Hoppa yfir valmynd
28. desember 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Endurgreiðslur vegna gleraugnakostnaðar barna fjórfaldaðar

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur gefið út reglugerð um þátttöku ríkisins í gleraugnakostnaði barna. Reglugerðin er samin í framhaldi af tillögum sem starfshópur á vegum ráðherra skilaði honum. Hún endurspeglar þá skoðun heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að gleraugu séu hjálpartæki og því eðlilegt og sanngjarnt að ríkið taki þátt í kostnaði við þau eins og önnur hjálpartæki miðað við tiltekin gefin skilyrði. Fernt er mikilvægast í reglugerðinni að mati ráðherra. Í fyrsta lagi tekur reglugerðin nú til allra barna sem þurfa gleraugu að ákveðnum styrkleika, en stuðningur ríkisins miðaðist áður við börn með tiltekna sjónlagsgalla að 16 ára aldri. Þetta þýðir að á næsta ári fjölgar þeim börnum sem eiga rétt á styrk vegna gleraugnakostnaðar um 5700 og verða þau samtals um 7300 á næsta ári. Í öðru lagi er endurgreiðslualdurinn hækkaður úr 16 í 18 ár til samræmis við breytingar á sjálfræðisaldri. Í þriðja lagi er endurgreiðsluupphæðin hækkuð um þriðjung eða frá því að vera 37,5% af verði glerja í 50% af verði þeirra að jafnaði. Í fjórða lagi verður á fjárlögum næsta árs 50 milljónum króna varið til að greiða niður kostnað við kaup á gleraugum barna og ungmenna, en það er fjórföldun miðað við það fé sem nú er varið til árlegrar niðurgreiðslu á gleraugum. Samkvæmt reglugerðinni verða greiddir styrkir vegna gleraugna barna þegar styrkleiki glerja er +/-0,75 eða meiri. Gert er ráð fyrir að greiðsluþátttakan verði áfram föst upphæð sem miðist við styrkleika og gerð glerja, en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur verði þeirra. Reglugerðin tekur gildi 1. janúar 2006.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta