Hoppa yfir valmynd
24. maí 2019 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 11/2018

Hinn 7. maí 2019 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 11/2018:

 

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmáls nr. S-60/2018:

Ákæruvaldið

gegn

Nils Vjaksa

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

  1. Með erindi, dagsettu 12. desember 2018, fór Nils Vjaksa þess á leit að héraðsdómsmálið nr. S-60/2018, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjaness 15. mars 2018, yrði endurupptekið. Þá óskar endurupptökubeiðandi þess að Sigurður Freyr Sigurðsson, lögmaður, verði skipaður talsmaður sinn og að kostnaður vegna endurupptökumálsins verði greiddur úr ríkissjóði.
  2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Gizur Bergsteinsson og Þórdís Ingadóttir.

    II. Málsatvik

  3. Með tveimur ákærum héraðssaksóknara, hinni fyrri 30. janúar 2018 og hinni síðari 9. febrúar sama ár, var endurupptökubeiðanda gefið að sök að hafa framið ýmis hegningar-, umferðar-, lögreglu- og fíkniefnalagabrot.
  4. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness þann 15. mars 2018 var endurupptökubeiðandi sakfelldur fyrir margvísleg lögbrot og gert að sæta fangelsi í 12 mánuði. Til frádráttar refsingunni kom gæsluvarðhald sem hann hafði sætt frá 6. desember 2017 að fullri dagtölu. Þá var endurupptökubeiðandi sviptur ökurétti í tvö ár frá uppkvaðningu dómsins að telja. Upptæk voru gerð til ríkissjóðs 45,94 g af amfetamíni, 29,76 g af metamfetamíni og 5,43 g af maríhúana.

    III. Grundvöllur beiðni

  5. Endurupptökubeiðandi byggir á því að hann hafi verið sakfelldur fyrir mun meira brot en hann framdi samkvæmt 2. tölulið VI. kafla ákærunnar frá 9. febrúar 2018 en framangreindur töluliður er svohljóðandi:

    „Fyrir peningaþvætti en hylmingu til vara, með því að hafa um nokkurt skeið og fram til þess tíma sem greinir í lið VI. 1, tekið við og haft í vörslum sínum eftirgreinda muni sem lögreglan fann í bifreið ákærða […]. Munum þessum hafði verið stolið í innbrotum víða um höfuðborgarsvæðið og ákærða hlaut að vera ljóst að þeirra hafi verið aflað með refsiverðum hætti.“

    Í kjölfarið hafi nokkrir munir verið taldir upp í ákærunni, þ.m.t. gullitað armbandsúr af gerðinni Michael Kors.

  6. Endurupptökubeiðandi játaði sök samkvæmt báðum ákærum við meðferð málsins í héraðsdómi. Þá samþykkti hann einnig upptöku fíkniefna, sviptingu ökuréttar og greiðslu sakarkostnaðar. Í héraðsdómi kemur fram að endurupptökubeiðandi hafi hafnað kröfu ákæruvalds um upptöku á erlendum gjaldeyri sem hann kvað ekki vera afrakstur brotastarfsemi. Ákæruvaldið hafi því fallið frá kröfu um upptöku gjaldeyrisins.
  7. Endurupptökubeiðandi lýsir því að hann hafi ekki vitað nákvæmlega hvað hann var að játa og mögulegar afleiðingar þess varðandi að endurheimta haldlagða muni fyrr en nokkrum mánuðum síðar, þegar hann hafði samband við lögmann sinn í því skyni að fá aðstoð hans við að endurheimta það reiðufé og þá muni sem voru haldlagðir í þágu rannsóknar málsins.
  8. Endurupptökubeiðandi kveðst hafa keypt áðurnefnt armbandsúr í verslun Frank Michelsen og leggi fram gögn, reikning og greiðslukvittun, sem hann telur styðja það. Af þessum sökum hafi hann verið réttur eigandi armbandsúrsins og því hafi ekki verið tilefni til þess að leggja hald á muninn og hafi hann ranglega játað peningaþvætti samkvæmt framangreindum ákærulið er varðar umrætt armbandsúr.
  9. Telur endurupptökubeiðandi að líklegasta skýring þess að hann hafi játað brotið sé sú að hann hafi notið aðstoðar túlks þegar hann játaði sök en túlkurinn hafi verið frá Rússlandi á meðan endurupptökubeiðandi sé lettneskur.
  10. Þegar endurupptökubeiðanda hafi orðið ljós mistök sín þá hafi lögmaður hans haft samband við fulltrúa ákæruvalds og óskað eftir því að fá armbandsúrið afhent. Þeirri ósk hafi verið hafnað og því eigi endurupptökubeiðandi ekki annan kost í stöðunni en að óska eftir endurupptöku á málinu.
  11. Samkvæmt framangreindu telur endurupptökubeiðandi að skilyrði a- og c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála séu uppfyllt.

    IV. Niðurstaða

  12. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIV. kafla laga um meðferð sakamála. Í 228. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 228. gr. er fullnægt.
  13. Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:
    1. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
    2. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
    3. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
    4. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

    Til að fallist verði á endurupptöku nægir að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.

  14. Í 3. mgr. 229. gr. laga um meðferð sakamála segir að ef beiðni um endurupptöku er bersýnilega ekki á rökum reist hafni endurupptökunefnd henni þegar í stað.
  15. Fyrir liggur að endurupptökubeiðanda var gerð refsing með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-60/2018, sem kveðinn var upp 15. mars 2018. Sem fyrr greinir var endurupptökubeiðandi dæmdur til að sæta fangelsi í 12 mánuði auk þess sem tiltekin fíkniefni, sem höfðu verið í hans vörslum, voru gerð upptæk með dómi.
  16. Því til stuðnings að skilyrði a-liðar 1. mgr. 228. gr. sé uppfyllt byggir endurupptökubeiðandi á því að hann hafi nú lagt fram gögn sem sanni að hann hafi verið eigandi armbandsúrsins sem honum var gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum með refsiverðum hætti.
  17. Endurupptökunefnd telur að leiða megi líkur að því að með framlagningu fyrrgreinds reiknings og greiðslukvittunar, megi ætla að umrætt armbandsúr hafi í reynd verið í eigu endurupptökubeiðanda. Kemur þá til skoðunar hvort þetta atriði hefði skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu málsins ef það hefði komið fram áður en dómur gekk í því, sbr. a-lið 1. mgr. 228. gr., eða hvort þetta atriði feli í sér verulegan galla á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr.
  18. Í ákærum héraðssaksóknara 30. janúar og 9. febrúar 2018 var endurupptökubeiðanda gefið að sök margvísleg þjófnaðar-, umferðar- og fíkniefnabrot í alls 21 ákærulið. Í þremur ákæruliðanna var endurupptökubeiðandi ákærður fyrir að hafa í vörslum sínum alls 48 muni, sem lögreglan lagði hald á. Með vísan til fjölda ákæruliða og þeirra muna sem endurupptökubeiðandi hafði í vörslum sínum er að mati endurupptökunefndar ekki unnt að líta svo á að endurupptökubeiðandi hafi verið sakfelldur fyrir mun meira brot en það sem hann framdi þótt hann kunni að hafa verið ranglega sakfelldur fyrir að hafa í vörslum sínum umrætt armbandsúr.
  19. Athygli endurupptökubeiðanda er vakin á því að ekki fæst séð að ákæruvaldið hafi gert kröfu um að endurupptökubeiðandi yrði látinn sæta upptöku á þeim munum sem lögregla hafði lagt hald á við rannsókn málsins. Þá hefur héraðsdómur ekki sérstaklega fjallað um þennan þátt málsins. Í dómsorði er endurupptökubeiðanda einungis gert að sæta upptöku á nánar tilteknu magni fíkniefna sem fundust í vörslum endurupptökubeiðanda og haldlögð voru af lögreglu. Hefur endurupptökubeiðanda því ekki verið gert að sæta upptöku á umræddum munum, þ.m.t. armbandsúri því sem hann telur sig ranglega hafa verið sakfelldan fyrir að hafa í vörslum sínum. Með vísan til framangreinds eru ekki forsendur til þess að fallast á beiðni endurupptökubeiðanda og er beiðninni því hafnað þegar í stað, sbr. 3. mgr. 229. gr. laga um meðferð sakamála.
  20. Lögmaður endurupptökubeiðanda, Sigurður Freyr Sigurðsson, var skipaður til að gæta réttar hans, sbr. 1. mgr. 230. gr. laga um meðferð sakamála. Kostnaður endurupptökubeiðanda samtals 75.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti verður felldur á ríkissjóð með vísan til 4. mgr. 231. gr. sömu laga.

 

Úrskurðarorð

Beiðni Nils Vjaksa um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. S-60/2018, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjaness 15. mars 2018, er hafnað. Þóknun lögmanns hans, Sigurðar Freys Sigurðssonar, 75.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

 

Haukur Örn Birgisson formaður

 

Gizur Bergsteinsson

 

Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta