Félags- og barnamálaráðherra framlengir reynsluverkefninu Ráðgjafastofu innflytjendamála um sex mánuði
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að framlengja starfsemi Ráðgjafastofu innflytjendamála um sex mánuði. Stofan opnaði í febrúar á þessu ári en um var að ræða reynsluverkefni til þess að mæta aukinni þörf fyrir aðgengilegar upplýsingar og ráðgjöf meðal innflytjenda. Markmið með verkefninu er að bjóða innflytjendum allar helstu upplýsingar á einum stað vegna fjölbreyttra erinda og fá leiðbeiningar um hvert skal leita til að fá viðeigandi aðstoð eða þjónustu. Þá geta innflytjendur bókað viðtal hjá ráðgjöfum stofunnar.
Hjá Ráðgjafastofunni geta innflytjendur fengið upplýsingar um allt sem við kemur réttindum þeirra og skyldum og stendur öllum til boða þeim að kostnaðarlausu. Boðið er bæði upp á ráðgjöf á staðnum og netspjall við ráðgjafa á átta tungumálum á heimasíðu Ráðgjafastofunnar.
Ráðgjafastofunni hafa borist yfir 1500 erindi frá opnun og berast stofunni fjölbreyttar fyrirspurnir er varðar flest sem snertir samfélagið svo sem vinnumarkað, heilbrigðisþjónustu, menntun, skráningu í landið, húsnæðismál, félagsþjónustuna, sifjarétt, heimilisofbeldi og fjármál.
Verkefnastjórn er yfir Ráðgjafastofunni og er hlutverk hennar að vera ráðgefandi, fylgja verkefninu eftir á reynslutímabilinu og meta árangur þess. Í verkefnastjórnin eru fulltrúar frá dómsmálaráðuneyti, innflytjendaráði, Fjölmenningarsetri, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Vinnumálastofnun og Reykjavíkurborg auk félagsmálaráðuneytisins.
Ráðgjafastofan er í samvinnu við fjölda aðila meðal annars; Fjölmenningarsetur, Mannréttindaskrifstofu Íslands um lögfræðiráðgjöf, Umboðsmann skuldara, Hjálpastarf kirkjunnar, ASÍ, Leigjendaaðstoðina og Almannavarnir.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er gífurlega mikilvægt að innflytjendur geti leitað á einn stað þess að fá vandaða ráðgjöf og leiðbeiningar. Ljóst er að þörfin er mikill enda hafa 1500 erindi borist Ráðgjafastofunni á þeim níu mánuðum sem hún hefur starfað og því höfum við ákveðið að framlengja verkefnið til sex mánaða.“