Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 62/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. febrúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 62/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU20120054

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 22. desember 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. desember 2020, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi samkvæmt umsókn.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 4. september 2016. Með ákvörðun, dags. 14. febrúar 2017, komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sendur til Svíþjóðar á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 11. júlí 2017, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og stofnuninni gert að taka mál til efnismeðferðar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. maí 2018, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd og um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða auk þess sem kæranda var synjað um dvalarleyfi á grundvelli mansals eða gruns þar um. Kærunefnd staðfesti þá ákvörðun með úrskurði nr. 534/2018, dags. 6. desember 2018.

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda veitt bráðabirgðaleyfi hér á landi á grundvelli 77. gr. laga um útlendinga þann 26. júní 2017 á meðan umsókn hans um alþjóðlega vernd var til meðferðar hjá stjórnvöldum. Var það leyfi endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 16. mars 2019. Þann 8. júlí 2019 sótti kærandi um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga, sem var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 16. mars 2019. Sú ákvörðun var ekki kærð til kærunefndar. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið þann 20. maí 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. desember 2020, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar þann 22. desember 2020 og 11. janúar 2021 barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum. Í greinargerð óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 14. janúar 2021 féllst kærunefnd á þá beiðni.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni vísar Útlendingastofnun til og fjallar um 78. gr. laga um útlendinga og 19. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum. Var það mat Útlendingastofnunar, þegar aðstæður kæranda og gögn málsins væru virt í heild, að skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla væru ekki uppfyllt. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun hafi lagt til grundvallar í ákvörðun sinni að hann hafi myndað einhver félagsleg tengsl við landið í gegnum fyrri dvöl og atvinnuþátttöku. Allt að einu væri vísað til þess að samkvæmt 5. mgr. 78. gr. laga um útlendinga teldist dvöl hér á landi á grundvelli 77. gr. laganna ekki til sérstakra tengsla. Kærandi byggir á því að hin kærða ákvörðun sé því marki brennd að mat Útlendingastofnunar miðist eingöngu við gildistíma bráðabirgðaleyfis kæranda, þ.e. frá 26. júní 2017 til 16. mars 2019. Að mati kæranda hafi ekki verið tekið tillit til þess að hann hafi komið til landsins 4. september 2016 og þeirra tengsla sem hann hafi myndað á tímabilinu 4. september 2016 til 26. júní 2017. Þá hafi ekki verið tekið tillit til tímabilsins eftir gildistíma leyfisins, þ.e. frá 17. mars 2019 til 8. desember 2020, en ljóst sé að kærandi hafi umfangsmikil og rík tengsl við landið. Útlendingastofnun hafi komist að niðurstöðu sinni án þess að framkvæma heildstætt mat á dvalartíma kæranda líkt og sé áskilið í 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Jafnframt sé áréttað að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verði að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Við úrlausn málsins hafi Útlendingastofnun borið að leggja mat á það hvort viðhlítandi upplýsingar og gögn lægju fyrir þannig að unnt yrði að meta rétt kæranda til dvalarleyfis með tilliti til 78. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir á því að rannsóknarskylda Útlendingastofnunar sé ekki uppfyllt í málinu enda hafi verið látið duga að vísa í hin ýmsu ákvæði laga um útlendinga og reglugerðar um útlendinga án þess að leggja sérstakt mat á dvalartíma kæranda í heild sinni og þá hagsmuni sem séu í húfi. Í tilfelli hans sé ákvörðun Útlendingastofnunar afar íþyngjandi þar sem hann muni verða nauðbeygður til að snúa aftur til Ítalíu og rjúfa þar með tengsl sín við fjölskyldu sína hér á landi. Þá sé í ákvörðuninni einnig vísað til þess að til staðar sé verulegt misræmi um raunverulegar fjölskylduaðstæður kæranda. Fullyrðing Útlendingastofnunar þess efnis virðist að mati kæranda eingöngu byggja á því að hann hafi ekki getið um tilvist stjúpföður síns, [...], með berum orðum í viðtali hjá stofnuninni í desember 2017. Að mati kæranda sé stofnunin að gera úlfalda úr mýflugu með slíkri fullyrðingu en kærandi hafi í umrætt sinn verið að greina frá stjúpföður sínum þegar hann var að tala um föður sinn. Fyrirliggjandi gögn málsins styðji slíka túlkun enda hafi kærandi verið ættleiddur þegar hann var fjögurra ára og hefði því takmörkuð tengsl við blóðföður sinn. Megi ef til vill rekja þennan misskilning til tungumálaörðugleika eða mistaka við þýðingu en það geti eitt og sér ekki leitt til grunsemda og synjunar. Í þessu sambandi verði heldur ekki litið framhjá því að kærandi hafi verið greindur með mjög alvarleg einkenni kvíða auk alvarlegra einkenna þunglyndis og streitu á því tímabili sem um ræði. Nauðsynlegt sé að taka tillit til andlegrar heilsu kæranda þegar svör hans séu tekin til skoðunar, enda hafi hann verið við slæma heilsu og illa upplagður þegar viðtalið hafi átt sér stað.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hafi stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hafi staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verði ekki endurnýjað eða hafi verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt sé heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur áður búið á Íslandi. Þar segir m.a. að áhersla skuli lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda en að sérstaklega skuli horfa til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt sé liðið frá dvalartíma, fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og annarra atriða í því sambandi auk umönnunarsjónarmiða.

Að því er varðar lengd lögmætrar dvalar segir í a-lið 19. gr. reglugerðarinnar að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skuli almennt ekki veitt nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en tvö ár, eða þá að önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Í b-lið kemur fram að hafi umsækjandi dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis sé dvalarleyfi almennt ekki veitt vegna sérstakra tengsla nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Samkvæmt d-lið skal m.a. horfa til fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og fjölskyldustærðar, fjölskylduaðstæðna og skyldleika. Líta beri til þess hvort umönnunarsjónarmið, félagsleg og menningarleg tengsl styðji umsókn á grundvelli fjölskyldutengsla. Vegna umönnunarsjónarmiða skal horft til þess hvort umsækjandi sé háður einhverjum hérlendis, sem er tengdur honum fjölskylduböndum, eða hvort aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður, sbr. e-lið 19. gr. reglugerðarinnar.

Líkt og áður greinir var kærandi með umsókn sína um alþjóðlega vernd til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum á tímabilinu 4. september 2016 til 6. desember 2018. Þá var kærandi við meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd með útgefið bráðabirgðadvalarleyfi samkvæmt 77. gr. laga um útlendinga á tímabilinu 26. júní 2017 til 16. mars 2019. Til sérstakra tengsla við landið samkvæmt 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga geta hins vegar ekki talist þau tengsl sem útlendingur myndar við dvöl hér á landi samkvæmt 77. gr. laganna, sbr. 5. mgr. 78. gr. Kærandi hefur því ekki myndað tengsl við landið á grundvelli dvalar samkvæmt útgefnu dvalarleyfi. Kemur þá til skoðunar hvort önnur tengsl kæranda við landið séu mjög sterk, sbr. a-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga og fjölskyldutengsl kæranda við landið, sbr. d-lið síðastnefnds ákvæðis. Í dvalarleyfisumsókn kæranda, dags. 20. maí 2020, vísar kærandi til þess stjúpforeldrar hans hafi flutt til Íslands árið 2018 og séu búsett hér á landi. Hann hafi alist upp hjá stjúpforeldrum sínum en hann hafi verið í kringum fjögurra ára aldur þegar stjúpfaðir hans hafi tekið hann að sér. Hafi stjúpfaðir hans fengið stöðu flóttamanns á Ítalíu árið 2012 og hafi kærandi sameinast stjúpföður sínum þar í landi. Í umsókn er vísað til þess að kærandi hafi starfað hjá [...] í Keflavík. Þá kemur fram í fylgigögnum með greinargerð að kærandi hafi æft júdó hjá [...] síðan hann kom til landsins.

Við meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd kom kærandi til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. dagana 21. september 2016 og 14. desember 2017. Í viðtali, dags. 21. september 2016, greindi kærandi frá því að stjúpmóðir sín í Pakistan hafi komið honum úr landi með aðstoð manns, svokallaðs „umboðsmanns“. Umræddur maður hafi farið með hann á búgarð á Ítalíu þar sem hann hafi þvingað hann til að vinna á búgörðum og þar hafi hann verið í langan tíma. Viti hann engin frekari deili á þeim manni en hann hafi talað pashto mjög vel. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 14. desember 2017, vísaði kærandi til þess að faðir sinn hafi flutt til heimahéraðs síns í byrjun 2013 og ljúki þætti hans í máli kæranda þar. Var kærandi beðinn um að lýsa fjölskyldu sinni í heimaríki og svaraði kærandi því til að hann ætti föður og tvær systur, en móðir hans hefði látist árið 2011. Aðspurður hvort hann vissi hvar faðir hans væri staddur svaraði kærandi að hann hefði ekki hugmynd. Honum hefði hins vegar verið tjáð að stjúpmóðir sín hefði gifst aftur. Aðspurður hvort kærandi hefði einhver tengsl við Ísland eða önnur ríki innan Schengen-svæðisins svaraði kærandi neitandi en kvaðst eiga vini hér á landi.

Í áðurnefndum úrskurði kærunefndar nr. 534/2018, dags. 6. desember 2018, var það mat nefndarinnar að framburður kæranda væri ótrúverðugur að verulegu eða öllu leyti og yrði því ekki byggt á honum í málinu, að frátöldum framburði kæranda af ástæðum flótta í viðtali hjá kærunefnd, þ.e.a.s. að hann óttist ekki ofsóknir í heimaríki heldur að hann hafi farið þaðan í leit að betra lífi. Þann 14. desember 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar. Þar kom kærandi með nýja málsástæðu þess efnis að maður að nafni [...] væri stjúpfaðir sinn. Árið 2004 hafi [...] kvænst móður kæranda en hún hafi árið 2008 látist af barnsförum við fæðingu tvíbura. Árið 2008 hafi [...] gifst annarri konu sem hafi átt dóttur að nafni [...], sú kona hafi látist árið 2007 úr krabbameini og hafi [...] því tekið [...] að sér. Þá teldi hann að [...] væri stjúpsystir sín. Með úrskurði kærunefndar nr. 45/2019, dags. 31. janúar 2019, var beiðni kæranda um endurupptöku hafnað. Í úrskurðinum kemur m.a. fram að framlögð gögn, þ.e. fjölskylduvottorð, ættartal og fæðingarvottorð, drægju enn frekar úr trúverðugleika frásagnar kæranda enda væru gögnin í engu samræmi við frásögn kæranda hjá kærunefnd eða fyrri frásagnir hans hjá íslenskum og sænskum stjórnvöldum.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að sú málsástæða kæranda að [...] sé stjúpfaðir hans sé ótrúverðug og verður því ekki byggt á henni í málinu. Þar að auki bendir kærunefnd á að [...] er með umsókn sína um alþjóðlega vernd til meðferðar hjá stjórnvöldum og dvelur því ekki hér á landi samkvæmt útgefnu dvalarleyfi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga. Myndu tengslin, væru þau lögð til grundvallar, því engu breyta í málinu. Að sama skapi eru tengsl kæranda við meinta stjúpmóður og systkini mjög ótrúverðug, sbr. úrskurð kærunefndar nr. 45/2019. Í samræmi við fyrra mat kærunefndar í málum kæranda, er fram kemur í úrskurðum nefndarinnar nr. 534/2018 og 45/2019, er það því mat kærunefndar að málsástæða kæranda um hin meintu fjölskyldutengsl hér á landi séu að öllu leyti ótrúverðug. Þá er það mat kærunefndar að í ljósi trúverðugleikamats kærunefndar á frásögnum kæranda um fjölskylduhagi sína í heimaríki og hér á landi verði ekki lagt til grundvallar að sérstök umönnunarsjónarmið séu til staðar í málinu. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 19. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.  

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Gunnar Páll Baldvinsson                              Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta