Hoppa yfir valmynd
7. mars 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 104/2019 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 104/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18120025

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. desember 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Moldóvu og Rússlands (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. nóvember 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 14. janúar 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 10. september 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 26. nóvember 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 10. desember 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 21. desember 2018. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd þann 21. febrúar 2019 ásamt talsmanni sínum.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi sé fæddur og uppalinn í borginni Tiraspol í Transnistríu. Kærandi hafi búið þar alla sína tíð að undanskildum árunum 2013 til 2016 þegar hann hafi sinnt herskyldu í rússneska hernum í Rússlandi og á Krímskaga. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann tilheyri minnihlutahópi þar sem hann sé af rússneskum uppruna og aðhyllist ekki trúarbrögð. Kærandi hafi ekki sótt kirkju í heimaríki og hafi fólk hent gaman að honum af þeim sökum. Þá tilheyri kærandi ekki tilteknum stjórnmálaflokki en sé mótfallinn veru rússneska hersins í Moldóvu og Úkraínu. Kærandi greindi frá því að ástæður flótta hans séu að hann hafi sinnt herskyldu og hafi hermenn verið heilaþvegnir, m.a. með fréttum um átökin í Úkraínu. Kærandi hafi á meðan herskyldu hans stóð komið til nokkurra úkraínskra borga og ekki skynjað fordóma milli Úkraínumanna og Rússa. Í kjölfarið hafi hann ekki treyst þeim upplýsingum sem fram hafi komið í rússnesku sjónvarpi. Þegar kærandi hafi snúið heim til Transnistríu hafi hann tjáð skoðanir sínar um rússneska herinn og veru hans í Transnistríu og Úkraínu við aðra hermenn. Kærandi hafi viljað hætta í hernum árið 2015 en ekki fengið það. Tímabilið 2015 til 2016 hafi verið kæranda erfitt og einkennst af miklu álagi og streitu en hann hafi búið við óvissu um hvert honum yrði skipað að fara og berjast. Það hafi lagst þungt á kæranda að þurfa mögulega að taka þátt í átökum. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að í Transnistríu sé ólöglegur her aðskilnaðarsinna og hafi hvorki Moldóva né Rússland raunveruleg áhrif á hann. Þá greindi kærandi frá því að hann hafi undirgengist æðahnútaaðgerð í Rússlandi árið 2016 en engin heilsufarsgögn fengið þrátt fyrir beiðni þess efnis. Þá hafi kærandi dvalið á Krímskaga á meðan hann hafi jafnað sig. Kærandi greindi frá því að honum hafi verið boðið að fara og berjast með hernum, eftir að hann hafi lokið störfum sínum þar, m.a. í Sýrlandi. Kærandi kveðst hafa tjáð skoðanir sínar um rússneska heilbrigðiskerfið og rússneska herinn opinskátt á síðum samfélagsmiðla og við vini sína í umræðum á veraldarvefnum. Kærandi hafi m.a. tjáð skoðanir sínar á umræðuvettvöngum en sumum vefsíðanna sé stundum lokað vegna skoðanaskiptanna sem fari þar fram. Kæranda hafi borist hótanir og einkaskilaboð vegna skoðana sinna frá einstaklingum í Transnistríu og Krímskaga. Honum hafi m.a. verið hótað alvarlegum líkamsmeiðingum. Kærandi hafi eytt skilaboðunum jafnóðum.

Kærandi hafi enn fremur tekið þátt í mótmælum í Tiraspol í nóvember 2017. Þá hafi einstaklingur frá KGB beðið fyrir utan vinnustað hans um miðjan nóvember sama ár. Maðurinn hafi beðið kæranda að ræða við sig og m.a. spurt kæranda hvað hann hafi verið að gera á mótmælunum og hvort hann eigi ættingja í Transnistríu. Kærandi hafi tjáð manninum að hann hafi viljað koma sínum skoðunum á framfæri í mótmælunum. Maðurinn hafi sagt kæranda að framferði hans væri óæskilegt og nyti ekki samfélagslegs samþykkis. Þá hafi maðurinn sagt að kæranda eða ættingjum hans geti borist hótanir ef hann hætti ekki að tjá skoðanir sínar. Hann hafi beðið kæranda að undirrita skjal þess efnis að samtalið hafi verið trúnaðarmál en kærandi hafi neitað. Maðurinn heiti […] og sé liðsforingi í KGB. Kærandi hafi frétt af sambærilegum heimsóknum til annarra þátttakenda í mótmælunum og hafi ákveðið að sækja um ríkisborgararétt í Moldóvu og flýja land í kjölfarið. Kærandi hafi greint Útlendingastofnun frá því að hann geti ekki leitað til lögreglu þar sem KGB séu hærra settir en lögreglan. Þá séu lögreglustofnanir Transnistríu undir stjórn rússneskra lögregluyfirvalda. Kærandi hafi ráðfært sig við lögfræðing sem hafi ráðið honum frá því að leita til lögregluyfirvalda þar sem ástandið yrði aðeins verra. Þá greindi kærandi frá því að núverandi forseti Transnistríu hafi sett lög sem kveði á um bann við mótmælum og gagnrýni á veru rússneska hersins á átakasvæðum. Kærandi hafi lagt fram vegabréf og lögheimilisskráningu í Transnistríu auk gagna varðandi veru hans í rússneska hernum. Kærandi hafi greint frá því að skoðanir hans fari gegn stefnu stjórnvalda í Transnistríu og Rússlandi en samvinna sé milli lögreglu þessara ríkja. Þá telji kærandi sig ekki getað leitað til dómstóla vegna spillingar. Þá óttist kærandi að stjórnvöld muni handtaka hann og setja í fangelsi til að þagga niður í skoðunum hans. Yfirvöld eigi auðvelt með að hafa uppi á fólki t.d. í gegnum IP tölur og lögregluyfirvöld Transnistríu séu með ítök í moldóvskum lögreglustofnunum. Þá sé kærandi ekki öruggur í Rússlandi sökum skoðana sinna og álitinn aðskilnaðarsinni í Moldóvu þar sem hann hafi sinnt herskyldu í rússneska hernum.

Í greinargerð kæranda er fjallað um stöðu mannréttindamála í Moldóvu og Rússlandi, þ.m.t. sérstaklega um mannréttindabrot innan Transnistríu. Þar kemur m.a. fram að yfirvöld í Transnistríu takmarki tjáningarfrelsi íbúa svæðisins. Kærandi vísar m.a. til alþjóðlegra skýrslna sem hann telji styðja við mál sitt.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi orðið fyrir ofsóknum á heimasvæði sínu, Transnistríu, af hálfu yfirvalda á svæðinu og rússneskra stjórnvalda, og séu yfirgnæfandi líkur á að hann verði fyrir ofsóknum verði hann sendur til Moldóvu eða Rússlands. Kærandi vísar m.a. til skýringa á hugtökunum ofsóknir og stjórnmálaskoðanir í handbók Flóttamannastofnunar um réttarstöðu flóttamanna. Kærandi eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda í Transnistríu, hópi sem stjórni ríkinu eða verulegum hluta þess sem og rússneskum stjórnvöldum, hann óttist því ofsóknir af hálfu þeirra aðila sem taldir séu upp í a-, b- og c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá fjallar kærandi um bága stöðu mannréttinda í Rússlandi af hálfu ríkisins, fjárhagslegan og hernaðarlegan stuðning Rússlands við Transnistríu og að moldóvsk löggæsluyfirvöld geti ekki sinnt hlutverki sínu á svæðinu. Þá hafi þekkst að lögregluyfirvöld Moldóvu hafi framselt einstaklinga til Transnistríu sem séu eftirlýstir af transnistrískum yfirvöldum. Endursending kæranda til Moldóvu eða Rússlands sé brot gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 42. gr. laga um útlendinga og að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu , 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamningsins. Í ljósi þess hvernig túlka beri ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana í 1. mgr. 37. gr. og 1. og 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af því sem fram komi í handbókinni, leiðbeiningarreglum Flóttamannastofnunar, frásögn kæranda og landaupplýsingum um Transnistríu, Moldóvu og Rússland, sé ljóst að aðstæður kæranda falli þar undir. Að öllu þessu virtu beri að veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Kærandi gerir í greinargerð sinni athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar. Sérstaklega gerir kærandi athugasemd við þá staðhæfingu Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að moldóvsk stjórnvöld geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd hafi hann orðið fyrir áreiti í Transnistríu. Kærandi gerir framangreinda athugasemd sérstaklega í ljósi þeirra landaupplýsinga sem liggi fyrir um að yfirvöld í Moldóvu hafi flutt einstaklinga sem séu eftirlýstir í Transnistríu til yfirvalda á svæðinu þrátt fyrir að slíkt samstarf brjóti gegn stjórnarskrárvörðum réttindum þeirra. Það sé ljóst að kærandi eigi á hættu að vera fluttur í umsjá löggæsluyfirvalda í Transistríu verði hann sendur til Moldóvu. Þá mótmælir kærandi með vísan til framlagðra gagna því mati Útlendingastofnunar að kærandi sé ekki rússneskur ríkisborgari.

Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi óttist handtöku og fangelsun í Moldóvu eða Rússlandi stjórnmálaskoðana sinna vegna. Þá sé aðbúnaður fanga slæmur í báðum ríkjum og hafi einstaklingar látist í varðhaldi síðustu ár vegna pyndinga og illrar meðferðar. Í ljósi framangreinds telur kærandi ljóst að hann eigi í raunverulegri hættu á að verða fyrir alvarlegum skaða verði honum gert að snúa aftur til Moldóvu eða Rússlands. Þá sé ekki raunhæft að ætla að kærandi geti leitað verndar hjá stjórnvöldum. Þá áréttar kærandi að endursending hans til heimaríkis væri brot gegn ákvæðum laga um útlendinga, stjórnarskránni og alþjóðasáttmálum. Þá telji kærandi með vísan til málsatvika, gagna málsins og lögskýringargagna að hann uppfylli öll skilyrði viðbótarverndar þar sem hann sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í Moldóvu og Rússlandi.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis ef útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna heilbrigðisástæðna, erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða félagslegra aðstæðna viðkomandi í heimaríki. Kærandi vísar til þeirra sjónarmiða sem fram komi í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga nr. 80/2016 um 74. gr. laganna. Kærandi hafi aldrei búið í hinum löglega hluta Moldóvu, heldur hafi hann búið allt sitt líf í Tiraspol að undanskildum nokkrum árum í Rússlandi. Kærandi sé álitinn aðskilnaðarsinni í Moldóvu þar sem hann hafi verið í rússneska hernum í Transnistríu og óttist m.a. mismunun vegna uppruna síns á því svæði. Þá sé kærandi jafnframt í hættu í Rússlandi skoðana sinna vegna. Því telji kærandi ljóst að hann uppfylli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað moldóvsku vegabréfi. Þá hefur kærandi lagt fram sovéskt fæðingarvottorð sitt, ljósrit af útrunnu rússnesku vegabréfi sínu og rússneskt vegabréf móður sinnar. Kærandi heldur því fram að hann sé einnig ríkisborgari Rússlands. Er það mat kærunefndar í ljósi fyrirliggjandi landaupplýsinga m.a. um þjóðerni íbúa Transnistríu, reglna um tvöfaldan ríkisborgararétt í Moldóvu og Rússlandi og framlagðs vegabréf móður kæranda að ekki verði dregin í efa sú frásögn kæranda að hann sé einnig rússneskur ríkisborgari. Það er því lagt til grundvallar að kærandi sé moldóvskur og rússneskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Moldóvu og Rússlandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

·         Moldova 2017 human rights report (U.S. Department of state, 25. apríl 2018);

·         Nations in Transit – 2018 – Moldova (Freedom House, 11. apríl 2018);

·         Country Policy and Information Note. Moldova: Human Rights in Transnistria. (U.K. Home Office, 20. júní 2017);

·         Human Rights in Moldova (Civil Rights Defenders, 17. janúar 2017);

·         Freedom in the World 2018 – Moldova (Freedom House, 1. ágúst 2018);

·         World Directory of Minorities and Indigenous Peoples – Moldova (Minority Rights Group International, janúar 2018);

·         World Directory of Minorities and Indigenous Peoples – Moldova: Russians and Russian-speakers (Minority Rights Group International, janúar 2018);

·         Freedom in the World 2018 – Transnistria (Freedom House, 5. október 2018);

·         Russia 2017 human rights report (U.S. Department of state, 25. apríl 2018);

