Hoppa yfir valmynd
14. mars 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðist í innleiðingu mönnunarviðmiða í hjúkrun á bráðalegudeildum sjúkrahúsa

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur falið starfshópi að hefja innleiðingu verklags um mönnunarviðmið í hjúkrun á bráðalegudeildum Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. Hópnum er m.a. ætlað að kostnaðargreina viðmiðin, skilgreina mælikvarða mönnunar, og hvernig skuli bregðast við ónógri mönnun. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á síðustu áratugum benda til þess að sterk tengsl séu á milli mönnunar við hjúkrun og öryggis sjúklinga. Formaður starfshópsins er Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Vinnan byggir á niðurstöðum annars starfshóps sem Guðlaug Rakel fór einnig fyrir og var að mestu skipaður sömu fulltrúum.

Hérlendis gildir almennt að heilbrigðisstofnanir setja sjálfar mönnunarviðmið út frá umfangi starfseminnar og fjárhagsramma. Eins og bent er á í skýrslu fyrri vinnuhóps sem skilaði niðurstöðum sínum í á liðnu ári er það ekki nóg því „áreiðanlegar mælingar á hjúkrunarþörf sjúklinga eru nauðsynlegar þegar kemur að því að áætla mönnun, skipuleggja þjónustu, tryggja gæði hennar og öryggi sjúklinga“ eins og segir í skýrslunni.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn um innleiðingu mönnunarviðmiðanna á bráðalegudeildum Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri ljúki þeirri vinnu í október næstkomandi með tillögum til heilbrigðisráðherra. Í framhaldi af því er hópnum ætlað að skoða hvaða mælitæki á hjúkrunarþyngd henti best á sjúkradeildum heilbrigðisstofnana. Við þá vinnu munu starfa með hópnum fulltrúar frá þeirri heilbrigðisstofnun sem er til skoðunar hverju sinni. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki eigi síðar en 1. apríl 2026. 

Vinnuhópinn skipa

  • Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, tilnefnd af Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, formaður
  • Elín Jóhanna G. Hafsteinsdóttir, tilnefnd af Landspítala
  • Ólafur Guðbjörn Skúlason, tilnefndur af Landspítala
  • Bryndís Guðmundsdóttir, tilnefnd af Landspítala
  • Hulda Ringsted, tilnefnd af Sjúkrahúsinu á Akureyri
  • Dagmar Huld Matthíasdóttir, fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, án tilnefningar

Starfsmaður vinnuhópsins er Andrea Jónsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta