Þing Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar
Forvarnir og aðgerðir til að sporna gegn útbreiðslu alvarlegra langvinnra sjúkdóma eru í brennidepli á 64. þingi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem haldið er í Genf dagana 16. – 24. maí.
Áætlað er að árlega megi rekja um 60% dauðsfalla í heiminum til hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, krabbameina og sjúkdóma í öndunarfærum. Samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar létust rúmar 36 milljónir manna af völdum þessara sjúkdóma árið 2008. Sterk tengsl eru milli fátæktar og dauðsfalla af þessum völdum þar sem um 80% þeirra urðu í lág- og millitekjuríkjum (e: low- and middle-income countries).
Nýlega kom út skýrsla WHO um stöðu þessara mála, Global Status Report on Noncommunicable diseases, þar sem fram kemur að tíðni þessara sjúkdóma fer ört vaxandi. Stofnunin bendir á að með markvissari beitingu þekktra úrræða og aðgerða megi fyrirbyggja milljónir dauðsfalla. Er þá einkum bent á aðgerðir til þess að draga úr reykingum, stuðla að heilbrigðara mataræði, sporna gegn misnotkun áfengis og bæta aðgengi fólks að nauðsynlegri heilsugæslu.
Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins, ávarpaði þing Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í vikunni. Hún sagði mikilsvert að stofnunin skyldi beina sjónum sérstaklega að fyrrnefndum sjúkdómum sem væru stórt og vaxandi heilbrigðisvandamál á heimsvísu. Þá væri áberandi hve sjúkdómsbyrðinni væri misskipt milli þjóða sem margar glímdu við allt að tvöfaldan vanda vegna langvinnra sjúkdóma og smitsjúkdóma.
Anna Lilja nefndi í ávarpi sínu þátttöku Íslands í nýhöfnu átaki Sameinuðu þjóðanna, Áratug aðgerða til fækkunar á umferðarslysum. Í því sambandi sagði hún frá stuðning Íslands við rannsóknir á meðferð við mænuskaða, en ríkisstjórnin ákvað fyrir nokkru að fela utanríkis-, velferðar- og innanríkisráðherrum að kanna hvernig Ísland getur stuðlað að vitundarvakningu á alþjóðavettvangi vegna mænuskaða
Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins, ávarpar þing Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.