  • World Report 2018 – Russia (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);

·         In Brief – Human Rights and Democracy in Russia (Helsinki Commission Report, 20. september 2017);

·         The World Factbook - Russia (vefsíða CIA, skoðað þann 24. janúar 2019);

·         Nations in Transit 2017 - Russia (Freedom House, 3. apríl 2017);

·         Freedom in the World 2017 - Russia (Freedom House, 15. apríl 2017);

  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Ryssland 2015–2016 (Utrikesdepartementet, 26. apríl 2017);
  • Border crossing by foreigners and stateless persons (State Border Guard Service of Ukraine, skoðað þann 27. febrúar 2018);
  • Hur hanteras en anmälan mot polisen i Ryssland? (Lifos, 6. mars 2015);

·         Country of Origin Information Report. Russian Federation. State Actors of Protection (EASO, mars 2017).

Moldóva er lýðræðisríki með þingbundinni stjórn með u.þ.b. 3,5 milljónir íbúa. Moldóva er aðili að ýmsum alþjóðlegum mannréttindasamningum m.a. samningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu ásamt flóttamannasamningnum. Moldóva er jafnframt aðili að Evrópuráðinu og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að Transnistría sé sjálfstjórnarhérað innan landamæra Moldóvu. Á tíunda áratugnum hafi aðskilnaðarsinnar lýst því yfir að Transnistría sé lýðveldi innan Moldóvu á landamærum ríkisins og Úkraínu. Árið 1992 hafi brotist út átök á svæðinu og samið hafi verið um vopnahlé sem hafi leitt til þess að Moldóva, Rússland og Transnistría annist friðargæslu á svæðinu. Ríkisstjórn Moldóvu fari ekki með stjórn svæðisins heldur séu hliðstæð stjórnvöld Transnistríu við stjórnvölinn. Svæðið hafi haft de facto sjálfstæði frá árinu 1992 en sé á alþjóðavettvangi álitið hluti af Moldóvu.

Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2017 eru helstu vandamál tengd mannréttindum í Moldóvu, m.a. pyndingar og slæmar aðstæður í fangelsum ríkisins, handahófskenndar handtökur og varðhald, óréttlát málsmeðferð, spilling og takmarkað frelsi fjölmiðla og þá sérstaklega í Transnistríu. Þrátt fyrir að moldóvsk stjórnvöld rannsaki tilkynningar um misbeitingu valds af hálfu opinberra starfsmanna m.a. í öryggissveitum hafi þeim ekki tekist að saksækja og refsa starfsmönnum sem hafi verið sakaðir um mannréttindabrot, spillingu og önnur brot með fullnægjandi hætti. Þá hafi ríkið sótt opinbera starfsmenn til saka með valkvæðum hætti af pólitískum ástæðum. Rannsókn á hvarfi hárra fjárhæða úr seðlabanka ríkisins hafi leitt til handtöku og refsinga núverandi og fyrrum háttsettra embættismanna. Refsileysi sé mikið vandamál í ríkinu en innanríkisráðuneytið hafi náð einhverjum árangri í að berjast gegn misbeitingu og valds og spillingu. Dómstólar í Moldóvu hafi úrskurðað árið 1999 að það gangi gegn stjórnarskrá ríkisins að handsama íbúa Transnistríu sem séu eftirlýstir af stjórnvöldum á svæðinu og flytja þá til Transnistríu en sú framkvæmd sé þó enn við lýði að einhverju leyti.

Í skýrslu alþjóðasamtaka um minnihlutahópa (Minority Rights Group International) kemur fram að u.þ.b. 22 % þjóðarinnar tilheyri minnihlutahópum, þar af séu 7 % Rúmenar, 6,6 % Úkraínumenn, 4, 1 % af Gagauz uppruna, 4,1 % Rússar, 1,9 % Búlgarar, 0,5 % rómafólk og 0,3 % tilheyri öðrum hópum. Þá sé rússneska aðaltungumál 14,6 % íbúa Moldóvu en mismunandi tungumál hafi valdið aðgreiningu hópa í ríkinu. Þá séu algengustu tungumálin moldóvska og rússneska. Einstaklingar í framangreindum tungumálahópum tilheyri sitthvoru samfélaginu og séu sérstakir fjölmiðlar og menntakerfi fyrir hvort tungumál um sig. Þá fari tungumálakennsla fyrir minnihlutahópa einungis fram í skólum þar sem rússneska sé aðaltungumálið. Afleiðing þessarar skiptingu menntakerfisins sé sú að einstaklingar sem tilheyri þjóðernisminnihluta læri opinbera tungumál ríkisins sem þriðja mál og tali málið því oft ekki reiprennandi. Þá sé menntun á rússnesku í boði í Moldóvu allt frá leikskólastigi til menntaskólastigs og séu fleiri nemendur í rússneskum skólum heldur en tilheyri rússneska þjóðernisminnihlutanum. Í kjölfar átakanna árið 1992 sem hafi orðið til þess að Transnistría var stofnuð hafi ríkisstjórn Moldóvu reynt að tryggja velferð minnihlutahópa, m.a. með því að veita minnihlutahópum menningarlegt sjálfstæði samkvæmt lögum. Þá hafi ríkið sett lög til þess að tryggja réttindi minnihlutahópa og árið 2012 hafi Moldóva tekið mikilvæg skref í baráttunni gegn mismunun á grundvelli þjóðernis með innleiðingu laga um bann við mismunun og setningu aðgerðaráætlunar um mannréttindi þjóðernishópa. Samkvæmt skýrslu Freedom House frá 2018 sé minnihlutahópum ekki mismunað í moldóvskri löggjöf en sumir hópanna eigi þó fáa fulltrúa í stjórnmálum. Þá kemur fram í sömu skýrslu að einstaklingar í Moldóvu geti almennt tjáð stjórnmálaskoðanir sínar eða skoðanir á öðrum viðkvæmum málefnum án þess að eiga á hættu eftirlit eða neikvæð viðbrögð af hálfu stjórnvalda.

Að því er varðar aðstæður innan sjálfstjórnarsvæðisins Transnistríu kemur fram í skýrslu Freedom House frá 2018 að meirihluti íbúa svæðisins sé af rússneskum og úkraínskum uppruna en Moldóvar séu í minnihluta. Ríkisstjórn og efnahagslíf svæðisins sé háð niðurgreiðslum frá Rússlandi en ríkið haldi úti her og friðargæslu á svæðinu. Þá hafi moldóvsk yfirvöld ítrekað farið fram á að Rússland fjarlægi hersveitir sínar af svæðinu. Opinber tungumál svæðisins séu rússneska, úkraínska og moldóvska en rússneska sé það tungumál sem notað sé af stjórnvöldum. Yfirvöld í Transnistríu leyfi ekki atkvæðagreiðslur í moldóvskum kosningum á svæðinu en hins vegar hafi íbúar með rússneskan ríkisborgararétt haft aðgang að rúmlega tuttugu kjörstöðum í forsetakosningum Rússlands árið 2012. Rúmlega 95 % íbúa svæðisins tilheyri rétttrúnaðarkirkjunni og hafi stjórnvöld meinað öðrum trúfélögum um skrásetningu. Árið 2016 hafi verið sett lög sem banni heimildarlausa dreifingu trúarrita, prédikanir á opinberum svæðum og skipulagðar trúarsamkomur í heimahúsum. Samkvæmt framangreindri skýrslu ræði íbúar svæðisins stjórnmálaskoðanir sín á milli en veigri sér við að ræða slíkt á opinberum stöðum af ótta við að fylgst sé með þeim eða þeir muni gjalda fyrir að tjá andstöðu sína á stjórnvöldum. Ekki séu til áreiðanlegar heimildir um stjórn fangelsa í Transnistríu en stjórnvöld hafi gefið út að um 3000 manns afpláni í fangelsum ríkisins. Þá hafi slæm meðferð lögreglu á föngum verið vandamál og aðbúnaður í fangelsum slæmur. Samkvæmt umboðsmanni Transnistríu hafi kvörtunum fanga fækkað árið 2016 frá árinu á undan en ekki séu tölfræðilegar skýrslur til staðar. Þá kemur fram í ofangreindri skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar að áreiðanlegar heimildir hermi að stjórnvöld á svæðinu veiti íbúum þess ekki réttláta málsmeðferð.

Í skýrslu Freedom House kemur fram að stjórnvöld í Transnistríu takmarki fundafrelsi íbúanna með því að synja um leyfi fyrir fundum og mótmælum. Samkvæmt heimildum hafi einungis tvenn mótmæli verið leyfð á síðustu fimm árum. Þeir sem taki þátt í óheimilum mótmælum séu dæmdir til sektargreiðslna. Þá verði hópar sem mótmæli án leyfis fyrir áreiti öryggissveita landsins. Þá sé lagt blátt bann við starfsemi samtaka sem aðhyllist sameiningu Transnistríu við Moldóvu. Flestir íbúar svæðisins séu með moldóvskan ríkisborgararétt og séu því frjálsir ferða sinna innan Evrópusambandsríkja. Þá sé meirihlutinn einnig með úkraínsk eða rússnesk vegabréf og sæki margir æðri menntun til þeirra ríkja. Spenna ríki í samskiptum moldóvskra og transnistrískra stjórnvalda en einhver árangur hafi náðst með undirritun samnings um viðurkenningu prófskírteina útgefnum í Transnistríu. Þá hafi brú verið opnuð í nóvember 2017 á milli Transnistríu og Moldóvu sem auðveldi flæði fólks og varnings. Önnur tilraun til samningaviðræðna á milli Moldóvu og Transnistríu hafi verið gerð í nóvember síðastliðnum í Vínarborg en umleitanir Igor Dodon, forseta Moldóvu, hafi aðeins skilað sér í aukinni spennu milli svæðanna. Þá kemur fram í skýrslu frjálsu félagasamtakanna Civil Rights Defenders að ákvæði hafi verið bætt við hegningarlög Transnistríu þann 27. júní 2016 sem kveði á um að athafnir eða orðræða sem sýni rússneska hernum á svæðinu óvirðingu séu refsiverðar. Slíkt brot geti varðað allt frá háum fjársektum til þriggja ára fangelsis.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2018 kemur fram að löggæslustofnanir í Moldóvu geti ekki aðstoðað íbúa Transnistríu innan svæðisins og því geti einstaklingar sem stafi hætta af transnistrískum stjórnvöldum ekki fengið vernd innan svæðisins. Þá séu einstaklingar sem óttist einstaklinga ótengda ríkinu einnig ólíklegir til að fá vernd transnistrískra stjórnvalda en vernd standi þeim almennt til boða af hálfu stjórnvalda annarsstaðar í Moldóvu. Þá sé flutningur innan Moldóvu almennt í boði fyrir íbúa Transnistríu.

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Rússland sambandsríki með um 144 milljónir íbúa. Eftir fall Sovétríkjanna árið 1991 gerðist Rússland aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 1973 og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1976. Rússland gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987 og samþykkti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2006.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að staða mannréttinda í Rússlandi hafi versnað í kjölfar endurkjörs Vladimirs Pútíns sem forseta Rússlands árið 2012. Þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins mæli fyrir um þrískiptingu ríkisvalds þá bendi gögn til þess að viðvarandi vandi sé í stjórnkerfi Rússlands vegna samþjöppunar valds í höndum forseta landsins. Með aðstoð lögreglu, áróðri og löggjöf kúgi stjórnvöld íbúa landsins. Yfirvöld hafi þrengt að borgaralegum réttindum í Rússlandi m.a. með lagasetningu sem takmarki möguleika erlendra stofnanna og jafnvel frjálsra félagasamtaka til að aðhafast í landinu þar sem yfirvöld líti á starfsemi þeirra sem ógn við ríkið. Þrátt fyrir að stjórnarskrá Rússlands tryggi sjálfstæði dómstóla landsins sé spilling viðvarandi vandamál í dómskerfinu. Bæði dómstólar og löggæsla séu notuð af stjórnvöldum til að kúga íbúa ríkisins.

Starfandi sé umboðsmaður mannréttinda í Rússlandi (e. Commissioner of Human Rights) sem hafi gefið út þá yfirlýsingu að hún hyggist einbeita sér að félagslegum réttindum og því að styðja rússneska ríkisborgara utan Rússlands. Víða í Rússlandi séu svæðisbundnar skrifstofur umboðsmanns mannréttindamála, en gögn bendi til þess að stjórnvöld grafi undan sjálfstæði skrifstofanna jafnframt sem skilvirkni þeirra sé ábótavant. Þá hafi mannréttindaráð Vladimirs Pútíns (e. The Presidential Council for Civil Society and Human Rights) heimild til að fylgjast með störfum umboðsmanns.

Þá komi jafnframt fram í ofangreindum gögnum að stjórnarskrá og önnur landslög kveði á um tjáningar- og fjölmiðlafrelsi en á undanförnum árum hafi stjórnvöld takmarkað þennan rétt í auknum mæli, þ.m.t. frelsi til tjáningar á veraldarvefnum. Ýmis umræðuefni á vefnum, og þá helst gagnrýni á stjórnvöld, hafi m.a. leitt til lokunar á vefsíðum, sekta og jafnvel fangelsisvistar. Löggjöf gegn t.d. öfgahreyfingum, landráði og hryðjuverkum hafi verið notuð til að þagga niður í baráttufólki fyrir mannréttindum og meðlimum stjórnarandstöðunnar. Ríkið eigi stóran hlut í hinum ýmsu fjölmiðlum landsins og hafi töluverð áhrif á það sem þar komi fram.

Leyniþjónusta Rússlands, og arftaki KGB, nefnist FSB og hafi forseti Rússlands yfirumsjón með starfsemi stofnunarinnar. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað beri innanríkisráðuneytið, FSB, rannsóknarnefnd (e. the Investigative Committee), skrifstofa saksóknara (e. the Office of the Prosecutor General) og þjóðvarðarliðið (e. the National Guard) ábyrgð á löggæslu í öllu ríkinu. Þá sé FSB ábyrgt fyrir öryggi landsins og sinni stofnunin gagnnjósnum, innra öryggi og eftirliti, öryggi landamæra, baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi og skipulagðri glæpastarfsemi. dómstóla ríkisins.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir ástæðu flótta síns á því að hann eigi hættu á ofsóknum af hálfu yfirvalda í Transnistríu vegna stjórnmálaskoðana sinna. Enn fremur hafi hann orðið fyrir áreiti af hálfu einstaklinga á spjallborðum þar sem hann hafi tjáð skoðanir sínar. Kærandi hafi gegnt herskyldu í rússneska hernum og telji hermenn hafa verið heilaþvegna og mataða á röngum upplýsingum. Þá fái hermenn og almenningur rangar upplýsingar frá stjórnvöldum m.a. varðandi átökin í Úkraínu. Kærandi kveðst ekki hafa búið í Rússlandi þar sem hann verði fyrir áreiti í ríkinu þar sem hann hafi sinnt herskyldu í Moldóvu. Enn fremur sé kæranda ekki stætt í öðrum hlutum Moldóvu en Transnistríu þar sem Rússum sé mismunað í ríkinu.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á viðtali við kæranda hjá kærunefnd, endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa orðið fyrir ofsóknum í heimaríki af hálfu stjórnvalda en kveðst óttast að verða fyrir ofsóknum af þeirra hálfu sem og almennra borgara sökum stjórnmálaskoðana sinna. Í viðtali kæranda hjá kærunefnd þann 21. febrúar 2019 greindi hann frá því að hafa tekið þátt í mótmælum í Transnistríu árið 2017 og í kjölfarið hafi maður sem kvaðst vera frá KGB beðið kæranda fyrir utan vinnustað hans. Maðurinn hafi spurt kæranda út í mótmælin og sagt honum að óæskilegt sé að hann tjái skoðanir sínar, en kærandi hafi greint frá skoðunum sínum varðandi rússneska herinn við samborgara sína sem hafi sagt honum að flytja annað sé hann ósáttur við ástandið. Þá hafi kærandi einnig tjáð skoðanir sínar á veraldarvefnum en umræðuhópnum sem hann hafi verið í hafi verið eytt af stjórnvöldum. Kærandi kvað í viðtali hjá kærunefnd að hann hafi ekki verið handtekinn eða orðið fyrir öðru áreiti sem telja megi til ofsókna í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga af hálfu transnistrískra yfirvalda. Gögn um heimaríki kæranda benda hins vegar til þess að á heimasvæði kæranda séu mannréttindi takmörkuð, m.a. funda- og tjáningarfrelsi.

Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi hafi gagnrýnt stjórnvöld og að hann kunni að hafa orðið fyrir áreiti af hálfu ótilgreindra einstaklinga. Það er þó mat kærunefndar að þeir atburðir sem kærandi hafi lýst nái ekki því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um eða að hann eigi á hættu ofsóknir í skilningi ákvæðisins.

Kærandi lagði við meðferð málsins fram gögn sem leiða að því líkur að hann sé með tvöfalt ríkisfang, þ.e. í Moldóvu og Rússlandi. Þá greindi kærandi frá því í viðtali hjá kærunefnd að hann hafi ferðast reglulega til Rússlands auk þess sem bróðir hans og faðir séu búsettir þar. Kærandi greindi enn fremur frá því að hann hafi orðið fyrir áreiti í Rússlandi þar sem hann hafi sinnt herskyldu fyrir rússneska herinn í Moldóvu sem valdi tortryggni rússneskra stjórnvalda. Kærandi kvað áreitið felast í því að hann sé reglulega stöðvaður og skilríki hans skoðuð undir því yfirskini að stjórnvöld séu að athuga hvort hann sé viðriðin glæpastarfsemi.

Í viðtali hjá kærunefnd greindi kærandi frá því að hann geti ekki búið í öðrum hlutum Moldóvu, m.a. þar sem hann yrði handtekinn á flugvellinum í Moldóvu við komuna til landsins. Kærandi kvaðst ekki óttast varðhald en telji að hann verði inntur eftir upplýsingum um Transnistríu af moldóvskum yfirvöldum. Þá kvað kærandi að einstaklingar af rússneskum uppruna sæti mismunun í Moldóvu sem birtist m.a. í takmörkuðu aðgengi að námi, atvinnumarkaði og heilbrigðisþjónustu. Enn fremur fái rússneskumælandi einstaklingar ekki aðstoð við að aðlagast samfélaginu frá yfirvöldum á borð við tungumálakennslu. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar kemur fram að gjá sé á milli íbúa Moldóvu sem tali rússnesku og moldóvsku. Hins vegar sé til staðar rússneskumælandi samfélag sem hafi m.a. sína eigin fjölmiðla og menntastofnanir. Þau gögn sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar bera ekki með sér að einstaklingar af rússneskum uppruna verði almennt fyrir kerfisbundinni mismunun eða ofsóknum á grundvelli uppruna síns í Moldóvu. Þá kemur fram að óhætt sé fyrir einstaklinga að tjá stjórnmálaskoðanir sínar í Moldóvu. Í fyrirliggjandi heimildum um heimaríki kæranda kemur fram að moldóvsk stjórnvöld hafi verið gagnrýnd fyrir að flytja eftirlýsta einstaklinga til yfirvalda í Transnistríu en ekki eru upplýsingar um umfang þeirrar framkvæmdar. Samkvæmt frásögn kæranda hefur ekki verið gefin út handtökutilskipun á hendur honum. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins kemur fram að einstaklingum sem flýi Transnistríu standi almennt vernd til boða af hálfu stjórnvalda annarsstaðar í Moldóvu.

Í ljósi þess sem að framan greinir er ekki ástæða til að taka afstöðu til þess hvort kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir verði hann sendur til Rússlands.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi hefur greint frá erfiðum aðstæðum í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna. Þá hafi kærandi aldrei búið í öðrum hluta Moldóvu en Transnistríu. Þá óttist hann að verða fyrir mismunun í Moldóvu sökum rússnesk uppruna síns. Enn fremur telji kærandi sig í hættu í Rússlandi vegna stjórnmálaskoðana sinna og þess að hann hafi sinnt herskyldu í Moldóvu. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í heimaríki telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að beiting ákvæðisins teljist heimil.

Af gögnum málsins verður ekki séð annað en að kærandi sé heilsuhraustur. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Kærandi gerir athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans, einkum mat Útlendingastofnunar á möguleikum kæranda á vernd moldóvskra lögreglu og annarra yfirvalda. Má af greinargerð ráða að kærandi telji að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kæranda við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun um flesta þætti málsins. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 14. janúar 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu og kemur frá öruggu upprunaríki. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 7 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 7 days to leave the country voluntarily.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta