Hoppa yfir valmynd
12. mars 2024 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 223/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 12. mars 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 223/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23120109

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 25. desember 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Marokkó (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. desember 2023, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á beiðni hennar um dvalarleyfi á Íslandi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Samkvæmt framlögðu hjúskaparstöðuvottorði gengu kærandi og maki hennar í hjúskap [...] í Marokkó. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara 2. febrúar 2023. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. desember 2023, var umsókn kæranda synjað en ákvörðunin var móttekin af kæranda samdægurs. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að maki kæranda hefði á síðustu fimm árum hlotið dóm fyrir brot gegn ákvæðum XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var það enn fremur mat stofnunarinnar að synjun kæranda um veitingu dvalarleyfis fæli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda eða nánustu fjölskyldumeðlimum. Var umsókn kæranda því synjað á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Maki kæranda fer með umboð í málinu og kærði hann ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 25. desember 2023. Frekari fylgigögn voru lögð fram með tölvubréfum maka kæranda, dags. 10. og 25. janúar, og 4. og 5. febrúar 2024.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Hvorki kærandi né maki hennar lögðu fram sérstaka greinargerð vegna málsins. Í röksemdum með kæru, dags. 25. desember 2023, kemur fram að maki kæranda sé ábyrgur íslenskur ríkisborgari sem hafi dvalið hér á landi frá árinu 2005, greitt skatta, kennt [...] og hjálpað íslenskum námsmönnum á sinni vegferð. Með tölvubréfi, dags. 5. febrúar 2024, vísaði maki kæranda til heilsufars síns og óskaði þess að meðferð málsins yrði hraðað með vísan til mannúðarsjónarmiða. Hann sé mjög veikur, með [...] sem valdi [...] og [...]. Áföll og takmörkuð meðvitund vegna [...] geti leitt til andláts maka kæranda, enda búi hann einn og hafi enga aðstoð. Maki kæranda þurfi því að hafa kæranda nálægt sér á þessum erfiðu tímum.

Á kærustigi voru lögð fram gögn vegna heilsufars maka kæranda. Í læknisvottorði heimilislæknis, dags. [...], kemur fram að mikið álag hafi verið á honum, hann glími m.a. við [...], hafi fundið fyrir [...] og [...] og væri það mat heimilislæknis að synjun á dvalarleyfi maka hans hafi marktæk neikvæð áhrif á heilsufar hans, en hann hafi þörf fyrir stuðning og sameiningu við maka sinn. Í læknisvottorði sérfræðilæknis, dags. [...], kemur fram að maki kæranda sé með [...] og í fullri [...]. Hann sé í eftirliti á göngudeild [...] á Landspítala, en hafi ekki náð markmiðum um [...]. Vísað er til hjúskapar kæranda og maka hennar, og tekið fram að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi valdið maka kæranda miklu uppnámi og auknum heilsufarsvandræðum, þ.m.t. [...] og [...]. Hann hafi þurft að nota svefnlyf en þó getað haldið fullu starfi. Í vottorði sálfræðings, dags. [...], kemur m.a. fram að maki kæranda sé að jafna sig á erfiðum skilnaði og að hafa fengið niðurstöðu úr DNA-prófi sem hafi leitt í ljós að hann væri ekki kynfaðir barns sem hann taldi sitt. Þá hafi hann hlotið dóm fyrir að leggja hendur á fyrri maka sinn og uni þeim dómi. Þó telji hann ásakanir fyrrum maka síns um ofbeldi orðum auknar og spenna á milli þeirra verið mikil á meðan hjúskapnum varði. Spennan hafi nú minnkað, og hafi þau samvinnu um umgengni við barnið. Maki kæranda hafi nú gift sig að nýju en umsókn kæranda um dvalarleyfi verið hafnað sem hafi verið mikil vonbrigði fyrir maka kæranda. Hann hafi vanrækt sjálfan sig og hafi miklar áhyggjur af maka sínum og sambandi þeirra. Er það mat sálfræðingsins að maki kæranda hafi einkenni alvarlegs [...] og [...].

Meðal fylgigagna sem lögð voru fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun er ódagsett bréf, undirritað af kæranda, sem fjallar m.a. um tengsl kæranda og maka hennar. Í bréfinu vísar kærandi til fyrri skilnaðar maka hennar og kveðst hún vera meðvituð um sakamál kæranda frá [...]. Hún kveðst meðvituð um sína ábyrgð og þá ákvörðun sem hún tók með því að ganga í hjúskap.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er fjallað um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Í 70. gr. laganna er fjallað sérstaklega um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 56/2023, eru dvalarleyfi skv. 70.-72. gr. ekki veitt ef sá fjölskyldumeðlimur sem umsókn byggist á hefur á síðustu fimm árum hlotið dóm eða verið látinn sæta öryggisráðstöfunum fyrir brot á ákvæðum XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga, eða 232. gr., 232. gr. a og 233. gr. b sömu laga. Dvalarleyfi skv. 70. gr. verður heldur ekki veitt ef sá fjölskyldumeðlimur sem umsókn byggist á hefur hlotið dóm eða verið látinn sæta öryggisráðstöfunum fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga og brotið beindist gegn maka. Þá verður dvalarleyfi skv. 71. gr. ekki veitt ef sá fjölskyldumeðlimur sem umsókn byggist á eða maki hans hefur hlotið dóm eða verið látinn sæta öryggisráðstöfunum fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga og þolandi var yngri en 18 ára. Þrátt fyrir framangreint er heimilt að veita dvalarleyfi í umræddum tilvikum ef synjun felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart umsækjanda eða þess fjölskyldumeðlims sem umsókn byggist á.

Ákvæðið tók nokkrum breytingum með lögum nr. 56/2023 og var m.a. útvíkkað svo það næði til brota gegn nálgunarbanni eða brottvísun af heimili, umsáturseinelti og stórfelldra ærumeiðinga í samskiptum nákominna, sbr. 232. gr., 232. gr. a og 233. gr. b almennra hegningarlaga. Ákvæðið var einnig rýmkað gagnvart kynferðisbrotum gegn börnum, og manndrápum gegn fyrri maka.

Í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a.:

Ákvæðinu er fyrst og fremst ætlað að vera stoð í baráttunni gegn mansali, heimilisofbeldi og öðrum alvarlegum brotum og á sér fyrirmynd m.a. í dönskum og norskum lögum. […] Reynslan hefur sýnt að öðru hverju koma upp tilvik þar sem aðalhvati umsækjanda fyrir að ganga í hjúskap með aðila búsettum hér á landi er að eignast möguleika á bættum lífskjörum fyrir sig og ef til vill börn sín. Í sumum tilvikum verða hinir sömu einstaklingar fórnarlömb ofbeldis og sæta misnotkun á heimilinu. Oftast er þá um að ræða tilvik þar sem umsækjandi er kona en karlkyns maki er búsettur hér á landi. Þegar fyrir liggur vitneskja um að nánasti aðstandandi hér á landi hefur verið dæmdur fyrir brot á ákvæðum XXI.–XXIV. kafla almennra hegningarlaga á síðustu fimm árum þykir ástæða til að ætla að umsækjandi geti vegna þeirra brota verið í sérstakri hættu á að verða sjálfur fyrir ofbeldi eða sæta misnotkun af hálfu aðstandandans. Á hinn bóginn er ljóst að slík synjun getur í einstökum tilvikum verið íþyngjandi. Er því lagt til að ákvæðið feli jafnframt í sér þann varnagla að ekki skuli synja umsóknar um dvalarleyfi ef synjunin mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart þeim sem brotið framdi eða nánustu ættingjum hans. Við matið verður m.a. að taka mið af því hvers eðlis og hversu alvarlegt brotið er, gegn hverjum það beindist og hvort um ítrekuð brot sé að ræða. Ef brot var ekki alvarlegt, beindist ekki gegn heimilisfólki og hefur ekki verið ítrekað yrði litið svo á að synjunin mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu ættingjum hans. Þá verður að gera greinarmun á þeim málum þar sem umsækjandi hefur búið í sínu heimaríki með aðstandanda og þeir vilja flytjast saman til Íslands og þeim tilvikum þar sem einstaklingar með ofbeldisferil vilja stofna nýja fjölskyldu með maka sem þeir hafa ekki búið með áður. Ef um er að ræða sameiningu fjölskyldufólks, sem áður hefur búið saman um nokkurt skeið, mundi skilyrðið um ósanngjarna ráðstöfun oftast vera talið fyrir hendi. Þá þarf að taka mið af því hvort viðkomandi umsækjandi um dvalarleyfi sé eða hafi verið búsettur hér á landi þegar til kynna þeirra var stofnað sem hjúskapur eða sambúð byggist á.

Þá kemur einnig fram í athugasemdum með breytingalögunum að með ákvæðinu séu íslensk stjórnvöld að gæta að jákvæðum skyldum sínum til þess að vernda einstaklinga gegn alvarlegum brotum í nánum samböndum. Taka verður mið af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem m.a. er ætlað að vernda friðhelgi fjölskyldulífs. Takmarkanir á slíkum réttindum verða að vera reistar á skýrri lagaheimild, stefna að lögmætu markmiði, og ekki ganga lengra en nauðsynlegt sé svo að markmiðið náist. Hafa íslensk stjórnvöld því gert tilteknar takmarkanir á ákvæðinu sem lúta m.a. að því hvaða brot falla undir 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, til hversu langs tíma þau geta haft áhrif, og loks heimild til þess að veita dvalarleyfi ef synjun felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart umsækjanda eða fjölskyldumeðlimi sem umsókn byggist á.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness nr. [...], dags. [...]2020, var maki kæranda dæmdur í sjö mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. b og 1. sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga en ákvæðin fjalla um ofbeldi, og síðan stórfellt ofbeldi í nánum samböndum. Samkvæmt framangreindu hefur maki kæranda því hlotið dóm fyrir brot á ákvæðum XXI.-XXIV. kafla almennra hegningarlaga og kemur þá til skoðunar hvort synjun á umsókn kæranda um dvalarleyfi feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda eða maka hennar. Við það mat þarf að líta til atriða sem fram koma í athugasemdum með 2. mgr. 69. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga. Samkvæmt 1. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er dómur yfir maka kæranda bindandi um úrslit þess sakarefnis sem hann var dæmdur fyrir og nær valdsvið stjórnvalda ekki til endurskoðunar á sönnunar á þeim atvikum þar sem þar er slegið föstum. 

Fram kemur í dóminum að maki kæranda hafi verið fundinn sekur um brot gegn ákvæðum 218. gr. b. almennra hegningarlaga alls fjórum sinnum, á tímabilinu mars 2017 til maí 2018. Þar af var eitt stórfellt ofbeldisbrot gegn þáverandi maka, sbr. 2. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga. Við heimfærslu síðastnefnds brots til refsiákvæða kom m.a. fram að tekið væri mið af grófleika verknaðar og verknaðaraðferð, þegar ákærði hafi komið aftan að kæranda og slegið hana í höfuðið með hörðu og brothættu áhaldi. Við ákvörðun refsinga var m.a. litið til þess að brot ákærða gegn brotaþola voru ítrekuð, þau beindust gegn eiginkonu hans sem var háð honum um flesta hluti og í erfiðri félagslegri stöðu. Þá kom einnig fram að þau byggju á sameiginlegu heimili, og ættu von á barni saman. Var refsing ákærða því skilorðsbundin að öllu leyti.

Samkvæmt framangreindu voru brot maka kæranda ítrekuð, alvarlegs eðlis, og beindust gegn þáverandi maka hans á sameiginlegum heimilum þeirra, sbr. 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi og maki hennar hafi búið saman. Þvert á móti er um að ræða nýja fjölskyldu einstaklings með ofbeldisferil í skilningi athugasemda við 2. mgr. 69. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Enn fremur kemur fram í umræddum dómi Héraðsdóms Reykjaness að ákærði, þ.e. maki kæranda, og brotaþoli hafi gift sig í Marokkó árið 2014 eða 2015, og brotaþoli flutt til Íslands í nóvember 2016. Brotaþoli hafi verið mjög einangruð félagslega og í erfiðri stöðu, enda háð ákærða um nánast alla hluti, þar á meðal um heimili sitt og dvalarleyfi. Miðað við lýsingar í ákæru hófust ofbeldisbrot ákærða gegn þáverandi maka hans um fjórum mánuðum eftir að hún fluttist til landsins. Líkindi eru með aðstæðum kæranda og fyrrverandi eiginkonu maka kæranda. Kærandi er einnig ríkisborgari Marokkó, nokkur aldursmunur er á milli kæranda og maka hennar, og þau hafa ekki haldið heimili saman áður.

Af gögnum málsins má ráða að maki kæranda glími við heilsufarsbresti, bæði líkamlega og andlega og að hann telji synjun um útgáfu dvalarleyfis fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum. Kærunefnd hefur nú farið yfir gögn málsins, þ.m.t. heilsufarsgögn maka kæranda og áðurnefndan dóm Héraðsdóm Reykjaness. Maki kæranda er íslenskur ríkisborgari og hefur aðgang að heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð sem hann kann að þurfa á að halda vegna veikinda sinna. Verður ekki séð að synjun á veitingu dvalarleyfis til handa kæranda hafi slík áhrif á heilsu maka kæranda að það teljist ósanngjörn ráðstöfun að synja umsókn hennar um dvalarleyfi hér á landi. Við það mat horfir kærunefnd einkum til þeirra sjónarmiða sem löggjafinn lagði til grundvallar við setningu 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga og sem fram koma í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi með lögum um útlendinga, einkum hagsmuna kæranda af því að verða ekki þolandi ofbeldis í nánu sambandi.

Að öllu framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar, um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, með vísan til 2. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta