Lyfjastofnun falið eftirlit með lækningatækjum
Ábyrgð á umsýslu og eftirliti með lækningatækjum hefur verið færð frá embætti landlæknis til Lyfjastofnunar samkvæmt breytingu á lögum um lækningatæki nr. 16/2001 sem samþykkt var á Alþingi nýlega.
Í verkefninu felst að hafa eftirlit með öryggi lækningatækja og réttri notkun. Markmið eftirlitsins er að koma í veg fyrir að sjúklingar verði fyrir tjóni og tryggja að framleiðsla, viðhald og notkun lækningatækja sé í samræmi við bestu fagþekkingu á hverjum tíma. Lagabreytingin felur ekki í sér efnislega breytingu á framangreindum verkefnum heldur einungis að umsjón með þeim flytjist í heild sinni frá embætti landlæknis til Lyfjastofnunar.
Hjá Lyfjastofnun er fyrir hendi sérþekking á vinnuaðferðum við eftirlit með lyfjum og notkun verkferla við tæknieftirlit. Þessi þekking mun nýtast vel við eftirlit með lækningatækjum og fellur málaflokkurinn því vel að verksviði stofnunarinnar.