Hoppa yfir valmynd
18. október 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Náin samvinna við Norðurlönd, Eystrasaltsríkin og Bretland: Vísindamálaráðherrar funda um rannsóknir og nýsköpun

Traust á vísindum, akademískt frelsi og áhrif tækniframfara voru meðal þess sem rætt var á fundi vísindamálaráðherra Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Bretlands í dag. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kynnti þar sjónarmið Íslands og hvatti til frekari samvinnu ríkjanna.

Markmið fundarins var að styrkja enn frekar vísinda- og nýsköpunarsamstarf ríkjanna níu en fyrirhugað er að sambærilegir fundir verði framvegis haldnir tvisvar á ári.

„Það er mikilvægt að við byggjum í sameiningu upp áreiðanlega innviði og öfluga lagaramma um rannsóknir og rannsóknargögn, sér í lagi í tengslum við vaxandi eftirspurn eftir opnum aðgangi að slíkum gögnum,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra en íslensk stjórnvöld hafa beitt sér í því undanfarin misseri samkvæmt gildandi stefnu vísinda- og tækniráðs.

Ráðherrarnir sem funduðu í dag tilheyra margir alþjóðlegum hópi vísindamálaráðherra sem fundað hafa þrisvar um málefni norðurslóða undir formerkjum ASM (e. Arctic Science Ministerial). Ísland og Japan stóðu sameiginlega að síðasta fundi þeirra sl. vor en afhentu Frökkum og Rússum keflið um helgina á Hringborði norðurslóða. Næsti fundur þess hóps er fyrirhugaður í Frakklandi fyrri hluta árs 2023.

„Samvinna vísindamálaráðherra heimsins er gríðarlega mikilvæg til þess að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir, ekki síst á norðurslóðum. Áhersla íslenskra stjórnvalda er á opna umræðu, gagnsæi og nýsköpun og á þeim sviðum finn ég mikinn hljómgrunn meðal annarra ráðherra eftir fundinn í dag. Ég vona að góð samvinna skapist milli vísindamálaráðherra í norðri því við höfum marga sameiginlega hagsmuni og gildi. Rödd okkar á alþjóðasviðinu er sterkari þegar við vinnum saman,“ sagði ráðherra.
  • Fulltrúar Frakka og Rússa taka við ábyrgð á skipulagningu næsta ASM fundar vísindamálaráðherra, af Íslendingum og Japönum. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
9. Nýsköpun og uppbygging
7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta