Varnaræfingin Trident Juncture 2018 á Íslandi
Varnaræfing Atlantshafsbandalagsins, Trident Juncture 2018, verður haldin á Norður-Atlantshafi, í Noregi og á Íslandi í október og nóvember næstkomandi.
Um er að ræða stærstu varnaræfingu bandalagsins frá 2015. Í aðalæfingunni í Noregi, sem hefst 25. október og stendur til 7. nóvember, taka þátt um fjörutíu þúsund hermenn og borgaralegir sérfræðingar frá meira en þrjátíu aðildarríkjum bandalagsins og samstarfsríkjum, þar á meðal Svíþjóð og Finnlandi. Æfðar verða sameiginlegar varnir með vísan til fimmtu greinar Atlantshafssáttmálans.
Í aðdraganda aðalæfingarinnar í Noregi fer fram minni æfing hér á landi undir merkjum Trident Juncture 2018. Hún verður haldin þann 17. október í Sandvík, nærri Höfnum í Reykjanesbæ, og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. 400 manna bandarískt landgöngulið æfir lendingu í Sandvík en um 120 landgönguliðar verða fluttir með þyrlum á öryggissvæðið þar sem æfð verða viðbrögð við árás á stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands.
Sérsveit ríkislögreglustjóra tekur þátt í æfingunni en lögregla og Landhelgisgæsla sjá auk þess um að tryggja öryggi og framfylgja takmörkuðum lokunum á æfingasvæðinu. Ekki er búist við að röskun verði á flugumferð vegna æfingarinnar. Þá verður þess sérstaklega gætt að ekkert umhverfisrask verði.
Daginn fyrir æfinguna verður haldin minningarathöfn á einu af skipum Bandaríkjahers í tilefni þess að 75 ár eru liðin frá því að þáttaskil urðu í orrustunni um Atlantshaf og herir bandamanna náðu undirtökum. Við athöfnina verður þeirra minnst sem létu lífið í þessum átökum en þar á meðal var fjöldi Íslendinga.
Dagana 19.-20. október verður haldin í Reykjavík skipulagsráðstefna vegna aðalæfingarinnar í Noregi. Von er á um tíu herskipum frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku og Kanada hingað til lands með allt að sex þúsund sjóliða. Um leið verður efnt til svonefndrar vetraræfingar í Þjórsárdal með 400 landgönguliðum hvorn dag. Skipin halda svo til Noregs 21. október.
Samhliða Trident Juncture 2018 á Íslandi efna Landhelgisgæsla Íslands og danski sjóherinn til sérstakrar leitar- og björgunaræfingar en þessar stofnanir hafa haft með sér náið samstarf um árabil.
Til að tryggja gagnsæi hafa íslensk stjórnvöld tilkynnt um þann hluta Trident Juncture 2018 sem fram fer hérlendis til Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu ÖSE. Þá gefst fjölmiðlum kostur á að fylgjast með æfingunni og viðburðum henni tengdri.
Að lokinni aðalæfingu Trident Juncture 2018 í Noregi taka fulltrúar íslensk stjórnvalda þátt í svonefndri stjórnstöðvaræfingu í Stafangri í Noregi. Í þeim hópi verða meðal annarra sérfræðingar frá utanríkisráðuneytinu, Landhelgisgæslunni og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Í stjórnstöðvaræfingunni verður höfuðáherslan á netvarnir og almannavarnir.
Í upphaflegri útgáfu þessarar fréttar var gert ráð fyrir að lendingin í Sandvík yrði 16. október en viðburðinum hefur verið seinkað um einn dag.