Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Börn í ábyrgðarhlutverkum gagnvart foreldrum sínum

Frá fundi um börn í ábyrgðarhlutverkum - mynd

Barns Beste er þverfaglegt tengsla- og þekkingarnet stjórnvalda og fagfólks sem heyrir undir norska heilbrigðisráðuneytið. Eitt af markmiðunum er að styrkja stöðu barna sem eru í ábyrgðarhlutverkum gagnvart foreldrum sínum vegna alvarlegara geðrænna eða líkamlegra veikinda þeirra, fötlunar eða fíknar.

Barns Beste átti frumkvæði að heimsókninni hingað til lands og buðu velferðarráðuneytinu að kynna starfsemi sína fyrir fagfólki og hagsmunaaðilum sem vinna í tengslum við velferð barna. Í för voru Siri Gjesdahl, forstjóri Barns Beste og Vibecke Ulvær Vallesverd, faglegur ráðgjafi.

Velferðarráðuneytið boðaði til fundar fulltrúa stofnana, ráðuneyta, heilbrigðisumdæma, sveitarfélaga og félagasamtaka og varð úr hátt í sextíu manna fundur lykilfólks sem ræddi um stöðu þekkingar, þjónustu og löggjafar sem snýr að börnum í þessari stöðu. Skipst var á hugmyndum um mögulegar lausnir og hvernig huga megi betur að þessum börnum og veita þeim viðeigandi aðstoð og stuðning, en þessi hópur er viðkvæmur og þekkt að hann á í meiri hættu en önnur börn á að þróa með sér tilfinningalega erfiðleika og jafnvel alvarlegan heilsubrest síðar á lífsleiðinni.

Á fundinum var rætt um hvernig Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, barnalög, lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, barnaverndarlög og lög um skólastigin þrjú geri ráð fyrir að stutt sé sérstaklega við börn í viðkvæmri stöðu. Aftur á móti heyri málefni þeirra undir mörg ráðuneyti og því gæti verið til mikilla bóta að koma á samræmdu kerfi sem tengdi saman stofnanir, fagstéttir og félagasamtök í því skyni að ná betur til þeirra barna og aðstandenda þeirra sem hlut eiga að máli og bæta þannig stuðning við þau. Liður í því gæti verið að innleiða verklagsreglur og leiðbeiningar um þjónustu við börn í þessari stöðu og þyrfti slík vinna að fara fram í samráði við Landlæknisembættið og fulltrúa nærþjónustu velferðar- og menntakerfisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta