Hoppa yfir valmynd
8. maí 2019

Samræmingarfundur fastanefndar Íslands við Efnahags- og framfarastofnunina OECD

Fyrsti samræmingarfundur fastanefndar Íslands við Efnahags- og framfarastofnunina OECD var haldinn í Reykjavík 30. apríl. Fundinn sóttu tæplega sjötíu fulltrúar fagráðuneyta og stofnana sem sækja þar fundi fyrir Íslands hönd. Til hans var kallað til þess að fara yfir helstu málefni OECD og hlusta eftir ábendingum þeirra sem sækja þar fundi fyrir Íslands hönd. Fundurinn verður árlegur og mun skipa mikilvægan sess í stefnumótunarvinnu íslenskra stjórnvalda gagnvart stofnuninni. 

Fastanefnd Íslands við OECD sinnir þar stjórnarstörfum fyrir Íslands hönd. Starfsfólk hennar situr í ákveðnum stjórnarnefndum sem fara m.a. með fjármál stofnunarinnar og ákveða stefnur og áherslur. Innan OECD eru svo rúmlega 30 fagnefndir sem fjalla um margvíslega málaflokka, allt frá ferðamálum til menntamála til skatta og ríkisfjármála, en þeim sinna viðeigandi fagráðuneyti. Til þess að ná sem bestum árangri í þessu starfi – að vinna OECD nýtist Íslandi sem mest – er því mikilvægt að fastanefndin og fulltrúar Íslands í fagnefndunum tali sama máli þvert á stofnunina. 

Til fundarins var boðið þeim fulltrúum sem hafa sótt fundi fyrir hönd Íslands undanfarin tvö ár, alls 130 manns. Þar kynnti m.a. starfsfólk OECD og fjármálaráðuneytisins vinnu við efnahagsskýrslu Íslands sem OECD skilar af sér á tveggja ára fresti og verður kynnt í seinni hluta september þessa árs. Einnig kynntu fulltrúar fagráðuneyta sem sitja í hinum ýmsu nefndum sín störf. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sagði frá vinnu sinni í ferðamálanefnd OECD og við samkeppnismat á ferðaþjónustu og byggingariðnaði sem nú er í gangi. Utanríkisráðuneytið sagði frá samstarfi sínu við þróunarnefnd OECD en þar er m.a. til umæðu hvað sé þróunarsamvinna og hvað ekki. Menntamálaráðuneytið kynnti starfsemina í menntamálum en innan OECD er m.a. unnið að PISA-könnuninni, sem mælir árangur grunnskólanema, og TALIS-könnun um starfsumhverfi kennara. Þá fór fastanefnd yfir helstu stefnumál OECD, fjármál stofnunarinnar og hvernig Ísland gæti verið virkari í stefnumótun innan hennar og loks árlegan ráðherrafund stofnunarinnar sem fer fram 22.-23. maí næstkomandi en þar verður fjallað um stafrænu byltinguna og hvaða tækifæri felast í henni.

Fundurinn gaf góða mynd af því mikla samstarfi sem Ísland á í með OECD. Í lok hans var hins vegar ljóst að það eru ennþá tækifæri til þess að gera betur, bæði í þátttöku og nýtingu afurða hinna ýmsu nefnda og vinnuhópa stofnunarinnar við stefnumótun innan íslenska stjórnkerfisins. 

Fastanefndin mun síðan taka til sín það sem kom fram á fundinum og nýta til sinna starfa, bæði í stefnumótun og í þeim nefndum sem hún sinnir. Helsti ávinningur fundarins var þó ekki síst að hittast og opna þannig á hinar ýmsu boðleiðir sem geta orðið til þess að bæta samstarfið og auka ávinninginn af aðild Íslands að OECD. 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta