Hoppa yfir valmynd
1. júní 2023 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins lokið

Utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins lokið - myndAtlantshafsbandalagið

Undirbúningur fyrir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Vilníus í júlí og áframhaldandi stuðningur við Úkraínu voru helstu umfjöllunarefnin á óformlegum utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Ósló.

Tveggja daga óformlegum fundi utanríkisráðherra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í Ósló lauk síðdegis. Á fundinum gafst utanríkisráðherrunum tækifæri til þess að bera saman bækur sínar fyrir leiðtogafund bandalagsins sem haldinn verður í Vilníus í Litáen 11.-12. júlí. Þar bar hæst umræður um nánara samband Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu, undirbúning ákvarðana um áframhaldandi stuðning bandalagsríkjanna við Úkraínu og frekari eflingu á fælingarmætti og vörnum bandalagsins.

„Fundurinn gaf okkur kost á að skiptast á skoðunum á opinn og hreinskiptinn hátt. Umræðurnar undirstrikuðu enn einu sinni mikla samstöðu með Úkraínu. Skilaboð fundarins í dag eru samstaða bandalagsríkja um að halda áfram að styðja við varnarbaráttu úkraínsku þjóðarinnar og gera henni kleift að sigrast á innrásarher Rússa. Þetta verða án efa einnig skilaboð leiðtoganna í sumar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Á meðal annarra viðfangsefna sem voru til umræðu í tengslum við leiðtogafundinn í sumar voru ný langtímamarkmið um framlög bandalagsríkja til varnarmála, áskoranir í tengslum við samskipti við Kína og þéttara samband við samstarfsríki á Indó-Kyrrahafssvæðinu.

Auk þess að hittast á fundi í dag komu utanríkisráðherrar bandalagsríkjanna, ásamt boðsríkinu Svíþjóð, saman til vinnukvöldverðar í gærkvöld. Þar gafst ráðherrum tækifæri til þess að eiga óformlegt samtal um margvísleg viðfangsefni og stöðu alþjóðamála.

Fyrir fundinn tóku Haraldur Noregskonungur og Hákon krónprins á móti utanríkisráðherrunum í konungshöllinni í Ósló. Þá tóku ráðherrarnir þátt í minningarathöfn um fórnarlömb hryðjuverka og öfgahyggju sem haldin var við minningarreit um þau sem létust í hryðjuverkaárásunum í Ósló og Útey 22. júlí 2011.

  • Utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins lokið - mynd úr myndasafni númer 1
  • Utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins lokið - mynd úr myndasafni númer 2
  • Utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins lokið - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta