Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 334/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 334/2019

Miðvikudaginn 15. janúar 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 6. ágúst 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. júlí 2019 um að synja kæranda um 50-60% styrk til kaupa á bifreið og afgreiðslu stofnunarinnar frá 31. júlí 2019 á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið með umsókn, móttekinni 19. júlí 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. júlí 2019, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að hún uppfyllti ekki skilyrði reglugerðar nr. 170/2009 um að kærandi eða annar heimilismaður hefði sjálfur ökuréttindi. Kærandi sótti um uppbót/styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 12. júlí 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. júlí 2019, var umsókn kæranda um uppbót til bifreiðakaupa samþykkt samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni tók Tryggingastofnun nýja ákvörðun í málinu, dags. 3. september 2019, þar sem umsókn kæranda um styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 var samþykkt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. ágúst 2019. Með bréfi, dags. 19. ágúst 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 3. september 2019, fór Tryggingastofnun ríkisins fram á frávísun málsins þar sem fallist hefði verið á að kærandi uppfyllti skilyrði styrks til bifreiðakaupa samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Frávísunarkrafa Tryggingastofnunar var kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. september 2019, og var óskað eftir afstöðu hennar til kröfunnar. Með bréfi, dags. 10. september 2019, fór kærandi fram á að fá hærri styrk. Með bréfi, dags. 13. september 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir efnislegri greinargerð Tryggingastofnunar. Með bréfi, dags. 4. október 2019, fór Tryggingastofnun fram á að úrskurðarnefndin myndi afmarka kæruefnið. Með bréfi, dags. 30. október 2019, fór úrskurðarnefnd velferðarmála fram á greinargerð Tryggingastofnunar vegna málsins. Með bréfi, dags. 8. nóvember 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. nóvember 2019. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 14. nóvember 2019, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. nóvember 2019. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 31. júlí 2019 um að greiða kæranda bifreiðastyrk að fjárhæð 360.000 kr. Farið sé fram á hærri styrk þar sem þessi fjárhæð hafi engin áhrif á að kærandi geti keypt sér bíl.

Kærandi sé ellilífeyrisþegi og fái knappar bætur. Hún hafi á árinu 2019 greinst með slagæðabólgu og við henni þurfi hún að taka inn Dekortin stera sem hafi leitt til þess að kærandi hafi byrjað að verða máttfarin og þurfi að notast við göngugrind. Kærandi verði að eiga bíl til að komast leiðar sinnar þar sem hún geti ekki tekið göngugrindina með sér í strætisvagn þar sem hún sé of þung.

Þá lýsir kærandi því að hún eigi það til að detta þegar hún ferðist gangandi eða í strætisvagni. Kærandi geti ekki keypt sér bíl fyrir 360.000 kr. og biðji því um að fá almennilegan styrk til bifreiðakaupa.

Í athugasemdum kæranda, dags. 10. september 2019, segir að 1.440.000 kr. styrkur Tryggingastofnunar sé of lágur til að kaupa nýjan bíl. Samkvæmt reglum Tryggingastofnunar megi ekki selja bifreið sem fengin sé frá stofnuninni innan fimm ára þannig að ef bíllinn myndi bila þá gæti kærandi þurft að sitja uppi með bilaðan bíl sem væri of dýrt fyrir hana að láta gera við. Með nýjum bíl geti hún verið örugg og eigi hún rétt á að fá að kaupa nýjan bíl eins og aðrir. Fyrir þennan pening geti hún ekki keypt nýjan bíl og þess vegna sé óskað eftir hærri styrk.

Í athugasemdum kæranda, dags. 14. nóvember 2019, kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar og óskað sé eftir nánari rökstuðningi þar sem hún þurfi hærri styrk en 1.440.000 kr.

Kærandi ítrekar það sem áður hafi komið fram um veikindi hennar og að hún þurfi á bifreið að halda til að geta sinnt daglegum athöfnum sínum. Kærandi fái hvorki góðan né nýjan bíl fyrir 1.440.000 kr. þar sem tekjur hennar séu það lágar. Það megi jafna því saman við að verið sé að sækja um sérútbúinn bíl vegna hreyfihömlunar. Kærandi biðji um að tekið verði tillit til þess hve lágar tekjur hennar séu í stað þess að taka tillit til þess hvort hún þurfi sérútbúinn bíl sem hún þurfi ekki. Það sé ljóst að kærandi sé mjög háð bíl og hann sé henni lífsnauðsynlegur.

Kærandi treysti sér ekki til að aka gömlum bíl og telji sig ekki örugga í slíkum bíl vegna sinnar heilsu og þá séu tekjur hennar þannig að hún gæti ekki staðið í hugsanlegum útgjöldum ef hún ætti gamlan bíl sem geti bilað.

Öruggast sé að kærandi fái nýjan bíl eða hærri styrk til bílakaupa svo að hún geti lagt stund á daglegar athafnir sínar og komist í búðir. Það sé henni lífsnauðsynlegt vegna hennar afkomumöguleika.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags. 31. júlí 2019.

Eftir yfirferð yfir kæru hafi verið ákveðið að afla frekari upplýsinga hjá Sjúkratryggingum Íslands. Samkvæmt upplýsingum þaðan þá uppfylli kærandi skilyrði styrks til bifreiðakaupa samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Af þeim sökum hafi Tryggingastofnun tekið mál kæranda upp og samþykkt umsókn hennar um styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar. 

Þar sem Tryggingastofnun hafi tekið nýja ákvörðun í málinu og fallist á kröfu kæranda sé farið fram á að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Komist nefndin að annarri niðurstöðu áskilji Tryggingastofnun sér hins vegar rétt til að koma að efnislegri greinargerð.

Í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 8. nóvember 2019, kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiðakaupa. 

Kærandi hafi sótt um styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 vegna kaupa á bifreið þann 19. júlí 2019. Umsókninni hafi verið synjað með bréfi, dags. 24. júlí 2019, þar sem skráður ökumaður hafi ekki verið heimilismaður kæranda.

Þann 30. júlí 2019 hafi borist ný umsókn frá kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðarinnar. Í þeirri umsókn hafi komið fram að kærandi myndi keyra sjálf og væri með gilt ökuskírteini. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 31. júlí 2019, hafi umsókn kæranda um uppbót samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar verið samþykkt, en kærandi hafi ekki verið talin uppfylla skilyrði um styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar. 

Þann 19. ágúst 2019 hafi Tryggingastofnun borist kæra nr. 334/2019 þar sem ákvörðun stofnunarinnar hafi verið kærð. Með kæru hafi komið fram upplýsingar frá kæranda um að ástand hennar væri verra en áður hafði komið fram og meðal annars nýjar upplýsingar um að hún notist við göngugrind. Þær upplýsingar hafi Tryggingastofnun fengið staðfestar frá Sjúkratryggingum Íslands. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 3. september 2019, hafi ákvörðun stofnunarinnar verið breytt og kæranda tilkynnt um að umsókn um styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar hafi verið samþykkt.

Tryggingastofnun hafi í kjölfarið farið fram á að málinu yrði vísað frá þar sem búið væri að fallast á kröfu kæranda. Stofnuninni hafi nú borist beiðni um efnislega greinargerð frá úrskurðarnefnd þar sem kæran hafi einnig verið túlkuð sem kæra gagnvart ákvörðun stofnunarinnar frá 24. júlí 2019.

Þó að hér reyni í raun eingöngu á 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sé nauðsynlegt að rekja einnig á stuttan hátt hvaða kröfur séu gerðar vegna 1. mgr. 10. gr. laganna og 3. og 4. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

Í 1.–3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi meðal annars fram að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar, en 2. og 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:

„Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1.    Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Þetta á þó ekki við þegar um er að ræða hreyfihamlaða einstaklinga í sjálfstæðri búsetu, sbr. 6. mgr. 1. gr., sem hafa persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, t.d. samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samning.

2.    Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir.

Við mat á umsóknum skal fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfi­hamlaðra og hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, s.s. til vinnu, í skóla, sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.“

Strangari kröfur séu gerðar til þeirra sem hljóti styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. mgr. 10. gr. [laga um félagslega aðstoð]. Í þeim tilvikum sé skilyrði að umsækjandi sé verulega hreyfihamlaður og noti til dæmis tvær hækjur og/eða sé bundinn hjólastól að staðaldri. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá styrkinn þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunarinnar sé aukin þörf fyrir bíl sem sé dýrari en almennt gerist. Skilyrði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:

„Styrkur skal vera kr. 1.440.000 og skal eingöngu veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1.    Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Þetta á þó ekki við þegar um er að ræða hreyfihamlaða einstaklinga í sjálfstæðri búsetu, sbr. 6. mgr. 1. gr., sem hafa persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, t.d. samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samning.

2.    Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.

3.    Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er t.d. bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.

4.    Mat á ökuhæfni liggur fyrir.

5.    Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.“

Í 5. gr. reglugerðarinnar sé Tryggingastofnun veitt heimild til að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemi allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar. Í þeim tilvikum þurfi að vera um að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Heimildin eigi þó einungis við þegar umsækjandi uppfylli skilyrði 4. gr. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót samkvæmt 3. gr. og styrk samkvæmt 4. gr. og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunarinnar sé aukin þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl sem sé dýrari en almennt gerist um bifreiðar sem heimilt sé að veita uppbót samkvæmt 3. gr. eða styrk samkvæmt 4. gr.

Við mat á hreyfihömlun hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 12. júlí 2019, þar komi fram að kærandi sé X ára kona sem hafi farið versnandi til gangs síðastliðið ár. Hún hafi verið með polymyalgiu með temporal arteritis, auk þess sem kærandi sé með slit í baki og mjöðmum. Úthald sé minna. Einnig komi fram að kærandi geti gengið minna en 400 metra á jafnsléttu og að kærandi noti staf sem hjálpartæki.

Á þessum forsendum hafi skilyrði um hreyfihömlun verið talin uppfyllt og hafi kæranda verið veitt uppbót samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar en ekki styrkur samkvæmt 4. gr.

Með kæru hafi fylgt upplýsingar frá kæranda um að aðstæður hennar væru verri en fram hefði komið í vottorðinu og að hún væri byrjuð að nota göngugrind. Þær upplýsingar hafi verið staðfestar frá Sjúkratryggingum Íslands. Á grundvelli þeirra upplýsinga hafi Tryggingastofnun breytt fyrri ákvörðun sinni og veitt henni styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar.

Umsóknir um styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar séu teknar sérstaklega fyrir á fundi sérstaks afgreiðsluhóps sem meti þörf umsækjanda fyrir stóra og sérútbúna bifreið. Þessi afgreiðsluhópur sé meðal annars skipaður lækni, lögfræðingi og sérfræðingi frá Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands. Hópurinn meti hverja umsókn heildstætt og sé meðal annars horft til þess hve mikil hreyfihömlun umsækjanda sé og hve mikil þörf hans fyrir hjálpartæki sé.

Í þessu tilfelli hafi formleg umsókn kæranda ekki verið tekin fyrir á sínum tíma, enda hafi það verið skilningur Tryggingastofnunar eftir að ný umsókn hennar barst að vilji kæranda væri sá að sækja um uppbót/styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 3. og 4. gr. Eftir að athugasemdir kæranda hafi borist ásamt erindi úrskurðarnefndar hafi mál hennar verið tekið fyrir á fundi afgreiðsluhópsins. Að mati Tryggingastofnunar sé hreyfihömlun kæranda og hjálpartækjaþörf ekki sambærileg við þær kröfur sem gerðar séu til að styrkur til bifreiðakaupa samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar sé veittur.

Tryggingastofnun hafi metið kæranda hreyfihamlaða. Eins og fram hafi komið eigi kærandi rétt á styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar. Tryggingastofnun telji hins vegar að kærandi uppfylli ekki þau viðbótarskilyrði sem séu sett fyrir því að hún geti átt rétt á styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar.

