Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 150/2010

Grein

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. apríl 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 150/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 22. júlí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 16. júlí 2010 fjallað um fjarveru kæranda á boðaðan fund þann 4. júní 2010. Vegna fjarveru kæranda var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með degi ákvörðunar sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 20. júlí 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 18. nóvember 2009. Hún var með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 31. maí 2010, boðuð til fundar hjá stofnuninni 4. júní 2010. Bréfið var sent á lögheimili kæranda að B-götu 18, 220 Hafnarfirði, en það heimilisfang hafði hún tilkynnt Vinnumálastofnun sem aðsetur sitt. Kæranda voru enn fremur send símaskilaboð um fundarboðið í símanúmerið Y þann sama dag. Kærandi mætti ekki til fundarins þann 4. júní 2010.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. júní 2010, var kæranda tilkynnt að stofnunin teldi að hún uppfyllti ekki skilyrði 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og var henni, í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gefinn kostur á að gefa skýringar á fjarveru sinni innan sjö virkra daga frá dagsetningu bréfsins. Engar skýringar bárust frá kæranda innan frestsins og með bréfi, dags. 23. júní 2010, var henni tilkynnt með bréfi Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar skyldu stöðvaðar þar sem hún væri ekki í virkri atvinnuleit. Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun þann 2. júlí 2010 og kvaðst hafa verið í viðtali vegna innskráningar í skóla á sama tíma og fundur stofnunarinnar hafi átt að vera. Málið var tekið fyrir að nýju þann 16. júlí og kæranda tilkynnt hin kærða ákvörðun með bréfi dags. 22. júlí 2010 eins og fram hefur komið.

Í greinargerð sinni, dags. 16. febrúar 2011, vísar Vinnumálastofnun í 3. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram kemur að stofnuninni sé heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunna að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Skal hinn tryggði þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Vinnumálastofnun vísar til þess að í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um nr. 134/2009, um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, komi fram að sömu viðurlög skuli eiga við í þeim tilvikum þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað og þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar til að kanna hvort hann uppfylli enn skilyrði laganna. Þá sé sérstaklega tekið fram að bréf á lögheimili hlutaðeigandi sé sannanlega boðun í skilningi laganna. Það sé eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að bregðist atvinnuleitandi skyldu sinni, skuli það leiða til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Vinnumálastofnun segist hafa sent boðunarbréf á lögheimili kæranda að B-götu 18 í Hafnarfirði. Einnig hafi verið vakin athygli á fundinum með símaskilaboði. Kærandi hafi sagst vera í viðtali vegna skólavista á sama tíma og fundurinn hafi átt að vera. Eins og fram komi í bréfi stofnunarinnar, dags. 31. maí 2010, hafi fundur stofnunarinnar aðeins tekið örskamma stund og hafi viðtakendum verið frjálst að mæta milli klukkan 9.30 og 14.00 þann 4. júní 2010. Sé atvinnuleitanda ómögulegt að mæta á fund hjá stofnuninni hafi verið reynt að hliðra til með fundartíma. Slíkt sé að sjálfsögðu háð tilkynningu frá atvinnuleitanda, þess efnis að honum sé ekki fært að mæta á boðuðum tíma. Vinnumálastofnun hafi ekki borist tilkynning frá kæranda áður en fundurinn hafi verið haldinn og engar athugasemdir hafi borist stofnuninni eftir að leitað hafi verið eftir slíku með bréfi dags. 4. júní 2010. Frestur til að koma að athugasemdum hafi runnið út þann 15. júní en kærandi hafi fyrst haft samband við Vinnumálastofnun þann 2. júlí 2010.

Kærandi segist hafa fengið boðun á fund stofnunarinnar ekki opnað bréfið í tæka tíð. Því hafi hún ekki mætt á umræddan fund. Telji Vinnumálastofnun það vera grundvallarskilyrði þess að unnt sé að aðstoða umsækjanda um atvinnuleysisbætur við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum að atvinnuleitandi sinni þeim boðunum og ábendingum sem sannanlega séu send honum.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. febrúar 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. mars 2011. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. 

 

2.

Niðurstaða

Kærandi var boðuð á fund þann 4. júní 2010 með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 31. maí 2010. Hún mætti ekki á fundinn og svaraði ekki fyrirspurn stofnunarinnar um ástæður fjarverunnar, innan tilskilins frests og með bréfi, dags. 23. júní 2010, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysistrygginga skyldu stöðvaðar. Kærandi kom skýringum sínum á framfæri þann 2. júlí 2010. Hin kærða ákvörðun var síðan tekin þann 16. júlí 2010, en hún var reist á svohljóðandi 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.

Lokamálslið ákvæðisins var bætt við með 21. gr. laga nr. 134/2009 en eitt helsta markmiðið með setningu laga nr. 134/2009 var að styrkja valdheimildir Vinnumálastofnunar til að sinna eftirliti með þeim sem þiggja atvinnuleysisbætur.

Í 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er m.a. kveðið á um skyldu þeirra sem eru tryggðir samkvæmt lögunum að hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður. Mælt er m.a. fyrir um það í 3. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur, svo sem í því skyni að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunna að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Atvinnuleitandi skal samkvæmt síðari málslið ákvæðisins vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 31. maí 2010, var kærandi boðaður með sannanlegum hætti á fund í skilningi 3. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi mætti ekki á fundinn. Með því telur úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kærandi hafi brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr., 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir ákvörðun sinni, verður hún staðfest.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. júlí 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta