Aðgerðir í málefnum íslenskrar tungu kynntar í Samráðsgátt
Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu er nú til kynningar og umsagnar í Samráðsgátt. Alls er um að ræða 18 aðgerðir sem mótaðar eru í samstarfi fimm ráðuneyta, en markmið þeirra er að forgangsraða verkefnum stjórnvalda árin 2023-2026 þegar kemur að verndun og þróun tungumálsins.
„Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna kemur fram að lögð sé áhersla á að styðja við íslenska tungu og þá er horft til þess að styðja við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra. Ég er mjög ánægð með áherslur í þessari aðgerðaáætlun sem hér er lögð fram, því þær eru í takti við það sem við lögðum upp með við myndum ríkisstjórnar. Ég er sannfærð um að aukinn stuðningur við öll þau sem hingað flytjast og hér vilja búa skilar sér í auknum lífsgæðum allra,“ segir forsætisráðherra.
„Við þurfum mikla viðhorfsbreytingu gagnvart tungumálinu okkar - íslenskunni sjálfri. Við þurfum í sameiningu að vinda ofan af þeim doða og misskildu þjónustulund sem hefur orðið til þess að enska er álitin sjálfsagt mál í okkar samfélagi. Við eigum þetta tungumál – þetta fjöregg, það er þáttur í sjálfsmynd okkar, tjáningu og söguskilningi. Með þessum aðgerðum skerpum við á forgangsröðun í þágu íslenskrar tungu, ég hvet alla til þess að kynna sér málið,“ segir menningar- og viðskiptaráðherra.
Styðja við íslenska tungu
Ráðherranefnd um íslenska tungu var sett á laggirnar í nóvember 2022 að tillögu forsætisráðherra. Hlutverk nefndarinnar er að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Auk forsætisráðherra eiga menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fast sæti í nefndinni.
Samhliða fundum nefndarinnar hefur verið unnið að mótun aðgerða sem tengjast málefnum íslenskrar tungu, með hliðsjón af endurskoðun íslenskrar málstefnu sem fram fór á vettvangi íslenskrar málnefndar 2020-2021 og framvindu aðgerða í þingsályktun nr. 36/149, um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi, sem samþykkt var í júní 2019.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu. Þar er lögð sérstök áhersla á að börn og ungmenni nýti tungumálið og á stuðning við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra. Íslenskan sé dýrmæt auðlind sem á að vera skapandi og frjór hluti af umhverfinu. Tekið er sérstaklega fram að huga þurfi að íslenskukennslu barna og ungmenna, fullorðinna innflytjenda og íslenskunema til að mæta breyttum aðstæðum í samfélaginu. Þá á áfram að vinna að því að styrkja stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi með áherslu á máltækni.
Meðal lykilaðgerða í áætluninni eru:
- Starfstengt íslenskunám fyrir innflytjendur samhliða vinnu.
- Bætt gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur.
- Innleiðing rafrænna stöðuprófa í íslensku.
- Sameiginlegt fjarnám í hagnýtri íslensku sem öðru máli.
- Íslenska handa öllum - gerðar verði kröfur um að innflytjendur öðlist grunnfærni í íslensku og hvatar til þess efldir.
- Efling íslenskuhæfni starfsfólks í leik- og grunnskólum og frístundastarfi.
- Vefgátt fyrir miðlun rafræns námsefnis fyrir öll skólastig.
- Samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu við börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn með sérstakri áherslu á íslensku sem annað mál.
- Reglulegar mælingar á viðhorfi til tungumálsins.
Aðgerðaáætlunin hefur tengsl við mörg áhersluverkefni stjórnvalda sem unnið er að í samstarfi ráðuneyta og stofnana, þar á meðal stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks, menntastefnu til 2030, heildarendurskoðun framhaldsfræðslu og aðgerðaáætlun um ferðaþjónustu til 2030.
Umsagnarfrestur í Samráðsgátt er til og með 10. júlí.