Hoppa yfir valmynd
25. júní 2012 Dómsmálaráðuneytið

Tímamót í Þjóðkirkjunni og samfélaginu

Innanríkisráðherra óskaði nývígðum biskupi Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur, til hamingju með embættið og óskaði henni velfarnaðar í vandasömu starfi í upphafi ræðu sinnar við setningu prestastefnu í Hallgrímskirkju í gær. Um leið þakkaði hann fráfarandi biskupi, Karli Sigurbjörnssyni fyrir mikilvægt og dýrmætt framlag hans í þjóðlífinu.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ræðir við Karl Sigurbjörnsson biskup að lokinni setningu prestastefnu. Jón Aðalsteinn Baldvinsson, vígslubiskup á Hólum, í baksýn.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ræðir við Karl Sigurbjörnsson biskup að lokinni setningu prestastefnu. Jón Aðalsteinn Baldvinsson, vígslubiskup á Hólum, í baksýn.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra fjallaði meðal annars um trúfrelsi, breytingar og umbrot í þjóðfélaginu, um hina félagslegu hreyfingu sem kirkjan væri auk þess að vera stofnun og sagði kirkjuna þurfa að spyrja sig hverju sinni hvers konar stofnun vill hún vera, stór eða smá, hvort  þörf væri á þjóðkirkju og hvort hætt væri við að með áherslu á hið stofnanalega og veraldlega myndi boðun þoka fyrir umgjörð?

Frá prestastefnu 2012 í Hallgrímskirkju.

Í lok ræðu sinnar sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra meðal annars: ,,Að því leyti sem kirkjan er mannanna verk, mun hún breytast einsog tímarnir breytast. Og við lifum nú tímamót í Þjóðkirkjunni og samfélaginu. Mót tvennra tíma. Kirkjan sýnir að hún lagar sig að breytingum og læknar sig af sárum í þeirri trú, von og kærleika, sem er markmið hennar og mælikvarði á hverri tíð. Ég óska Þjókirkjunni, biskupum, prestum og djáknum og öðru starfsliði, að ógleymdu öllu sóknarfólki hennar, farsældar á þeirri björtu braut að vera gifturík íslenskri þjóð og landi.”

Karl Sigurbjörnsson flytur ræðu við setningu prestastefnu 2012.Karl Sigurbjörnsson, fráfarandi biskup, setti prestastefnu og nokkrir biskupar kirkna í nágrannalöndum fluttu ávörp en þeir tóku þátt í vígslu séra Agnesar M. Sigurðardóttur biskups Íslands í Hallgrímskirkju í gær. Meðal umfjöllunarefna á prestastefnu í ár er þjónusta kirkjunnar í síbreytilegu samhengi, stjórnarskráin og þjóðkirkjan og frumvarp um ný þjóðkirkjulög.

Karl biskup sagði meðal annars frá nýrri samþykkt kirkjuráðs þar sem hvatt er til þess við væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá að ný stjórnarskrá lýðveldisins geymi ákvæði um hina evangelísk lútersku þjóðkirkju eins og verið hefur og að staða og réttindi annarra trú- og lífsskoðunarfélaga verði tryggð með hliðstæðum hætti og gert hafi verið í Noregi en þar er kveðið á um sambærilegan stuðning ríkisins við trú- og lífsskoðunarfélög og þjóðkirkjuna.

Frá prestastefnu 2012 í Hallgrímskirkju.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta