Hoppa yfir valmynd
13. mars 2007 Utanríkisráðuneytið

Fundur fiskimálanefndar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO)

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu

Verndun viðkvæmra vistkerfa fyrir skaðlegum áhrifum fiskveiða og aðgerðir gegn ólöglegum veiðum voru ofarlega á baugi á fundi fiskimálanefndar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) sem lauk sl. föstudag í Róm. Fiskimálanefndin kemur saman annað hvert ár og er mikilvægasti hnattræni vettvangurinn fyrir umræðu og stefnumörkun varðandi sjávarútvegsmál.

Samkomulag varð um að á vettvangi FAO yrðu mótaðar tæknilegar viðmiðunarreglur um verndun viðkvæmra vistkerfa, svo sem kaldsjávarkóralla, hverastrýta og neðansjávartinda, fyrir skaðlegum áhrifum fiskveiða, í samræmi við fiskveiðiályktun allsherjarþings S.þ. Viðmiðunarreglurnar munu auðvelda ríkjum að stjórna djúpsjávarveiðum skipa sinna með þeim hætti að þau valdi ekki skaða. Ísland hefur lagt mikla áherslu á að unnið sé með markvissum hætti í þessu máli og tilkynntu fulltrúar Íslands á fundinum um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að leggja fram 100.000 Bandaríkjadali til þessarar vinnu FAO sem er sú alþjóðastofnun sem er best til þess fallin að vinna þetta verkefni. Samþykkt var tímaáætlun sem gerir ráð fyrir því að viðmiðunarreglurnar verði tilbúnar í ársbyrjun 2008.

Að því er varðar baráttuna gegn ólöglegum fiskveiðum var lögð mest áhersla á tvö atriði, annars vegar bætt eftirlit í höfnum og hins vegar mikilvægi þess að koma í veg fyrir veiðar skipa sem sigla undir hentifána.

Samkomulag varð um að gerður yrði alþjóðasamningur um lágmarkskröfur varðandi aðgerðir hafnríkja gegn ólöglegum fiskveiðum. Er þetta ekki síst mikilvægt í ljósi þess að afurðir ólöglegra veiða eru oft fluttar til löndunar langt frá veiðislóð, eins og flutningur ólöglegs afla beint frá Reykjaneshrygg til Asíu er dæmi um.

Samkomulag varð jafnframt um að sú staðreynd að fjöldi ríkja hefur enga raunverulega stjórn á veiðum skipa sem sigla undir fána þeirra sé eitt helsta vandamálið varðandi ólöglegar fiskveiðar. Ákveðið var að stefna að því að FAO setji fram viðmið um framkvæmd fánaríkja á skyldum sínum og skoði mögulegar aðgerðir gegn skipum sem sigla undir fána ríkja sem ekki uppfylla viðmiðin.

Einnig var rætt um mikilvægi þess að þróa fjareftirlit betur sem tæki í baráttunni gegn ólöglegum fiskveiðum, en þess má geta að Gylfi Geirsson hjá Landhelgisgæslunni hefur tekið að sér sérverkefni, kostað af Íslandi, hjá FAO varðandi fjareftirlit með skipum.

Áhersla var lögð á mikilvægi svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana varðandi veiðar úr fiskistofnum á úthafinu. Nauðsynlegt er að slíkar stofnanir stundi virka fiskveiðistjórnun til að tryggja sjálfbærni úthafsveiða. Fjallað var um úttektir á starfi svæðastofnana og vakti sérstaka athygli úttekt sem unnin hefur verið á starfi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) sem Ísland stóð m.a. að. Er líklegt að aðrar slíkar stofnanir fylgi fordæmi NEAFC á næstu misserum í þeim tilgangi að bæta starf sitt.

Þá ræddi nefndin um vistkerfisnálgun við stjórn fiskveiða sem er hugtak sem hefur verið í mótun undanfarin ár. Flest aðildarríki FAO reyndust sammála um að best væri að standa að innleiðingu vistkerfisnálgunar með því að byggja áfram á þeirri fiskveiðistjórnun sem notuð er og taka tillit til fleiri þátta sem snúa að vistkerfi sjávar við stjórnunina eftir því sem þekking og færni eykst.

Í umræðum um verslun með sjávarafurðir lagði Ísland áherslu á mikilvægi frjálsrar verslunar og þess að dregið yrði úr ríkisstyrkjum í sjávarútvegi, sem enn tíðkast víða.

Á fundi fiskimálanefndarinnar var einnig fjallað um enduruppbyggingu sjávarútvegs og fiskeldis í þeim ríkjum þar sem hamfarir urðu vegna flóðbylgjunnar miklu á Indlandshafi í desember 2004. Framlag Íslands til enduruppbyggingar sjávarútvegs á Srí Lanka var kynnt og lögð áhersla á að öll gjafaríki, -félög og -stofnanir ynnu með það að leiðarljósi að enduruppbyggingin væri liður í framtíðaráætlunum ríkjanna sjálfra.

Í umræðum um veiðar smærri skipa var einhugur um að mikilvægasta verkefnið væri að tryggja að skýrt skilgreind réttindi til veiða væru grundvöllur fiskveiðistjórnunar. Víða um heim hafa komið upp vandamál sem tengjast opnum aðgangi að veiðum, sem leitt hefur til ofveiði.

Samhliða fundinum var haldinn sérstakur fundur um þróunarsamvinnu á sviði fiskimála þar sem rætt var um árangur og þróun hennar. Fundurinn var skipulagður af verkefni sem íslensk stjórnvöld styrkja hjá Alþjóðabankanum og nefnist PROFISH. Verkefnið hefur m.a. það hlutverk að styrkja samstarf þeirra þjóða sem eru í þróunarsamvinnu á sviði fiskimála.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta