Tvær reglugerðir heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur gefið út reglugerðir um styrki til kaupa á næringarefnum og sérfæði og reglugerð vegna hjálpartækja. Breytingin á reglugerð nr. 625/2003 um styrki Tryggingastofnunar ríkisins til kaupa á næringarefnum og sérfæði felur í sér lagfæringar sem hafa að markmiði að tryggja betur en áður hnökralausa framkvæmd, að styrkirnir komi þeim til góða sem sannanlega þurfa á þeim að halda og að kostnaður fari ekki úr böndunum. Ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum Tryggingastofnunar vegna breytinga á reglugerðinni. Breytingin á reglugerð nr. 460/2003 um styrki TR vegna hjálpartækja felur í sér nokkra rýmkun á rétti þeirra sem þarfnast hjálpartækja og er gert ráð fyrir um 20 milljóna króna útgjaldaauka á árinu vegna breytinganna. Með reglugerðinni er þátttaka TR vegna kostnaðar við öndunarmæla aukin úr 70 af hundraði í 100% svo dæmi sé tekið, breytt er reglum um niðurgreiðslu kostnaðar við bæklunarskó, og gert er ráð fyrir að hækka mánaðarlegan styrk vegna öryggiskallkerfisþjónustu úr 5.000 kr. í 5.600 kr. og styrkupphæð vegna stofngjalds úr 6.250 kr. í 6.400 kr., en upphæðirnar hafa verið óbreyttar frá 2003.
Sjá nánar:
Reglugerð um styrki til kaupa á næringarefnum og sérfæði
Breyting á reglugerð nr.460/2003 um hjálpartæki