Ræddu fjármögnun samgönguverkefna og öryggismál við upphaf ráðstefnu um vegamál
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra var meðal 30 starfsbræðra sinna frá ýmsum löndum sem tók þátt í umræðufundi samgönguráðherra á alþjóðlegri ráðstefnu um vegamál í Mexíkóborg. Ráðherrann tók þátt í umræðu um fjármögnun vegaframkvæmda en einnig ræddu ráðherrarnir öryggismál og ábyrga þróun vegakerfa með tilliti til umhverfisáhrifa.
Ráðstefnan er haldin á fjögurra ára fresti og sækja hana kringum þrjú þúsund manns. Dagskráin er mjög fjölþætt og er fjallað um hönnun vegaframkvæmda, fjármögnun og stjórnun verkefna, öryggismál vegakerfa, um öryggi í jarðgöngum, öryggi vegakerfa, viðhald og þjónustu á vegum, umferðarstjórnun, samgöngur og skipulag og umhverfismál í mjög víðu samhengi. Fjallað er um flest efnin í fyrirlestrum þar sem gefinn er kostur á umræðum og fyrirspurnum en einnig er boðið uppá vinnustofur, heimsóknir og spjaldasýningar. Þá sýna fjölmargir aðilar, bæði opinberir og úr einkageiranum ýmiss konar efni um vegagerð, tækni og búnað sem tengist samgöngumannvirkjum.
Opinbert framlag eða einkaframtak?
Ögmundur Jónasson var meðal þeirra ráðherra sem fjölluðu um fjármögnun framkvæmda. Fram kom hjá nokkrum ráðherranna að með efnahagshruninu hefðu mörg ríki leitað annarra leiða en opinberrar fjármögnunar á samgönguframkvæmdum. Einnig lýstu nokkrir ráðherrar frá Afríkuríkjum að með minnkandi framlögum og lánum frá Alþjóðabankanum yrðu ríkin að treysta meira á einkaframtak og einkaframkvæmdir til samgönguuppbyggingar.
Ögmundur Jónasson (efst t.v.) og kollegar hans frá ýmsum löndum sem tóku þátt í umræðufundi samgönguráðherra á ráðstefnunni.
Í ávarpi sínu sagði Ögmundur Jónasson að val um fjármögnunarleið ætti ekki að vera spurning um hvað einkaframtakið vildi eða Alþjóðabankinn heldur íbúarnir og sagði það reynslu Íslendinga að einkaframkvæmdaleið væri dýrari leið en opinber fjármögnun. Varpaði hann fram þeirri lausn að þegar þröngt væri um fjármögnun frá hinu opinbera væri nauðsynlegt að leggja meira fé til að efla almenningssamgöngur. Sagði ráðherra unnið að því að efla almenningssamgöngur á Íslandi enda væri kostnaður við samgöngur æ stærra hlutfall kostnaðar í rekstri heimilanna. Þetta breytti því ekki að áfram yrði unnið að uppbyggingu vegakerfisins og jafnframt yrði að fara fram ígrunduð umræða um með hvaða hætti samgöngukerfið yrði best fjármagnað í framtíðnni.
„Umræðan um fjármögnun samgöngukerfisins er greinilega mál málanna en nokkuð finnst mér bera á bóluhugsuninni sem við fengum að kynnast illu heilli: Framkvæma nú borga seinna – einhvern veginn. Annars er ánægjulegt að sjá hve hátt skrifaðir Íslendingar eru hér á þessum vettvangi. Bás Vegagerðarinnar er til mikilllar fyrirmyndar. Þá taka Íslendingarnir mjög virkan þátt í umræðunni. Þannig stýrði vegamálastjóri fjölsóttum fundi hér í dag um fjármögnun og eftirlitskerfi. Allt er þetta til að læra af.“
Vegagerðin með sýningarbás
Frá sýningarbás vegagerðarinnar.Vegagerðin leikur stórt hlutverk á ráðstefnunni og er meðal annarra Norðurlanda á stórum sýningarbás. Framlag Vegagerðarinnar snýst um uppbyggingu og rekstur vegakerfis þar sem náttúruöfl eru ógnvaldur og er sýnt með myndum og texta hvernig tekist er á við þetta verkefni í samvinnu við almannavarnir og aðra opinbera aðila sem þar koma við sögu. Tengist efnið að miklu leyti nýlegu eldgosunum og er þannig sýnd 40 mínútna löng mynd um gosið í Eyjafjallajökli.
Þá hefur Hreinn Haraldsson vegamálastjóri setið frá 2008 í framkvæmdanefnd World Road Association sem skipuleggur ráðstefnurnar. Hann er einnig í framkvæmdastjórn samtakanna og stýrði á þriðjudag einum fundinum þar sem rætt var hvernig tryggja má vandaða stjórnun við útboð og framkvæmd verkefna og forðast spillingu.