Eins og áður hafi komið fram eigi heimild Tryggingastofnunar til að veita styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar við í þeim tilvikum þar sem um sé að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót samkvæmt 3. gr. og styrk samkvæmt 4. gr. og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá hann þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunarinnar sé aukin þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl sem sé dýrari en almennt gerist um bifreiðar sem heimilt sé að veita uppbót fyrir samkvæmt 3. gr. eða styrk samkvæmt 4. gr. Kærandi hafi ekki sýnt fram á það.

Styrkur samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar hafi verið miðaður við að hinn hreyfihamlaði sé í þannig aðstæðum að hann geti ekki farið úr rafmagnshjólastól til þess að komast inn í bifreiðina. Í þeim tilvikum þurfi hinn hreyfihamlaði bifreið sem sé nægilega stór að hann geti, með nauðsynlegum breytingum, verið fluttur í hjólastólnum inn í bifreiðina þar sem hjólastóllinn sé svo festur niður. Í flestum tilvikum sé um svokallaða hjólastólalyftu að ræða en í undantekningartilfellum sé notast við ramp.

Eins og gefi að skilja séu þeir bílar sem hægt sé lyfta fullvöxnum einstaklingi inn í á meðan hann sitji í rúmfrekum rafmagnshjólastól mjög stórir og í næstum öllum tilvikum sé nauðsynlegt að um sendibifreið sé að ræða. Á þessum bifreiðum þurfi líka að gera verulegar sérbreytingar sem séu meiri heldur en þær sem almennt þurfi að gera þegar um sé að ræða styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar. Þörfum þessa hóps sé styrk ætlað að mæta samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Ekki sé hægt að sjá að gert sé ráð fyrir neinum bifreiðatengdum hjálpartækjum í tilfelli kæranda. Kærandi sé ekki bundin við hjólastól heldur notist við göngugrind. Ekki sé hægt að sjá að gert sé ráð fyrir frekari breytingum á bifreiðinni, eða hjálpartækjum, sem séu sambærileg þeim sem gerðar séu í bifreiðum sem veittur sé styrkur til kaupa á samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar. Lýsing á hreyfihömlun kæranda sé ekki í samræmi við þá hreyfihömlun sem myndi veita rétt til styrks samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar. Að mati Tryggingastofnunar uppfylli kærandi ekki skilyrði ákvæðisins til að eiga rétt á styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar.

Rétt sé að vekja athygli á því að upphafleg umsókn kæranda um styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar hafi ekki fengið efnislegt mat á sínum tíma heldur hafi eingöngu verið synjað vegna þess að kærandi hafi gefið upp ökumann sem ekki hafi verið heimilismaður hennar. Í þeirri synjun hafi komið fram kæruheimild, heimild til að biðja um rökstuðning og einnig bent á hvernig hægt væri að koma fram athugasemdum eða fá frekari upplýsingar. Ekkert slíkt hafi borist heldur hafi borist umsókn um uppbót/styrk samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðarinnar. Vinnsla málsins hingað til hafi því miðast við þá umsókn.

Við vinnslu þessarar greinargerðar hafi mál kæranda verið skoðað efnislega. Það sé mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu til hreyfihömlunar og hjálpartækjaþarfar til að eiga rétt á styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar. Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé sú niðurstaða í samræmi við lög um félagslega aðstoð, reglugerð nr. 170/2009 og við ítrekaða úrskurði úrskurðarnefndar vegna núgildandi reglugerðar og sambærilegt ákvæði fyrri reglugerðar nr. 752/2002. Megi þar meðal annars benda á mál nr. 459/2016.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið og ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um 50-60% styrk til kaupa á bifreið. Tryggingastofnun samþykkti umsókn kæranda um styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni. Kærandi óskar eftir að fá greiddan hærri styrk til bifreiðakaupa.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar gildir sama um rekstur bifreiðar. Þá er samkvæmt 3. mgr. sömu greinar heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða líkamshluta vanti. Á grundvelli 2. málsl. nefndrar 3. mgr. setur ráðherra reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu og er gildandi reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 er að finna skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að styrkja kaup á sérútbúnum og dýrum bifreiðum. Þar kemur fram í 1. mgr. að heimilt sé að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemur allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar ef um sé að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Þá segir að heimildin eigi einungis við þegar umsækjandi uppfylli skilyrði 4. gr. reglugerðarinnar.

