Hoppa yfir valmynd
12. september 2014 Forsætisráðuneytið

552/2014. Úrskurður frá 9. september 2014

Úrskurður

Hinn 9. september 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 552/2014 í máli ÚNU 13110006.

Kæra

Þann 15. nóvember 2013 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A, f.h. B vegna synjunar Reykjavíkurborgar um afhendingu gagna úr útboði nr. 13087. Nánar tiltekið er kærð sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að afmá upplýsingar um einingarverð og sundurliðaðar fjárhæðir áður en umbeðin gögn voru afhent kæranda, en það eru annars vegar gögn sem C lagði fram og hins vegar undirritaður verksamningur. Í kærunni segir m.a.: 

„Þann 23.08.2013 var [B] beðið um að taka þátt í verðfyrirspurn vegna aðalskoðunar leiksvæða fyrir Reykjavíkurborg fyrir árið 2013. Verðfyrirspurnargögnin voru send í tölvupósti sama dag. Gögnin voru uppbyggð líkt og hefðbundin útboðsgögn, fyrirspurnartími var tilgreindur og svarfrestur auk þess sem það var sérstök opnun tilboða. Tveir aðilar hafa faggildingu á þessu sviði, [C] og [B]. Báðir aðilar buðu í verkið enda hörð samkeppni á þessum markaði þar sem annað fyrirtækið hefur verið á markaði síðan 2005 en hitt frá árinu 2012. […]
Í ljósi þess að [C] á Íslandi er markaðsráðandi fyrirtæki og bauð ekki nema 51.7% af kostnaðaráætlun óskaði [B] eftir því þann 28.10.2013 að Innkaupadeild Reykjavíkurborgar myndi afhenda stofunni afrit af útfylltri magnskrá [C] frá opnunardegi.Þann 1.11.2013 barst svar frá Innkaupadeild Reykjavíkurborgar og var hluti gagnanna afhentur þ.e. afrit af sundurliðuðu tilboðsblaði þar sem búið var að afmá einingarverð og samtölur úr gögnunum.[…]
Innkaupadeild Reykjavíkurborgar hefur veitt [B] aðgang að tilboðsskrá og samningi milli [C] og Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar. Í báðum þessum gögnum hefur Innkaupadeildin afmáð einingarverð úr gögnum. Óskað er eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál skeri úr um það hvort Innkaupadeild Reykjavíkurborgar beri að afhenda [B] fullnaðargögn eins og beðið er um.“

Málsmeðferð

Kæran var send Reykjavíkurborg til athugasemda með bréfi, dags. 26. nóvember 2013. Umsögn barst með bréfi, dags. 16. desember 2013. Í því segir m.a.:

„ […] hjá Reykjavíkurborg hefur verið gengið út frá því að beiðni [kæranda] grundvallist á ákvæði 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Á grundvelli 3. mgr. 14. gr. sömu laga var kæranda synjað um aðgang að þeim hluta málsgagna er innihalda upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni gagnaðila, B, sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari.
[…]
Kostnaður við framkvæmd þess verks sem verðfyrirspurnin lýtur að er að langmestum meirihluta vegna þjónustu en að litlum minnihluta vegna efniskostnaðar. Þau einingarverð sem gefin eru upp af aðilum í verðfyrirspurninni eru því þess eðlis að þau breytast ekki ört heldur haldast stöðug til nokkurs tíma. Verði kæranda, samkeppnisaðila [C], látnar í té upplýsingar um einingarverð mun honum unnt að miða síðari tilboð sín mjög nákvæmlega við einingarverð [C] og gera sér nákvæma grein fyrir því hvert svigrúm [C] er. Það getur jafnframt leitt til þess að kærandi komist í óeðlilega yfirburðastöðu þegar hann tekur þátt í útboðum þar sem keppt er við [C]. Umtalsverðir hagsmunir [C] standa því til þess að upplýsingar um einingarverð og samtölur fari leynt. Jafnframt er lögð áhersla á að sú meginregla gildir við opinber innkaup að kaupandi skuli gæta trúnaðar um upplýsingar sem hann fær frá bjóðendum, eftir því sem efni og eðli upplýsinganna gefur tilefni til, sbr. meðal annars 17. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007, 6. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 2004/18/EB frá 31. mars 2004 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga og 38. gr. innkaupareglna Reykjavíkurborgar frá 23. september 2010. Þær upplýsingar sem hér koma einkum til álita eru, meðal annars, ýmiss konar upplýsingar um fjárhagslega burði bjóðenda. 
[…]
Hafa verður í huga að heildarverðtilboð beggja fyrirtækjanna vegna verðfyrirspurnarinnar liggja fyrir og augljóst er að innkaupadeild Reykjavíkurborgar tók lægra tilboðinu […]. Skipta upplýsingar um einingarverð engu í mati á því hvort eðlilega hafi verið staðið að ákvörðun Reykjavíkurborgar um viðsemjanda. Kærandi hefur allar þær upplýsingar undir höndum sem honum eru nauðsynlegar til að veita [C] samkeppni þar sem möguleiki aðila á samkeppnismarkaði til að bjóða lægra verð markast ekki af því hvaða einingarverð hann býður heldur hvert heildarverð hans er. Ekki verður því séð að kærandi hafi málefnalegar ástæður fyrir því að óska eftir upplýsingum um einingarverð [C] í verðfyrirspurn nr. 13087.“

Umsögn Reykjavíkurborgar var send kæranda til athugasemda. Svar hans barst með bréfi, dags. 14. apríl 2014. Þar segir m.a.:

„Reykjavíkurborg byggir m.a. á því í umsögn sinni að synjun á beiðni um gögn byggi á því að um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni sé um að ræða sem sanngjarnt og eðlilegt sé að leynt fari. Það er mat [B] að einingatölur og samtölur úr umræddum gögnum geti vart talist falla undir skilgreiningu þess að teljast vera mikilvægir fjárhags- eða viðskiptahagsmunir. Því er mótmælt af hálfu [B] að synja beri um aðgang að umræddum upplýsingum á grundvelli þess að um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni sé að ræða. 
Þá byggir Reykjavíkurborg einnig á því í umsögn sinni að synjun á beiðni um gögn byggi á aldri upplýsinganna. Bendir [B] á þá staðreynd að aldur þeirra upplýsinga sem um ræðir er aðeins einn þáttur af mörgum sem litið er til þegar lagt er mat á það hvort takmarka eigi aðgang að upplýsingum, sbr. framangreint, en ekki grundvallarþáttur eins og Reykjavíkurborg virðist leggja upp með í umsögn sinni. Því er mótmælt af hálfu [B] að synja beri um aðgang að umræddum upplýsingum á grundvelli aldurs upplýsinganna. Þá kemur ennfremur fram í umsögn Reykjavíkurborgar að synjun á beiðni um gögn byggi á því að kostnaður við framkvæmd þess verks sem um ræðir sé að lang mestum meirihluta vegna þjónustu en ekki vegna efnis. 
[…]
Fullyrðing sú sem fram kemur í niðurlagi umsagnar Reykjavíkurborgar, um að [B] hafi allar þær upplýsingar undir höndum sem félaginu eru nauðsynlegar til að veita [C] samkeppni, á við engin rök að styðjast. Eins og leitt var líkum að í kæru [B] til úrskurðarnefndarinnar þá telur [B] ehf. að hugsanlega sé um að ræða brot gegn samkeppnislögum, þar sem mögulega hafi átt sér stað undirboð frá aðila sem teljast verður markaðsráðandi aðili á því sviði sem um ræðir. Til þess að [B]. geti lagt mat á samkeppnislega stöðu sína sem og lagt mat á það hvort ástæða sé til að aðhafast frekar í málinu, eru félaginu umbeðin gögn nauðsynleg.“

Úrskurðarnefndin ritaði [C] á Íslandi ehf. bréf, dags. 4. júní 2014, og óskaði þess að fyrirtækið lýsti afstöðu til þess hvort hafna bæri að veita kærendum aðgang að umbeðnum upplýsingum vegna fjárhags- eða viðskiptahagsmuna fyrirtækisins. Legðist fyrirtækið gegn því að veittur yrði aðgangur að umbeðnum upplýsingum yrði tekin afstaða til þess af hvaða ástæðum afhending þeirra gæti varðað mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækisins.

Samtök verslunar og þjónustu svöruðu, fyrir hönd [C] á Íslandi ehf., með bréfi dags. 16. júní 2014. Þar segir m.a.:

„Til að byrja með bendir [C] á að kærandi hefur nú þegar fengið afhent af hálfu Reykjavíkurborgar þau gögn sem fullnægjandi geta talist í máli þessu, þ.e. útboðsgögn ásamt samtölu tilboðs [C] í umrætt verk. Með öðrum orðum hafa kæranda verið veittar þær fjárhagsupplýsingar sem fullnægjandi geta talist til að tryggja aðhald með ráðstöfum á almannafé í máli þessu. Ekki verður séð að Reykjavíkurborg sé þ.a.l. heimilt að veita frekari sundurliðun á tilboði [C], þ.e. verð einstakra verkþátta eða einingarverð innan þess tilboðs, án þess að gengið sé með skaðlegum hætti gegn viðkvæmum fjárhags- og viðskiptahagsmunum [C], bæði er varðar mál þetta sem og almennt rekstur félagsins. Með því að veita umrædda samtölu tilboðsins er því tryggt að aðhald sé með því að almannafé sé ráðstafað á skynsaman og eðlilegan hátt. Með því að veita frekari aðgang að tilboði [C] er hins vegar gengið lengra og hætt við að upplýsingar verði nýttar í þeim tilgangi að skerða samkeppnisstöðu [C] enda er óumdeilt að kærandi í máli þessu er samkeppnisaðili [C] hvað varðar úttektir og eftirlit á leiksvæðum hér á landi. 
Þá bendir [C] á að tímasetning framkominnar beiðni orki verulega tvímælis. Eins og áður hefur komið fram þá var kæranda í kjölfar útboðsins, útboð sem fór fram árið 2012, veittur aðgangur að helstu gögnum málsins, þ.m.t. samtölu tilboðs [C]. Hins vegar var sú afhending gagna látin átölulaust af hálfu kæranda þar til nú þegar sá samningur sá sem komst á fyrir tilstuðlan útboðsins hefur runnið sitt skeið og samningi um frekara eftirlit á þessu sviði verður ekki komið á nema með nýju útboði. 
[…]
Þá bendir [C] á að félögin hafa bæði tekið þátt í sömu útboðum á þessu sviði, þ.e. varðandi eftirlit á leiksvæðum sveitarfélaga, og má ráða að tilboð kæranda í þeim útboðum hafi verið ansi á reiki varðandi kostnaðarþátt þeirra sem m.a. má hugsanlega rekja til bæði skorts á reynslu kæranda á þessu sviði sem og þekkingu á kostnaði einstakra verkþátta. Í þessu ljósi telur [C] að með því að afhenda kæranda einstaka kostnaðarþætti og einingarverð í rekstri [C] sé verið að veita kæranda upplýsingar umfram markmið upplýsingalaga og þar af leiðandi ekki í þágu þess að tryggja eftirlit og aðhald með ráðstöfun á almannafé. 

Að mati [C] er það einnig verulegum vafa undirorpið að markmið upplýsingalaga sé að veita samkeppnisaðila aðgang að tilteknum upplýsingum í þeim tilgangi einum að ná samkeppnislegu forskoti á samkeppnisaðila. [C] telur að nú þegar liggi fyrir hver sú upphæð er sem Reykjavíkurborg greiddi fyrir umrædda þjónustu samkvæmt útboði borgarinnar og hvaða verkþættir voru hluti að því boði og vægi þessara þátta. Telur [C] að aðgangur að upplýsingum umfram slíkt sé óumflýjanlega til þess fallinn að veita aðgang að viðskipta- og fjárhagsmálefnum félagsins sem almennt eru undanþegin aðgangi almennings og um leið samkeppnisaðilum.

[C] bendir á að tilboð í opinberu útboði eiga að taka mark af þeim kostnaði sem fellur á bjóðanda við að veita þá þjónustu sem leitast er eftir, þ.e. raunverulegum kostnaði við það verk. Að mati [C] er það því andstætt markmiði útboða að bjóðendur taki við tilboðsgerð tillit til kostnaðar samkeppnisaðila enda er með slíku tilboði sannarlega verið að veita bjóðendum þjónustu rangar upplýsingar um raunverulegan kostnað óháð gæðum þjónustunnar. Eins og að framan greinir er kærandi samkeppnisaðili [C] á markaði með umrædda þjónustu og ítrekast hér sú skoðun félagsins að með beiðni kæranda sé óskað eftir umbeðnum upplýsingum til að nýta við síðari útboð á þessu sviði. Því telur [C] að afhending á umbeðnum upplýsingum sé til þess fallinn að skaða fjárhags- og viðskiptahagsmuni félagsins og um leið skerða samkeppnisstöðu þess í útboðum þeim sem bæði félagið og kærandi munu taka þátt í. Benda [C] einnig á að með afhendingu umbeðinna upplýsinga er verið að veita kæranda innsýn inn í rekstur [C] en að sama skapi á [C] ekki rétt á sambærilegum upplýsingum frá kæranda.“

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. 

Niðurstaða

1.

Sú kæra sem mál þetta varðar lýtur að synjun Reykjavíkurborgar, dags. 1. nóvember 2013, á beiðni [B] um aðgang að gögnum úr útboði nr. 13087, þ.e. þeirri ákvörðun Reykjavíkurborgar að afmá upplýsingar um einingarverð og sundurliðaðar tölur áður en hún afhenti kæranda umbeðin gögn, en það eru annars vegar gögn sem [C] á Íslandi ehf. lagði fram og hins vegar undirritaður verksamningur. 

2.

Af hálfu [C] hefur verið bent á að „tímasetning framkominnar beiðni orki verulega tvímælis“. Kæranda hafi í kjölfar útboðs sem fór fram árið 2012 verið veittur aðgangur að helstu gögnum málsins, þ.m.t. samtölu tilboðs [C], en látið afhendinguna átölulausa þar til nú þegar sá samningur sem gerður hafi verið á grundvelli þess útboðs hafi runnið sitt skeið. 

Í 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er ákvæði um kærufrest. Segir að mál skv. 1. mgr. 20. gr. skuli borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem hafi farið fram á aðgang að gögnum hafi verið tilkynnt um ákvörðun. Sú ákvörðun Reykjavíkurborgar sem mál þetta varðar er dagsett 1. nóvember 2013. Kæra, dags. 15. nóvember 2013, barst nefndinni hinn 25. s.m. Hún telst því ekki vera of seint fram komin og eru því ekki efni til frekari umfjöllunar um þennan þátt málsins.

3.

Reykjavíkurborg hefur í fyrsta lagi vísað til þess að við opinber innkaup gildi sú meginregla að kaupandi skuli gæta trúnaðar um upplýsingar sem hann fái frá bjóðendum, eftir því sem efni og eðli upplýsinganna gefi tilefni til. Hefur verið vísað til 17. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007, 6. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/18/EB, frá 31. mars 2004, um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga. Einnig til 38. gr. innkaupareglna Reykjavíkurborgar frá 23. september 2010. Ákvæði 1. mgr. 17. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup er svohljóðandi:

 „Kaupanda er óheimilt að láta af hendi upplýsingar sem fyrirtæki hefur lagt fram sem trúnaðarupplýsingar. Til slíkra upplýsinga teljast einkum tækni- og viðskiptaleyndarmál auk þeirra atriða í tilboði sem leynt skulu fara.“ 

Sérstaklega er kveðið á um það í 3. mgr. að ákvæðið hafi „ekki áhrif á skyldu opinbers aðila til að leggja fram upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga. Af athugasemdum við ákvæðið, í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 84/2007, verður ráðið að 1. mgr. 17. gr. laganna feli í sér almennt þagnarskylduákvæði sem takmarki ekki rétt til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum. Verður synjun Reykjavíkurborgar á aðgangi að hinum umbeðnu upplýsingum því ekki byggð á 17. gr. laga nr. 84/2007. Þá hefur tilvísun til 6. gr. og 3. mgr. 29. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/18/EB frá 31. mars 2004, sbr. 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, ekki þýðingu við úrlausn málsins, enda er ákvæðið efnislega í 17. gr. laga nr. 84/2007. Með vísan til framangreinds verður ekki fallist á að Reykjavíkurborg hafi mátt synja kæranda um aðgang að hinum umbeðnu upplýsingum með vísan til laga nr. 84/2007 og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/18/EB. 

Í öðru lagi hefur verið vísað til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 1. mgr. hennar er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum hafi þau að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Þetta ákvæði hefur verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur einnig til þau tilvik þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur, eins og m.a. kemur fram í úrskurði hennar nr. A-532/2014, litið svo á að þátttakandi í útboði teljist „aðili máls“ í skilningi þessa ákvæðis þegar hann fer fram á að fá aðgang að útboðsgögnum, þ. á m. gögnum frá öðrum þátttakendum í útboði, sem verða til áður en til samninga er gengið við tiltekinn bjóðanda. Að hluta til urðu þau gögn, sem mál þetta lýtur að, til áður en gengið var til samninga um umrætt verkefni og kærandi bauð í verkið. Hann nýtur því réttar til aðgangs að umræddum gögnum samkvæmt ákvæði 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, að því marki sem hann takmarkast ekki af öðrum ákvæðum greinarinnar.

Í þriðja lagi hefur verið vísað til 9. gr. upplýsingalaga, en umbeðnar upplýsingar geti varðað miklu um viðskiptahagsmuni [C] á Íslandi ehf. og eigi að fara leynt. Ákvæði 9. gr. fela í sér takmörkun á upplýsingarétti almennings samkvæmt 5. gr. laganna. Samkvæmt henni er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varði tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Í 3. mgr. 5. gr. segir að eigi ákvæði þeirra greina aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Um rétt kæranda í máli þessu fer hins vegar sem fyrr segir að 14. gr. upplýsingalaga. Því verða takmarkanir á upplýsingarétti hans ekki reistar á ákvæðum 9. gr. heldur aðeins á 2. eða 3. mgr. 14. gr. þeirra. Eru því ekki efni til frekari umfjöllunar um málið út frá 3. mgr. 5. gr. og 9. gr. laganna.

4.

Samkvæmt framansögðu fer um rétt kæranda til aðgangs að þeim gögnum sem málið lýtur að að 14. gr. upplýsingalaga. Í 3. mgr. hennar segir að heimilt sé að takmarka aðgang að gögnum hafi þau jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæli með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðganginn. Vísað hefur verið til þess að hagsmunum samkeppnisaðila kæranda, þ.e. C á Íslandi ehf., yrði raskað ef kærandi fengi umbeðinn aðgang að gögnunum. Þarf því að taka afstöðu til þess hvort niðurstaða Reykjavíkurborgar eigi sér stoð í 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir gögnin. Þau eru annars vegar skjalið Aðalskoðun leiksvæða Reykjavíkur 2013 – verðfyrirspurn nr. 13087 – almennir skilmálar og verklýsing. Hins vegar verksamningur um aðalskoðun leiksvæða Reykjavíkur 2013. Með honum fylgir tilboðsblað C á Íslandi ehf. þar sem fram kemur heildartilboðsverð með virðisaukaskatti, kr. 6.589.000,-,  og tilboðsskrá með sundurliðun fjárhæða á eftirfarandi liði: a) grunnskólalóðir og leikskólalóðir b) leiksvæði c) samantekt á úttekt og d) samantekt. 
Í málum þar sem fjallað hefur verið um beiðnir um aðgang að einingaverði í tilboðum útboða aðila, er falla undir upplýsingalög, hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál lagt áherslu á hagsmuni þeirra sem taka þátt í slíkum útboðum af því að rétt sé staðið að framkvæmd þeirra. Þá standi almannahagsmunir til þess að veittur sé aðgangur að gögnum um ráðstöfun opinbers fjár, auk þess sem fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum og hafa í huga að upplýsingalög gilda um starfsemi hins opinbera. 

Þrátt fyrir þessi almennu sjónarmið verður, í hverju tilviki fyrir sig, að ákveða hvort takmarka beri aðgang á grundvelli upplýsingalaga. Eins og fram kemur í athugasemdum við 14. gr., í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012, skal þá einkum skoða hvort hætta sé á því að einkahagsmunir skaðist verði aðila veittur umbeðinn aðgangur. Í athugasemdunum kemur einnig fram að aðila verði ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni. 

Af þeim gögnum sem mál þetta varðar verður ekki ráðið að hagsmunum C á Íslandi ehf. sé hætta búin þótt kæranda verði veittur aðgangur að þeim. Í þeim eru engar upplýsingar um sambönd félagsins við viðskiptamenn þess, þau viðskiptakjör sem félagið nýtur, álagningu þess eða afkomu. Í ljósi þessa fellst nefndin ekki á að synja beri kæranda um aðgang að þeim gögnum er beiðni hans lýtur að. Reykjavíkurborg ber því bæði að afhenda kæranda skjalið Aðalskoðun leiksvæða Reykjavíkur 2013 – verðfyrirspurn nr. 13087 – almennir skilmálar og verklýsing og verksamning um aðalskoðun leiksvæða Reykjavíkur 2013, ásamt meðfylgjandi tilboðsblaði, án þess að upplýsingar um einstök atriði hafi áður verið máðar af þessum skjölum.

Úrskurðarorð:

Reykjavíkurborg ber að afhenda kæranda skjalið Aðalskoðun leiksvæða Reykjavíkur 2013 – verðfyrirspurn nr. 13087 – almennir skilmálar og verklýsing. Einnig ber henni að afhenda verksamning um aðalskoðun leiksvæða Reykjavíkur 2013 og meðfylgjandi tilboðsblað.    


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir          

Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta