Hoppa yfir valmynd
13. október 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 336/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 13. október 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 336/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16090038

Beiðni […]

um endurupptöku á

úrskurði kærunefndar útlendingamála

I. Málsatvik

Þann 26. maí 2016 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. mars 2016, um að synja […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefndur kærandi), um hæli hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga, nr. 96/2002, og að endursenda hann til Ítalíu. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar […] þann 29. júní sl. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað með úrskurði kærunefndar dags. 14. júlí sl. Þann 14. september 2016 óskaði talsmaður kæranda eftir endurupptöku málsins hjá kærunefnd útlendinga. Meðfylgjandi beiðni kæranda um endurupptöku stjórnsýslumáls hans voru fylgigögn, þar á meðal læknisvottorð.

Kærandi óskar eftir endurupptöku á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að hann hafi verið greindur með […]. Í beiðni kæranda er tekið fram að að sögn sérfræðilæknis sé […]. Vegna þessa séu ekki forsendur til að flytja hann úr landi að svo stöddu.

Með hliðsjón af þessu telur kærandi að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu uppfyllt, þar sem íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggt á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Fer kærandi fram á að málið verði endurupptekið hjá kærunefnd og að ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um efnismeðferð umsóknar hans og vísa honum aftur til Ítalíu verði felld úr gildi og stofnuninni gert að taka umsókn hans um hæli til efnismeðferðar hér á landi.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um 2. tölulið:

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað

hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr.

Kærandi hefur skilað inn læknisvottorðum um heilsu sína eftir að úrskurður kærunefndar frá 26. maí 2016 var kveðinn upp. Í þeim læknisvottorðum, dags. 24. ágúst og 8. september 2016, kemur fram að […].

Af þessu má ráða að nýjar upplýsingar um heilsu kæranda hafa komið fram eftir að úrskurður kærunefndar var birtur. Það er því mat kærunefndar að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá birtingu úrskurðar kærunefndar og tilefni sé til þess að skoða mál kæranda aftur í ljósi þeirra nýju upplýsinga sem liggja fyrir um hagi hans. Kærunefnd fellst því á að mál kæranda verði endurupptekið hjá nefndinni á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

IV. Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga

Afmörkun úrlausnarefnis

Úrlausnarefni málsins er að skera úr um hvort þær nýju upplýsingar sem borist hafa kærunefnd útlendingamála kalli á endurskoðun úrskurðar nefndarinnar og breytingu hans á þá leið að fella beri úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um hæli hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga, en eins og að framan greinir komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að staðfesta bæri ákvörðun Útlendingastofnunar með fyrri úrskurði í máli kæranda […] frá 26. maí 2016.

Málsástæður og rök kæranda

Um málsástæður og rök kæranda vísast til úrskurðar kærunefndar í máli kæranda, dags. 26. maí 2016. Málsástæður kæranda vegna beiðni um endurupptöku hafa verið raktar hér að framan.

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951 ásamt viðauka við samninginn frá 1967 og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Einstaklingsbundin staða kæranda

Við meðferð máls er litið til þess hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem geti haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Með því getur verið átt við hvort kærandi hafi mátt þola pyndingar, hvort kærandi sé barn eða hvort umsókn hans varði börn hans, hvort kynhneigð eða kynferði kæranda geti haft áhrif eða hvort kærandi geti verið ríkisfangslaus. Mat á stöðu kæranda fer ávallt fram og eru þau atriði sem koma til skoðunar ekki tæmandi.

Af þeim læknisvottorðum sem kærandi hefur skilað inn til kærunefndar í tengslum við beiðni um endurupptöku er ljóst að […].

Umsókn um hæli frá heimaríki. Ákvæði 45. og 46. gr. a útlendingalaga

Í 1. mgr. 46. gr. útlendingalaga kemur fram að flóttamaður skv. 44. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, á samkvæmt umsókn rétt á að fá hér hæli frá heimalandi sínu að uppfylltum

ákveðnum skilyrðum. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 46. gr. a, og með fyrirvara um ákvæði 45. gr., synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 46. gr. laganna ef umsækjanda hefur verið veitt hæli í öðru ríki.

Með sama fyrirvara geta stjórnvöld einnig synjað um efnismeðferð á grundvelli b-liðar 1. mgr. 46. gr. a, ef umsækjandi hefur komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Um aðstæður kæranda og einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar á Ítalíu vísast til úrskurðar kærunefndar í máli kæranda, dags. 26. maí 2016. Það er mat kærunefndar að frá því að sá úrskurður var kveðinn upp hafi þessar aðstæður ekki breyst á þann veg að það hafi áhrif á niðurstöðu í þessu máli.

Jafnframt bendir kærunefnd á að samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í málum þar sem til álita kemur að flytja veikan einstakling úr landi er einungis um brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans að ræða við sérstakar aðstæður þar sem fyrir hendi eru afar rík mannúðarsjónarmið, sbr. m.a. úrlausn dómstólsins í máli Tatar gegn Sviss (mál nr. 65692/12) frá 14. apríl 2015. Samkvæmt þeirri úrlausn á veikur einstaklingur ekki kröfu til þess að vera áfram í aðildarríki til þess eins að njóta áfram heilbrigðis- eða félagslegrar þjónustu sem endursendingarríki veitir. Jafnvel þó að lífslíkur einstaklingsins minnki við brottvísun frá aðildarríki mannréttindasáttmálans þá er það eitt og sér ekki nóg til þess að um brot á 3. gr. sáttmálans sé að ræða.

Þegar metið er hvort synja skuli umsóknum um hæli um efnismeðferð á grundvelli b-liðar 1. mgr. 46. gr. a útlendingalaga skulu stjórnvöld kanna hvort skilyrði séu til þess að beita undanþáguheimildinni í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 4. febrúar 2016 kom ekkert fram sem gaf til kynna að kærandi hefði nein sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Í beiðni kæranda um endurupptöku er byggt á því að ekki sé tækt að senda kæranda aftur til Ítalíu vegna heilsufars hans. Á grundvelli þeirra heimilda sem kærunefnd hefur kynnt sér telur nefndin ljóst að kærandi hafi aðgang að almenna heilbrigðiskerfinu á Ítalíu og að ítölsk stjórnvöld geti aðstoðað kæranda, óski hann eftir því. Jafnframt er ekkert sem gefur til kynna að þau lyf sem kærandi taki við sjúkdómi sínum, eða önnur sambærileg lyf, standi kæranda ekki til boða á Ítalíu. Benda gögn því ekki til þess að aðstæður hans séu að öðru leyti svo sérstakar að ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi við. Verður því ekki talið að ástæða sé til að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eða annarra sérstakra ástæðna.

Kærandi hefur hlotið viðbótarvernd á Ítalíu. Samkvæmt gögnum málsins rann dvalarleyfi hans, sem veitt var á grundvelli verndarinnar, úr gildi þann 26. ágúst sl. Að mati kærunefndar eru ekki forsendur til að leggja annað til grundvallar en að kærandi njóti enn verndar í landinu. Samkvæmt upplýsingum frá ítölskum stjórnvöldum geta þeir sem njóta verndar á Ítalíu, en eru með útrunnið dvalarleyfi, sótt um endurnýjun leyfisins við komuna til landsins á ný.

Samkvæmt framansögðu hefur kæranda verið veitt vernd í öðru ríki en heimaríki sínu. Með hliðsjón af 45. gr. útlendingalaga og í ljósi ofangreindra upplýsinga er fyrri afstaða kærunefndar, þ.e. að Útlendingastofnun hafi verið heimilt að synja efnismeðferð á umsókn kæranda um hæli frá heimaríki sínu, […], með vísan til b-liðar 1. mgr. 46. gr. a útlendingalaga, óbreytt.

Umsókn um hæli frá dvalarríki. Ákvæði 44. gr. útlendingalaga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga.

Kærunefnd komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum […] að kærandi, sem ríkisborgari […], geti ekki átt rétt á hæli sem flóttamaður hér á landi vegna aðstæðna sinna á Ítalíu, því ríki sem veitt hefur honum vernd. Var honum synjað um stöðu flóttamanns hér á landi á þeim grundvelli. Jafnframt taldi nefndin að endursending hans til Ítalíu bryti ekki gegn 45. gr. laga um útlendinga. Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefnd að þær upplýsingar og gögn sem fram hafa komið í beiðni kæranda um endurupptöku breyti ekki þeirri afstöðu nefndarinnar.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvæði 12. gr. f útlendingalaga.

Samkvæmt 8. mgr. 46. gr. útlendingalaga skal stjórnvald taka til skoðunar hvort aðstæður kæranda falli undir ákvæði 12. gr. f ef hann er ekki talinn flóttamaður.

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Kærunefnd telur með vísan til orðalags ákvæðisins um „rík mannúðarsjónarmið“ og „ríka þörf á vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í skýringum með lögum nr. 115/2010 sem breyttu 12. gr. f laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé, í samræmi við framkvæmd í öðrum löndum, miðað við atriði á borð við það hvort um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða sem meðferð er til við hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Þá kemur fram að ef um langvarandi sjúkdóm er að ræða séu ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi þegar sjúkdómur er á lokastigi. Jafnframt sé rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki sé læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varða félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Eins og áður hefur komið fram er ljóst af beiðni kæranda og meðfylgjandi gögnum að kærandi […]. Þrátt fyrir að það sé skýrt að kærandi þjáist af ákveðnum heilsufarskvillum þá er jafnframt ljóst að hann nýtur alþjóðlegrar verndar á Ítalíu. Eins og áður hefur komið fram telur nefndin ljóst að kærandi hafi aðgang að almenna heilbrigðiskerfinu á Ítalíu og að ítölsk stjórnvöld geti aðstoðað kæranda, óski hann eftir því. Er það því mat kærunefndar að aðstæður og atvik í máli hans nái ekki því alvarleikastigi sem gerð er krafa um við veitingu dvalarleyfis á grundvelli 2. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga á grundvelli aðstæðna á Ítalíu. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það því niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða eins og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga. Er því fyrri afstaða kærunefndar, að aðstæður kæranda á Ítalíu séu ekki með þeim hætti að rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga, óbreytt.

Jafnframt er fyrri niðurstaða kærunefndar, að kærandi uppfylli ekki skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl við landið, óbreytt. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á landinu í tengslum við umsókn sína um hæli og aðeins í skamman tíma.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að endurskoða beri fyrri úrskurð kærunefndar í máli kæranda. Kveðinn er upp nýr úrskurður á þá leið að ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest með vísan til forsendna hennar, til þess sem fram kemur hér að framan og til fyrri úrskurðar kærunefndar í máli kæranda. Kærunefnd beinir því til Útlendingastofnunar að tryggja að gögn um heilsufar kæranda berist yfirvöldum á Ítalíu til að tryggt sé að ekki verði rof á meðferð hans.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The appellant´s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Anna Tryggvadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta