Ísland staðfestir þátttöku í alþjóðlegu kolefnisáskoruninni
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, staðfesti á aðildaríkjaþingi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP 28) í Dúbaí þátttöku Íslands í alþjóðlegu kolefnisáskoruninni (e. Carbon Management Challenge, CMC).
CMC kolefnisáskorunin er alþjóðlegt átaksverkefni sem miðar að því að hraða upptöku tækni sem byggir á föngun, förgun og hagnýtingu kolefnis (CCS/CCUS). Markmið kolefnisáskorunarinnar, sem Bandaríkin leiða, er að ýta undir og skala upp með stórfelldum hætti föngun, förgun og hagnýtingu kolefnis á heimsvísu. Með þessu á að draga úr styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti og vinna að því að ná markmiðum Parísarsamningsins um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C.
Í dag nær sá samdráttur sem næst í losun með föngun, förgun og hagnýting kolefnis á heimsvísu einungis í kringum 0,05 Gt C02-íg (þ.e. um 50 milljón tonn, sem svarar rúmlega tífaldri losun Íslands). Kolefnisáskorunin miðar að því að auka þetta magn upp í 1 Gt, en talið er að föngun, förgun og hagnýting kolefnis í því magni gæti haft veruleg áhrif í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Guðlaugur Þór fundaði nýverið með Dr. Andrew Light, aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna. Ráðherrarnir ræddu hvernig mætti dýpka samvinnu landanna á sviði orku- og loftslagsmála enn frekar. Þátttaka Íslands í kolefnisáskoruninni er liður í auknu samstarfi ríkjanna og á næstu mánuðum er stefnt að því að undirrita samkomulag um frekari samstarfsverkefni á sviði orku- og loftslagsmála.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það hefur ekki farið fram hjá neinum að íslensk fyrirtæki eru í fararbroddi í heiminum þegar kemur að loftslagslausnum á borð við kolefnisföngun. Það kom því ekki á óvart að bandarísk stjórnvöld skyldu bjóða Íslandi að vera með í þessu mikilvæga átaki – Ísland er alþjóðlegur orku- og loftslagsleiðtogi og við hyggjumst halda áfram á þeirri braut. Við höfum séð það hér á COP að áhuginn á íslenskum lausnum, sérþekkingu og hugviti hefur aldrei verið meiri.“