Endurbætur sjúkrahúss ekki tengdar sjúkraflugi
Ekki er talin þörf á að bæta aðstöðu eða búnað á sjúkrahúsinu á Ísafirði sérstaklega vegna fyrirhugaðra breytinga á sjúkraflugi. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, greindi frá þessu í svari sínu við fyrirspurn Önnu K. Gunnarsdóttur, Samfylkingu, sem spurðist fyrir um málið á Alþingi. Á vegum ráðuneytisins eru ekki áform um endurbætur vegna fyrirkomulags sjúkraflugsins, sagði ráðherra, sem bætti við að “hins vegar hefur verið ákveðið að auka við búnað sjúkrahússins og standa þau búnaðarkaup nú yfir. Með tilkomu sérútbúinnar sjúkraflugvélar mun Vestfirðingum standa til boða betri og nútímalegri sjúkraflutningar.”