Norðurlöndin kanna framleiðslu bóluefnis
Það á að liggja fyrir í mars hvaða leiðir Norðurlöndin geta farið við framleiðslu bóluefni til að verjast heimsfaraldri inflúensu. Þetta varð niðurstaða fundar norrænu heilbrigðismálaráðherranna sem haldin var í Kaupmannahöfn í morgun. Tvær leiðir verða kannaðar á næstu vikum á grundvelli skýrslu um málið sem lá fyrir fundinum og var unnin af sérfræðingahópi fulltrúa Norðurlandanna. Svíar höfðu stuttu fyrir fundinn tilkynnt að þeir hefðu ákveðið að fara eigin leiðir til að undirbúa framleiðslu bóluefnis og kom sú ákvörðun nokkuð á óvart og varð hún tilefni skoðanaskipta á ráðherrafundinum í Kaupmannahöfn í morgun. Niðurstaðan varð að sænska leiðin verður könnuð ásamt þeim kosti að láta framleiða bóluefni í tengslum við Serum stofnunina í Kaupmannahöfn, sem er eina opinbera stofnunin á Norðurlöndum sem gæti séð um framleiðslu bóluefnis. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, lagði áherslu á það fyrir Íslands hönd að það væri skylda heilbrigðisyfirvalda á Norðurlöndum að sjá svo til að bóluefni væri fyrir hendi brytist út heimsfaraldur inflúensu og hann undirstrikaði jafnframt að hann kysi norræna lausn og að heilbrigðisyfirvöld á Íslandi bæru fullt traust til faglegrar getu og þekkingarinnar sem Serum stofnunin byggi yfir.
Ræða ráðherra:
Norrænn ráðherrafundur 16. desember 2005
Jón Kristjánsson
heilbrigðisráherra
Ágætu kollegar og aðrir fundarmenn!
Heimsfaraldur inflúensu er sennilega einhver mesta heilbrigðisógn sem heimurinn hefur staðið frammi fyrir um langan tíma. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur skorað á aðildarríki sín að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að bregðast við hugsanlegum heimsfaraldri. Í samræmi við þá áskorun höfum við á þessu ári unnið að víðtækri viðbúnaðaráætlun undir forystu yfirvalda heilbrigðis- og dómsmála.
Hinn 7. október sl. samþykkti Ríkisstjórn Íslands tillögur um viðbrögð og aðgerðir vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu. Samkvæmt viðbúnaðaráætluninni er þar til bærum aðilum falið að fylgjast náið með þróun áhættumats og viðbúnaðar í öðrum löndum sem og hjá Evrópusambandinu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.
Þetta hlutverk er fyrst og fremst í höndum Heilbrigðisráðuneytis, sóttvarnalæknis og ríkislögreglustjóra. Áhersla er jafnframt lögð á að samstarf embætta yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis skuli aukið með tilliti til smitsjúkdóma sem borist geta milli dýra og manna.
Helstu markmið viðbragðsáætlunarinnar eru að:
· Hindra að heimsfaraldur berist til landsins sé þess kostur.
· Draga úr útbreiðslu hans innan landsins eftir því sem unnt er.
· Lækna og líkna sjúkum.
· Vernda þá sem greina og stunda sjúka.
· Vernda innviði samfélagsins og þá sem halda uppi lífsnauðsynlegri starfsemi í landinu.
Mikilvægustu aðgerðirnar sem gætu komið að gagni við að hefta útbreiðslu heimsfaraldurs inflúensu eru bóluefni og inflúensulyf. Brýnt er því að tryggja að viðeigandi bóluefni verði til staðar fljótlega ef faraldur brýst út og að framleiðslugeta lyfjaiðnaðarins sé nægjanleg við slíkar aðstæður.
Eins og ég lýsti yfir á fundi okkar í Færeyjum í júnímánuði á þessu ári þá teljum við Íslendingar mjög mikilvægt að Norðurlöndin samræmi aðgerðir sínar varðandi viðbúnað gegn heimsfaraldri inflúensu og ráðist sameiginlega í að hefja framleiðslu á viðeigandi bóluefni eða útvegi það með öðrum hætti.
Sú skýrsla sem liggur fyrir þessum fundi er mikilvægur áfangi á þeirri leið að treysta viðbúnað landa okkar gegn þessari ógn. Þeim sérfróðu einstaklingum sem unnið hafa að gerð hennar vil ég þakka fyrir vel unnið verk og vona að skýrslan geti skapað okkur grundvöll fyrir að auka viðbúnað okkar gegn þessum yfirvofandi faraldri.
Við Íslendingar erum nú þegar tilbúnir að taka ákvörðun um að þróa bóluefni. Jafnframt gerum við okkur grein fyrir því að til þess að ná samstöðu um þróun slíks bóluefnis verði m.a. að horfa til nýrra þróunaraðferða sem flýtt gætu fyrir framleiðslu bóluefnis umfram hefðbundnar aðferðir.
Staða mála er einfaldlega þannig að nú má engan tíma missa. Íbúar Norðurlanda eiga þá kröfu á okkur að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að ná samstöðu um útvegun bóluefnis.
Verði niðurstaðan sú að Norðurlöndin ákveði að ráðast í sameiginlega framleiðslu á bóluefni gegn heimsfaraldri inflúensu sýnist mér að farsælast sé að allt framleiðsluferlið verði undir stjórn opinberra aðila. Það útilokar hins vegar ekki samstarf við einkaaðila. Allavega er ljóst að nauðsynlegt verður að hafa umfangsmikið samstarf við fyrirtæki og stofnanir á sviði rannsókna og þróunar um einstaka þætti í framleiðslu bóluefna. Slíkt samstarf erum við ávallt tilbúin að skoða.