Skilyrði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar hljóða svo:

„Styrkur skal vera kr. 1.440.000 og skal eingöngu veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.

3. Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er t.d. bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.

4. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.

5. Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.“

Fyrir liggur að Tryggingastofnun hefur samþykkt að greiða kæranda styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, sbr. breytingar með reglugerð nr. 997/2015, kemur skýrt fram að styrkur til bifreiðakaupa samkvæmt ákvæðinu skuli vera 1.440.000 kr. Kærandi á því ekki rétt á hærri styrk til bifreiðakaupa á grundvelli þess ákvæðis. Afgreiðsla Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa er því staðfest.

Kemur þá til skoðunar hvort kærandi eigi rétt á styrk sem nemur allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar, samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Samkvæmt læknisvottorði B, dags. 12. júlí 2019, eru sjúkdómsgreiningar kæranda:

„Giant cell arteritis with povmvalgia rehumatica

Osteoarthrosis“

Þá er merkt við í vottorðinu að göngugeta kæranda sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu og að kærandi notist við staf. Í lýsingu á sjúkdómsástandi kæranda segir í læknisvottorðinu meðal annars:

„X ára kona sem hefur verið versnandi til gangs sl. ár. Er með plymyalgiu með temporal arteritis, auk þess sem hún með slit í baki og mjöðmum. úthald er minna.

Er að óska eftir styrk til bílakaupa.“

Tryggingastofnun byggir á því að lýsing á hreyfihömlun kæranda sé ekki í samræmi við hreyfihömlun sem myndi veita rétt til styrks samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar þar sem kærandi notist eingöngu við göngugrind.

Af greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins má ráða að stofnunin hefur sett ákveðnar viðmiðunarreglur um veitingu 50-60% styrks til bifreiðakaupa samkvæmt 5. gr. framangreindar reglugerðar. Tryggingastofnun er heimilt að setja reglur til þess að stuðla að samræmi og jafnræði við veitingu styrkja til bifreiðakaupa. Reglurnar verða þó að vera í samræmi við ákvæði laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og ákvæði reglugerðar nr. 170/2009. Þá er Tryggingastofnun ekki heimilt að láta hjá líða að framkvæma það mat sem stofnuninni er ætlað að gera samkvæmt lögum. Stofnunin þarf því að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort einstaklingur komist ekki af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið gögn málsins og telur sýnt af þeim að kærandi búi við skerta göngugetu og notist við göngugrind. Samkvæmt læknisvottorði er göngugeta kæranda að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess að Tryggingastofnun hefur samþykkt að greiða kæranda styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar. Eitt af skilyrðum fyrir veitingu slíks styrks er að viðkomandi sé verulega hreyfihamlaður og nefnd eru sem dæmi um slíka hreyfihömlun að viðkomandi sé bundinn hjólastól og/eða noti tvær hækjur að staðaldri. Það er hins vegar skilyrði fyrir veitingu styrks samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar að um sé að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að kærandi sé verulega hreyfihömluð í skilningi 4. gr. reglugerðarinnar en við samanburð framangreindra reglugerðarákvæða er það er mat nefndarinnar að hreyfiskerðing kæranda sé ekki svo mikil að hún búi við mikla fötlun í skilningi 5. gr. reglugerðarinnar. Við það mat horfir úrskurðarnefndin meðal annars til þess að kærandi notast við göngugrind en er ekki háð hjólastól.

Með hliðsjón af framangreindu er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um 50-60% styrk til kaupa á bifreið staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um uppbót/styrk til bifreiðakaupa er staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um 50-60% styrk til kaupa á bifreið er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                             Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta