vera sami stöðugleiki í starfsmannahaldi og sé nú en í kæru virðist gert ráð fyrir því að starfsmenn C á heimili kæranda verði ávallt þeir sömu. Þó megi ætla að breytingar í starfsmannahaldi C séu svipaðar og á öðrum vinnustöðum. Samningur hafi verið gerður við C um þjónustu við kæranda til 31. maí 2022.

Með vísan til framanritaðs sé gerð krafa um að ákvörðun fjölskylduráðs frá 17. desember 2021 verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 21. desember 2021, um að synja kæranda um áframhaldandi stoðþjónustu frá C.

Markmið laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skal þjónusta samkvæmt lögunum miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði sem skipta máli, svo sem kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna, trúarbrögð og fleira.

Í 8. gr. laga nr. 38/2018 er fjallað um stoðþjónustu en þar segir í 1. mgr. að fötluðu fólki skuli standa til boða stoðþjónusta sem er nauðsynleg þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar þannig að það standi til jafns við aðra og komið verði í veg fyrir félagslega einangrun þess. Stoðþjónustu skuli veita í hverju sveitarfélagi með þeim hætti sem best henti á hverjum stað og hún skuli miðast við eftirtaldar þarfir:

  1. Þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir þjónustu sem felst í því að treysta möguleika þeirra til sjálfstæðs heimilishalds og samfélagslegrar þátttöku.
  2. Þarfir fatlaðra einstaklinga til hæfingar, endurhæfingar, menntunar og atvinnu, m.a. á grundvelli viðeigandi aðlögunar, svo að þeir geti séð sér farborða og tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra.
  3. Þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir sérhæfða ráðgjöf, félagslegan stuðning og félagslegt samneyti, þ.m.t. ástundun tómstunda og menningarlífs.
  4. Þarfir fatlaðra barna fyrir umönnun og þjálfun ásamt nauðsynlegri þjónustu við fjölskyldur þeirra svo að þær geti búið börnunum örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði.
  5. Þarfir fatlaðra foreldra vegna umönnunar og uppeldis barna sinna.

Í 30. gr. laga nr. 38/2018 er kveðið á um almennar reglur um málsmeðferð. Þar segir í 1. mgr. að farið skuli að almennum reglum stjórnsýsluréttar við alla málsmeðferð samkvæmt lögunum nema ríkari kröfur séu gerðar í þeim. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal ákvörðun um þjónustu byggð á heildarsýn og einstaklingsbundnu mati á þörfum þess sem um hana sækir og ákvörðun skal tekin í samráði við umsækjanda. Sveitarfélög skulu tryggja að verklag og leiðbeiningar til starfsfólks miði að því að tryggja jafnræði í þjónustunni og að þjónustan sem veitt er sé nægjanleg miðað við þarfir umsækjanda. Þá skal hún veitt á því formi sem hann óskar, sé þess kostur.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hefur notið stoðþjónustu frá C frá fæðingu barns hennar í X 2019 á grundvelli samninga fyrirtækisins við Hafnarfjarðarbæ. Meginmarkmið þjónustunnar var að veita kæranda fjölbreytta persónulega ráðgjöf við að halda heimili og sinna uppeldi og umönnun barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í skýrslu C frá 14. desember 2021 er greint frá samantekt á þjónustu við kæranda á tímabilinu 1. september til 13. desember 2021. Þar segir meðal annars að helstu áherslur í þjónustunni hafi verið þær að leiðbeina kæranda í daglegu lífi, að styðja kæranda við að setja sér og öðrum mörk, að leiðbeina og styrkja kæranda við að sinna verkefnum sínum sjálf, að leiðbeina kæranda við umönnun og uppeldi dóttur sinnar og að viðhalda áður settum markmiðum.

Að sögn kæranda hefur þjónustan frá C reynst henni vel, hún finni fyrir miklu öryggi og því óski hún eftir að sveitarfélagið geri langtímasamning við fyrirtækið þannig að þjónustan verði alfarið í  höndum þess. Hafnarfjarðarbær hefur vísað til þess að sjálfstæði kæranda hafi vaxið umtalsvert frá fæðingu dóttur hennar og þess sé að vænta að svo verði áfram eftir því sem hún verði virkari þátttakandi í ákvörðunum um eigið líf. Kærandi sé ekki lengur í þörf fyrir aðstoð fagfólks nema að hluta til og því sé eðlilegt að breyting verði gerð á þjónustu við hana. Tvær leiðir komi til greina við veitingu þjónustu við kæranda. Annars vegar að Hafnarfjarðarbær ráði starfsfólk beint til að annast þjónustuna og hins vegar að gerður verði NPA samningur við hana. Með því móti gæti kærandi valið sér starfsfólk og stjórnað þjónustunni sjálf með aðstoð umsýsluaðila og aðstoðarverkstjórnanda ef svo beri undir.

Líkt og fram kemur í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 38/2018 skal veita fötluðu fólki þjónustu á því formi sem umsækjandi óskar, sé þess kostur. Hafnarfjarðarbær hefur metið það svo, að undangenginni skoðun á aðstæðum kæranda, að hægt sé að veita kæranda fullnægjandi þjónustu annaðhvort þannig að sveitarfélagið ráði starfsfólk beint til að annast hana eða að gerður verði NPA samningur við hana. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki ástæða til að hrófla við því mati og telur nefndin að framangreind útfærsla á þjónustu við kæranda sé ekki í andstöðu við ákvæði 8. gr. laga nr. 38/2018.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 21. desember 2021, um að synja beiðni A, um áframhaldandi stoðþjónustu frá C, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta