Mikil uppbygging á íbúðamarkaði á Austfjörðum
Stórt skref var stigið í húsnæðismálum á Austfjörðum í gær þegar samkomulag var gert um uppbyggingu leiguíbúða í Fjarðabyggð annars vegar og hornsteinn lagður að nýrri götu í Fellabæ hins vegar. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, var viðstaddur viðburði af þessu tilefni.
Í Fjarðabyggð mun leigufélagið Bríet byggja leiguíbúðir á Fáskrúðsfirði, Breiðdalsvík og í Neskaupsstað. Bríet er í eigu HMS og rekið án hagnaðarsjónarmiða. Við götuna Selbrún í Fellabæ verða byggðar 40 íbúðir, þar af 30 fyrir þau sem eru að kaupa fyrstu íbúð og þau sem ekki hafa átt íbúðarhúsnæði sl. fimm ár og uppfylla skilyrði um hlutdeildarlán.
„Verkefnin snúast bæði um að auka húsnæðisöryggi íbúa á þessu svæði og að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda. Ríkisstjórnin er að bregðast við því ójafnvægi sem hefur ríkt á húsnæðismarkaði með neikvæðum afleiðingum fyrir efnahag heimilanna,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
Ráðherra segir að húsnæðis- og skipulagsmál hafi verið færð yfir í nýtt innviðaráðuneyti til að tryggja betri samhæfingu með sveitarfélögum og jafnvægi á húsnæðismarkaði. Það gefi tækifæri til að skipuleggja húsnæðismálin upp á nýtt.
„Á næstu 10 árum þarf að byggja hvorki meira né minna en 35.000 íbúðir á landinu öllu. Þær munu þurfa að skiptast niður á landshluta þar sem tryggt er viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði. Ríki og sveitarfélög verða að taka sameiginlega ábyrgð á því að stuðla að stöðugleika í húsnæðismálum, gera ábyrgar áætlanir og fylgja þeim eftir, þannig verður jafnvægi best tryggt,“ segir Sigurður Ingi.
Nánar um verkefnin í Fjarðabyggð
Í samkomulagi, sem var undirritað í Neskaupsstað í gær, munu leigufélagið Bríet og verktakafyrirtækið Búðingar vinna að uppbyggingu leiguhúsnæðis í þremur þéttbýliskjörnum innan Fjarðabyggðar, á Fáskrúðsfirði, Breiðdalsvík og í Neskaupstað.
Bríet er sjálfstætt leigufélag í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, og rekið án hagnaðarsjónamiða. Bríet býður fjölbreytta húsnæðiskosti út um allt land fyrir einstaklinga og fjölskyldur til öruggrar og hagkvæmrar langtímaleigu. Eignasafn félagsins telur um 250 fasteignir í 38 sveitafélögum víðsvegar um landið sem flestar eru nú þegar í útleigu.
Nánar um verkefnin í Fellabæ (Múlaþingi)
Fyrirtækið Hrafnshóll ehf. mun standa að skipulagi Selbrúnar í Fellabæ og sjá um framkvæmdir við uppbyggingu í götunni á næstu árum. Við götuna verða einkum byggðar íbúðir fyrir einstaklinga, pör og stækkandi fjölskyldur, sem uppfylla skilyrði um hlutdeildarlán. Verkefnið verður unnið í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Nýju húsin verða timbureiningahús sem uppfylla kröfur um algilda hönnun og eru umhverfisvæn hvað varðar m.a. kolefnisspor og visthæfi. Með því að skipuleggja heila götu með þessum hætti standa vonir til að hægt sé að koma mörgum íbúðum inn á markaðinn í Múlaþingi á skömmum tíma.