Samningur gerður um niðurgreiðslu tæknifrjóvgana
Gengið hefur verið frá samningi Landspítala – háskólasjúkrahúss og fyrirtækisins ArtMedica vegna tæknifrjóvgana. Landspíatli – háskólasjúkrahús gerir samninginn fyrir hönd heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins en hann kveður á um að niðurgreiddar verða 320 aðgerðir á ári. Í samningnum er gengið út frá að meðferðum verði dreift jafnt yfir árið þannig að ekki skapist ástand svipað því og skapaðist á liðnu ári þegar fyrirtækið lauk umsömdum aðgerðum í september og bauð eftir það fólki upp á aðgerðir gegn fullri greiðslu. Í tengslum við samning þennan verður jafnframt komið til móts við þá einstaklinga, sem á liðnu ári greiddu fullu verði meðferðir af því tagi sem þágildandi samningur tók til. Eru það um 54 pör. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra féllst fúslega á þá ósk fulltrúa Tilveru að fá tækifæri til að fylgjast með því hvernig samningsaðilar standa við samninginn og verður nefnd skipuð fulltrúum Tilveru, heilbrigðismálaráðuneytisins og LSH sett á laggirnar í þessu skyni.