Hoppa yfir valmynd
16. september 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 151/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 151/2020

Miðvikudaginn 16. september 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með beiðni, móttekinni 7. september 2020, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 151/2020 þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurupptöku á örorkumati frá 4. mars 2020 en meta honum örorkustyrk tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 11. september 2019. Með bréfi, dags. 14. október 2019, var umsókn kæranda um örorkulífeyri synjað en hann var talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. júlí 2019 til 31. ágúst 2022. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og barst rökstuðningur Tryggingastofnunar með bréfum, dagsettum 13. og 15. nóvember 2019. Kærandi óskaði eftir endurupptöku á máli sínu með tölvupósti 2. mars 2020, en með bréfi, dags. 4. mars. 2020, synjaði Tryggingastofnun endurupptöku málsins.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. apríl 2019. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu 2. september 2020. Staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurupptöku á örorkumati hans.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurði að nýju í máli kæranda á þeirri forsendu að mat Tryggingastofnunar hafi verið byggt á röngum gögnum.

Í beiðni kæranda kemur fram að þegar hann hafi séð læknisvottorðið sem Tryggingastofnun ríkisins hafi byggt sitt mat á, hafi hann séð strax að einhver misskilningur hafi orðið á milli hans og læknisins þar sem upplýsingarnar sem þar hafi komið fram hafi verið rangar. Hann hafi haft samband við Tryggingastofnun og beðið um að fá að fara aftur til læknis til að fá þessar upplýsingar leiðréttar, en hafi verið neitað. Það hafi verið þessi neitun, þ.e.a.s. neitunin um endurskoðun málsins, sem hann hafi kært til úrskurðarnefndar í mars 2020 (mál nr. 151/2020). Í niðurstöðu úrskurðarnefndar segi meðal annars:

„Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.“

Eðli málsins samkvæmt sé kærandi sá eini sem geti sagt til um hvort upplýsingarnar sem skoðunarlæknirinn sendi Tryggingastofnun hafi verið réttar eða rangar. Til dæmis geti enginn annar en hann sagt hvort honum finnist erfitt að ganga upp eða niður stiga, en hann hafi sagt lækninum að hann þurfi oft að ganga aðeins eina tröppu í einu, að hann þurfi að stoppa á milli hæða og að hann væri lafmóður eftir að hafa gengið upp á þriðju hæð þar sem hann búi, en í vottorðinu standi að það séu engin vandamál hjá honum við að ganga í stiga. Hann skilji því ekki hvernig úrskurðarnefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að það „verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða Tryggingastofnunar hafi byggst á ófullnægandi eða röngum upplýsingum“.

Kærandi vilji því biðja úrskurðarnefndina um að endurskoða niðurstöðuna. Hann tekur fram að hann sé ekki að biðja úrskurðarnefndina um að breyta mati Tryggingastofnunar, heldur aðeins að hann fái tækifæri til að tala aftur við lækni til að hann hafi möguleika á að leiðrétta þann misskilning sem hafi orðið.

Kærandi segir að í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar standi að hann eigi rétt á endurupptöku málsins ef niðurstaða Tryggingastofnunar byggist á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. Það sé nákvæmlega það sem hann segi í kærunni sem hann hafi sent úrskurðarnefndinni í byrjun mars. Meðal upplýsinga sem Tryggingastofnun hafi fengið hafi verið eftirfarandi:

1. Að hann geti gengið upp og niður stiga án vandræða.

2. Að hann geti setið í meira en 2 klst. án þess að þurfa að standa á fætur.

3. Að hann geti, án vandræða, staðið upp af stól.

Réttar upplýsingar um kæranda séu:

1. Hann þurfi að stoppa og hvíla sig milli hæða þegar hann gangi upp stiga, og sé orðinn móður þegar hann sé kominn upp á þriðju hæð (þar sem hann búi), og hann þurfi oft að ganga niður eina tröppu í einu.

2. Hann geti ekki setið í meira en ca. einn klukkutíma án þess að standa á fætur vegna stirðleika í hnjám.

3. Hann geti langoftast ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað.

Kærandi segir að úrskurðarnefnd nefni líka að engin ný læknisfræðileg gögn hafi verið lögð fram en það sé einmitt það sem hann sé að reyna að gera, en honum sé meinað um að fara aftur til álitslæknis til þess að Tryggingastofnun geti fengið þau gögn. Hann biðji nefndina því um að taka málið upp að nýju á þeim forsendum að mat Tryggingastofnunar hafi verið byggð á röngum gögnum.

III.  Niðurstaða

Kærandi óskar eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 2. september 2020. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurupptöku á örorkumati frá 4. mars 2020.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar um endurupptöku ef ákvörðun er haldin verulegum annmarka, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngum lagagrundvelli og/eða rangri túlkun lagaákvæða.

Af beiðni kæranda um endurupptöku má ráða að hún sé byggð á því að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála hafi byggst á röngum upplýsingum. Kærandi byggir á því að hann sé sá eini sem geti sagt til um hvort upplýsingarnar sem skoðunarlæknir sendi Tryggingastofnun ríkisins hafi verið rangar og því vilji hann fá tækifæri til þess að tala aftur við lækni til að hann hafi möguleika á að leiðrétta þann misskilning sem hafi orðið.

Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Engin gögn hafa verið lögð fram sem stutt geta fullyrðingar þess efnis að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála hafi byggst á röngum upplýsingum þannig að skilyrði til endurupptöku sé fullnægt. 

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 319/2018 synjað.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að telji hann að þau læknisfræðilegu gögn, sem liggja fyrir í málinu, gefi ekki rétta mynd af ástandi hans, geti hann sótt um örorkulífeyri á ný hjá Tryggingastofnun með framlagningu nýrrar umsóknar og ítarlegri læknisfræðilegra gagna.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 151/2020 synjað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 151/2020, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta